[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
TÆPLEGA 52% svarenda sem þátt tóku í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, dagana 18.-24. febrúar sl.

TÆPLEGA 52% svarenda sem þátt tóku í könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir Morgunblaðið, dagana 18.-24. febrúar sl. telja að stjórnvöld eigi að leggja frekar litla eða mjög litla áherslu á að Ísland taki sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Spurt var hvort stjórnvöld ættu að leggja mikla, nokkra eða litla áherslu á að Ísland tæki sæti í Öryggisráðinu.

Rúm 48% (48,4%) þeirra sem afstöðu tóku telja að stjórnvöld eigi að leggja nokkra, frekar mikla eða mjög mikla áherslu á að Ísland taki sæti í Öryggisráðinu. Hlutfall þeirra sem neituðu að svara er 2,5% og 18,5% aðspurða voru óvissir.

Minnstur stuðningur meðal fylgismanna frjálslyndra

Mestur stuðningur við umsókn Íslands um sæti í Öryggisráðinu er meðal stuðningsmanna Framsóknarflokksins, skv, könnuninni, alls telja 43,9% þeirra sem hyggjast kjósa flokkinn í næstu alþingiskosningum, að stjórnvöld eigi að leggja mjög mikla eða frekar mikla áherslu á að Ísland taki sæti í ráðinu. Hjá þeim sem ætla að kjósa Sjálfstæðisflokk er hlutfallið 28,1%, 23,5% hjá stuðningsmönnum Samfylkingar, 25% hjá Vinstri grænum og 34,6% hjá þeim sem ætla að kjósa Frjálslynda flokkinn.

Minnstur stuðningur við að Ísland taki sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er meðal fylgismanna Frjálslynda flokksins; alls töldu 61,5% þeirra sem hyggjast kjósa flokkinn í næstu alþingiskosningum að stjórnvöld ættu að leggja mjög eða frekar litla áherslu á að Ísland tæki sæti í Öryggisráðinu. Næst minnstur er stuðningurinn meðal fylgismanna Samfylkingar, 58,3% telja að stjórnvöld eigi að leggja litla áherslu á sæti í Öryggisráðinu, þá koma stuðningsmenn vinstri grænna, 56,6%, Sjálfstæðisflokks, 49,7%, og Framsóknarflokks, 35,1%, en þar er andstaðan við sæti Íslands í ráðinu minnst.

Stuðst var við 1.200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá í könnuninni sem náði til fólks á aldrinum 18-75 ára. Svarhlutfall var 71,7%.