HITAVEITA Suðurnesja hefur skilað til Skipulagsstofnunar umhverfismatsskýrslu vegna breytingar á legu háspennulínu frá Reykjanesvirkjun að Sýrfelli þar sem hún tengist línu sem mun liggja að Rauðamel.

HITAVEITA Suðurnesja hefur skilað til Skipulagsstofnunar umhverfismatsskýrslu vegna breytingar á legu háspennulínu frá Reykjanesvirkjun að Sýrfelli þar sem hún tengist línu sem mun liggja að Rauðamel. Í seinni valkostinum er gert ráð fyrir jarðstreng hluta af leiðinni en Hitaveita Suðurnesja segir að ef hann verði ofan á sé ekki hægt að hefja orkusölu á tilsettum tíma.

Línan frá Sýrfelli að Rauðamel hefur þegar verið samþykkt af Skipulagsstofnun og eru framkvæmdir við vegalagningu hafnar.

Í skýrslunni eru gefnir upp tveir valkostir, annars vegar að leggja loftlínu frá virkjuninni að Sýrfelli (valkostur 1) og hins vegar að leggja háspennustreng í jörðu frá virkjuninni að Sýrfellsdrögum (valkostur 2).

Yrði fyrsti 220 kV jarðstrengur á landinu

Aðalvalkostur Hitaveitunnar er að leggja loftlínu enda er það mun ódýrari kostur; loftlínan er talin kosta um 60 milljónir en jarðstrengurinn um 230-250 milljónir króna. Þá segir í skýrslunni að verði jarðstrengurinn fyrir valinu muni áætlanir um að virkjunin skili frá sér orku í byrjun árs 2006 ekki standast og er ástæðan sögð sú að afgreiðslutími strengsins sé langur og að ekki sé hægt að leggja strenginn ef lofthiti er fyrir neðan frostmark.

Háspennulínan frá Reykjanesvirkjun þarf að vera byggð fyrir 220 kV spennu. Egill Sigmundsson, forstöðumaður rafmagnsdeildar Hitaveitu Suðurnesja, segir að svo öflugur strengur hafi aldrei verið lagður í jörð hér á landi og samkvæmt þeirra upplýsingum kosti um 4-12 sinnum meira að leggja jarðstreng en loftlínu. Þá sé óæskilegt að leggja jarðstreng í jörðu á háhitasvæði þar sem ávallt sé hætta á því að hiti streymi upp á nýjum stöðum. Jafnvel þó að strengurinn myndi ekki skemmast þá drægi hiti verulega úr flutningsgetu strengsins. Aðspurður sagði hann að aldrei hafi komið til álita að leggja jarðstreng alla leið frá virkjuninni að Rauðamel.

Ber tiltölulega lítið á möstrunum

Egill minnir á að möstrin sem reist verða fyrir línuna séu af gerð sem tiltölulega lítið beri á í landslagi, svokölluð M-möstur. Þetta séu möstur af sömu gerð og liggja samsíða Reykjanesbrautinni, nema þau verði um 6-7 metrum hærri en ástæðan fyrir því er sú að spennan á háspennulínunni meðfram brautinni er lægri eða 132 kV. Heildarkostnaður við loftlínu frá virkjuninni að Rauðamel er um 250 milljónir króna.

Hitaveitan hafði áður látið meta umhverfisáhrif allrar línunnar, þ.e. frá virkjuninni að Rauðamel, en eftir að ákveðið var að breyta staðsetningu stöðvarhússins varð að breyta línustæðinu og sú breyting er nú í umhverfismati. Almenningi gefst kostur á að gera athugasemdir við matsskýrsluna og getur sent þær til Skipulagsstofnunar til 8. júlí nk. Von er á úrskurði í ágúst.

Samkvæmt mati á umhverfisáhrifum sem Verkfræðistofan Línuhönnun hefur gert hefur breytingin á línustæðinu ekki umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Í skýrslunni segir að varanleg áhrif af völdum jarðstrengs verði meiri en af völdum línuvegar meðfram loftlínu þar sem erfitt sé að laga slóð jarðstrengs að landslagi. Áhrifanna gæti þó eingöngu innan iðnaðarsvæðisins. Verði lögð loftlína mun ásýnd svæðisins séð frá Stampagígum breytast talsvert og nokkuð frá Bæjarfelli, en minna úr öðrum áttum. Jarðstrengur breyti landslaginu á hinn bóginn minna og eru áhrifin sögð afturkræf. Breyting á legu háspennulínunnar er ekki talin hafa umtalsverð áhrif á upplifun ferðamanna, eða þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar við skráningu svæðisins á náttúruminjaskrá og náttúruverndaráætlun.

Fyrir þá sem ekki hafa netaðgang geta þeir nálgast skýrsluna um mat á umhverfisáhrifum á Þjóðarbókhlöðunni, bæjarskrifstofum Grindavíkurbæjar og Reykjanesbæjar og hjá Skipulagsstofnun.

Þarf nýja línu fyrir álver í Helguvík

REYKJANESVIRKJUN mun framleiða 100 MW af rafmagni og hefur verið samið um að Norðurál á Grundartanga kaupi orkuna. Að sögn Egils Sigmundssonar, forstöðumanns rafmagnsdeildar Hitaveitu Suðurnesja, þarf ekki að leggja nýja háspennulínu eftir Reykjanesskaganum vegna virkjunarinnar heldur dugar núverandi lína til að flytja orkuna. Verði álver reist í Helguvík þurfi á hinn bóginn að reisa nýja línu sem væntanlega yrði lögð við hliðina á núverandi línu.

Eymundur Sigurðsson, yfirmaður kerfisrannsókna hjá Landsneti, segir að ekki hafi verið gerð sérstök athugun á því hvort reisa þurfi nýja línu vegna hugsanlegs álvers í Helguvík, en hjá fyrirtækinu þyki mönnum þó afar líklegt að það verði nauðsynlegt.

Verði af byggingu álvers í Helguvík munu því tvær háspennulínur liggja eftir Reykjanesskaganum.

Eymundur segir að ekki sé hægt að líta svo á að háspennulínurnar flytji orkuna frá virkjununum og til álveranna heldur fari orkan inn á kerfi Landsnets og þaðan sé henni dreift til orkukaupenda. Í þessu tilfelli þurfi orkusalinn, Hitaveita Suðurnesja, að tryggja framboð á 100 MW inn á kerfi Landsnets en Landsnet sjái síðan um að veita jafn mikilli orku til álversins.

Eymundur segir auk þess að nauðsynlegt verði að reisa tvær háspennulínur frá álverinu í Helguvík að næsta tengivirki Landsnets, trúlega að Fitjum. Ástæðan sé sú að álver séu afar viðkvæm fyrir spennurofi en ef spenna rofni í meira en 4-5 tíma storkni álið í kerunum. Viðgerð vegna slíks atburðar geti kostað gríðarlegar fjárhæðir, jafnvel allt að 50% af stofnkostnaði álversins. Eigendur álvera geri því miklar kröfur til öryggis á orkuafhendingu og af þeim sökum séu ávallt lagðar tvær háspennulínur að álverum.