Magnús Jónsson, sem mun leika eitt af aðalhlutverkum í Kabarett, tók lagið á blaðamannafundi í Óperunni í gær.
Magnús Jónsson, sem mun leika eitt af aðalhlutverkum í Kabarett, tók lagið á blaðamannafundi í Óperunni í gær. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is Æfingar Leikhópsins Á senunni á söngleiknum Kabarett eftir Masteroff, Ebb og Kander eru byrjaðar og var sýningin kynnt á blaðamannafundi í Íslensku óperunni í gær.
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is

Æfingar Leikhópsins Á senunni á söngleiknum Kabarett eftir Masteroff, Ebb og Kander eru byrjaðar og var sýningin kynnt á blaðamannafundi í Íslensku óperunni í gær.

Söngleikurinn er gerður eftir leikriti John van Druten "I am Camera" en það leikrit var unnið upp úr bókinni "The Berlin Stories" eftir rithöfundinn Christopher Isherwood.

Verkið fjallar um Berlín á millistríðsárunum, uppgangstímum nasista. Bandaríkjamaðurinn Cliff Bradshaw kemur til borgarinnar að skrifa skáldsögu en dregst inn í hringiðu öfgasamfélagsins. Annars vegar er það skemmtunin á Kit Kat klúbbnum og hins vegar stjórnmálin.

Leikstjóri verksins, Kolbrún Halldórsdóttir, segir tíðarandann nú vera rétta tímann fyrir verk eins og Kabarett. "Nú eru 60 ár liðin frá seinni heimsstyrjöldinni og mér finnst fólk vera mjög móttækilegt fyrir verkum sem fjalla um þennan tíma sem við þekkjum vel úr sögunni."

Kabarett hefur þrisvar áður verið settur á fjalir atvinnuleikhúss, síðast fyrir ellefu árum. Kolbrún segir að Á senunni muni fara að einhverju leyti nýjar leiðir í uppsetningu.

"Haft er að leiðarljósi að sagan byggist á raunverulegum persónum en við erum að framleiða sýningu fyrir áhorfendur ársins 2005. Við förum kraftmikla leið nútímaleikhúss þar sem útlitið er svolítið hrátt og nútímasvipur er á dansi og söng. Samt sem áður höldum við okkur við tímabil sögunnar en förum þó nútímaleiðir," segir Kolbrún.

Sýningin mun skarta fjölmennu liði leikara, þar á meðal Eddu Þórarinsdóttur, sem lék í fyrstu uppsetningu Þjóðleikhússins á Cabaret á áttunda áratugnum, Borgari Garðarssyni, Þórunni Lárusdóttur, Magnúsi Jónssyni og Felix Bergssyni. Notast verður við nýja þýðingu Veturliða Guðnasonar.

Leikhópurinn Á senunni var stofnaður árið 1999 og er Kabarett sjöunda verkefni hópsins og jafnframt það langstærsta til þessa.

Sýningar hefjast í Íslensku óperunni 4. ágúst næstkomandi og stefnir leikhópurinn á sýningar fram að áramótum.