Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra setti nýju flæðieldunarlínuna af stað og smakkaði svo að sjálfsögðu á afurðinni þegar hún skreið úr ofninum. Ekki var annað að skilja af ráðherra en maturinn smakkaðist ágætlega.
Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra setti nýju flæðieldunarlínuna af stað og smakkaði svo að sjálfsögðu á afurðinni þegar hún skreið úr ofninum. Ekki var annað að skilja af ráðherra en maturinn smakkaðist ágætlega. — Morgunblaðið/ÞÖK
NÝ flæðieldunarlína var tekin í notkun hjá kjúklingaframleiðandanum Matfugli í gær, en síaukin eftirspurn eftir tilbúnum réttum sem aðeins þarf að hita gerir þessa 50 milljóna króna fjárfestingu fýsilega, segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri...

NÝ flæðieldunarlína var tekin í notkun hjá kjúklingaframleiðandanum Matfugli í gær, en síaukin eftirspurn eftir tilbúnum réttum sem aðeins þarf að hita gerir þessa 50 milljóna króna fjárfestingu fýsilega, segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Matfugls.

"Áður vorum við að setja þetta í hefðbundna veggofna, en nú erum við komnir með færibandaofn sem sér alveg um þetta. Þetta byggist á þrískiptu eldunarferli; hitun, gufu, og hitun aftur í lokin sem gerir þetta stökkt. Eftir það kemur sérstök kælieining sem gerir það að verkum að safinn varðveitist sem best í kjötinu," segir Friðrik og bætir við að afurðin sé tilbúin eftir 5-7 mínútur á grillinu.

Friðrik segir ofninn bjóða upp á endalausa möguleika, og ný lína með blönduðum bitum, sem komi í búðir í vikulok, sé einungis byrjunin. Markaðurinn kalli í auknum mæli á tilbúna rétti sem aðeins þurfi að hita.