350Z Roadster er með 280 hestafla vél og afturhjóladrifinn.
350Z Roadster er með 280 hestafla vél og afturhjóladrifinn. — Morgunblaðið/Guðjón Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er sláttur á Nissan þessa dagana. Um leið og kynntur var splunkunýr Pathfinder jeppi fyrir Evrópu suður í Portúgal gafst tóm til að prófa í fyrsta sinn hinn magnaða sportbíl 350Z í Roadster-útgáfu.

ÞAÐ er sláttur á Nissan þessa dagana. Um leið og kynntur var splunkunýr Pathfinder jeppi fyrir Evrópu suður í Portúgal gafst tóm til að prófa í fyrsta sinn hinn magnaða sportbíl 350Z í Roadster-útgáfu. Þegar Bandalag íslenskra bílablaðamanna valdi bíl ársins sl. haust gafst tækifæri til að prófa Ameríkuútgáfuna af þakbílnum á kvartmílubrautinni í Hafnarfirði. Undirrituðum þótti mikið til um aksturseiginleika og afl þessa bíls og setti hann í fyrsta sæti í sportbílaflokknum, en þar varð hann reyndar að lúta í lægra haldi fyrir hinum vel heppnaða Mazda RX8. Hálfu ári seinna gafst síðan tækifæri til að prófa blæjugerð 350Z suður í Portúgal.

20 sekúndna blæja

350Z er ein rennilegasta hönnun í bíl sem fyrirfinnst. Það er eins og bíllinn hafi verið mótaður af vindi og vatni þar til engin mótstaða var lengur fyrir hendi. Þannig eru nánast engin horn á bílnum; allir fletir eru aflíðandi og ávalir. Samt er dálítið undarlegt að sjá hurðarhúnana á bílnum, eftir að hafa ekið um á Pathfinder jeppa með nákvæmlega eins hurðarhúnum á afturhúnunum. Þeir hefðu að sönnu mátt vera fíngerðari á 350Z, svona eftir á að hyggja.

Þótt það rigndi þennan febrúardag í nágrenni Lissabon var að sjálfsögðu ekki hendinni slegið á móti tækifæri til að prófa gripinn. Stór floti beið blaðamanna fyrir utan hótelið og allir með blæjuna uppi. Samkvæmt upplýsingum Nissan er blæjan rafstýrð og tekur 20 sekúndur, nákvæmlega sama tíma og í Porsche 911 Cabriolet, að setja blæjuna niður í hólf aftan við sætin. Sama tíma tekur að setja blæjuna upp. Ef marka má viðbrögð markaðarins við 350Z Coupe, sem seldist á sínu fyrsta ári í fyrra í 9.000 eintökum í Evrópu, má búast við að blæjugerðin fái hlýjar móttökur hjá áhugamönnum um litla, netta og aflmikla sportbíla.

Sögulegir Z-bílar

Nissan Z er ekki nýr af nálinni. 1970 komu á markaðinn tveir nýir sportbílar; Porsche komst að þeirri niðurstöðu að pláss væri fyrir ódýrari gerð sportbíls og kynnti til sögunnar 914 með fjögurra strokka vél frá VW. Frá Datsun, sem seinna varð Nissan, kom rennilegur sportbíll sem kallaðist 240Z, bíll sem margir dást ennþá að. Þess er skemmst að minnast að 914 var vandræðagripur og var aðeins framleiddur í sex ár en Z-bíll Nissan er ennþá í fullu fjöri, nú í formi 350Z, og aldrei verið betri og fallegri en nú.

Bílahönnun og þar með ytra útlit er það fyrsta sem mætir auganu. Það sem einum þykir fallegt er hönnunarmistök í augum annarra. Undirrituðum þykir hönnun nýjustu kynslóðar 350Z hafa tekist með afbrigðum vel. Bílinn sá hann fyrst þegar hann var frumsýndur í Tókýó árið 2000, en þá að sjálfsögðu í coupe-útfærslu og þar kallaðist hann Fairlady. Síðan er bíllinn búinn að vera á markaði þar og einnig í Bandaríkjunum en það var ekki fyrr en á síðasta ári sem Evrópugerðin var kynnt. Roadsterinn kemur síðan á markað í Evrópu í mars og verður með sömu 3,5 lítra, V6-vélinni sem gefur 280 hestöfl til afturhjólanna.

Kraftur og snerpa

Og fyrir utan útlitið er það afl Nissan 350Z og aksturseiginleikarnir sem heilla mann upp úr skónum. Það eru gjöful 280 hestöfl sem fara öll til afturhjólanna í þessum litla og netta sportbíl í gegnum sex gíra handskiptan kassa. Prófari byrjaði strax á því að slökkva á ESP-stöðugleikakerfinu og gefa bílnum hraustlega inn fyrstu metrana. Það var ekki að sökum að spyrja. Bíllinn rann til hliðanna að aftan og var réttur af snarlega með því að stýra á móti hreyfingunni. Virkilega lofandi byrjun - og það fyrsta sem kom upp í hugann var mótorhjól - slík er snerpan. Það var ekki nóg með að hægt væri að spóla honum í fyrsta gír því jafnvel í öðrum og þriðja gír mátti losa hann af malbikinu. En nóg um strákslegt eðli prófara.

Nissan 350Z hefur miklu meira til brunns að bera en eingöngu snerpuna í upptaki. Hann er algjör gimsteinn í akstri. Reyndar allharður á fjöðrun, eins og vera ber, og tekur þar með hverja misfellu í vegi vel upp í gegnum stýrið. Ökumaður hefur líka næma tilfinningu fyrir veginum og kenjum bílsins í gegnum stýrið.

Bíllinn kemur á 18 tommu felgum og dekkin eru Bridgestone, 225/45R að framan, og 245/45R að aftan - ekki veitir af gúmmíi til að taka við 280 hestöflum sem fara öll til afturhjólanna. Bíllinn er á grjótharðri sportfjöðrun og stöðugleiki hans á vegum er mikill. Þyngdarpunkturinn er lægri í blæjubílnum en coupe-bílnum og þyngdardreifingin er 53/47 sem er hagstætt upp á aksturseiginleika og dregur úr hættu á yfirstýringu, sem þó er vissulega til staðar þegar bílnum er beitt í beygjum með slökkt á ESP-kerfinu.

Annað sem erfitt er að lýsa með orðum er hljóðið frá þessari mögnuðu V6-vél, sem hægt er að spila á eins og hljóðfæri í gegnum sex gíra, handskiptan kassann. Bíllinn fer í hundraðið á 6,4 sekúndum, sem er sama upptak og í Porsche Boxster en 0,7 sekúndum lakara en í Boxster S. Boxsterinn er kannski helsti keppinautur 350Z, en þó ekki í verði þar sem sá síðarnefndi hefur vinninginn. Gírkassinn er sérlega sportlegur; stutt er á milli gíra og bíllinn raunar það hágíraður að það er varla að fimmti hvað þá sjötti gírinn sé notaður innanbæjar.

Nissan 350Z er hið næstum því fullkomna leikfang - það læðist bros á vör í hvert sinn sem sest er undir stýri á þessum bíl; hvort sem hann er með blæjuna uppi eða niðri eða með stálþak.

gugu@mbl.is