Handa hverjum?
Handa hverjum?
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is Femínistafélagið skorar á Samtök atvinnulífsins Femínistafélag Íslands sendi í gær frá sér áskorun til SA. Félagið bendir á að skv.
Eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur aps@mbl.is

Femínistafélagið skorar á Samtök atvinnulífsins

Femínistafélag Íslands sendi í gær frá sér áskorun til SA. Félagið bendir á að skv. skattframtali séu konur með 62% af launum karla og að raunverulegur launamunur hverfi í skuggann "fyrir umfjöllun um leiðréttan launamun sem sýni hvernig hlutirnir gætu verið ef konur væru eins og karlar!" Félagið skorar m.a. á SA að gera könnun á viðhorfi stjórnenda til kvenna og karla.

Mismunur á launum kynjanna var nokkuð áberandi í fréttaumræðu um og eftir síðustu helgi. Fram kom að skv. könnun Viðskiptaháskólans á Bifröst gætu kvenkyns nemar átt von á tæplega 50% lægri launum eftir útskrift. Í framhaldinu voru birtar niðurstöður lokaverkefnis tveggja nemenda úr Háskólanum í Reykjavík sem sýndi að meðal útskrifaðra úr viðskiptadeild þar væri ekki marktækur launamunur á kynjum m/v vinnutíma.

Runólfur Ágústsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, sagði að umrædd könnun skólans hefði tekið til allra útskriftarnemenda hans sl. fimm ár og tæp 60% svarað. Kynjahlutfall nemenda á Bifröst væri mjög jafnt.

Hluti vandans að konur vinna minna

"Spurt var um brúttótekjur svo auðvitað vantar inn ákveðnar breytur en þetta er hins vegar mjög sláandi munur og jafnvel þótt teknar séu inn allar mögulegar breytur geta þær ekki skýrt 50% mun. Hluti af vandanum er auðvitað að konur vinna minna en karlmenn og það þarf að skoða út af fyrir sig. Hvaða þættir hafa áhrif er erfitt að segja en athuga má hvort fólk hefur mismunandi væntingar til launa eftir kyni. Önnur skýring gæti verið almennt vanmat atvinnulífsins á konum sem mér virðist nærtækasta skýringin og þar þarf að koma til breytt hugarfar. Fólk verður að gera sér grein fyrir að vandinn er til staðar og gera eitthvað í málunum."

Runólfur benti einnig á að hafa bæri í huga að um 60% útskrifaðra nemenda frá Bifröst færu beint inn í stjórnunarstöður sem væri mjög hátt hlutfall. Sterkar vísbendingar væru um að það væru frekar karlar en þeir væru oftar í æðri stjórnunarstörfum. Ánægjulegt væri að nám á Bifröst hækkaði laun kvenna meira en karla, en laun kvenna tvöfölduðust þannig meðan laun karla hækkuðu um áttatíu af hundraði. Engu að síður væri enn óútskýrður kynbundinn launamunur og ekki þýddi að reyna að tala sig út úr þeirri staðreynd.

Hjá Runólfi kom fram að meðalaldur útskriftarnema á Bifröst væri um 30 ár. Steinn Jóhannsson, forstöðumaður kennslusviðs HR, sagði að meðalaldur nemenda í viðskiptadeild HR væri 29,5 ár en margir nemendanna stunda háskólanám með vinnu. Aldursmunur væri því ekki breyta sem skýrði muninn á niðurstöðum frá HR og Bifröst. Ennfremur taldi Steinn að of mikið væri gert úr niðurstöðum könnunar um laun útskrifaðra nemenda frá Bifröst þar sem úrtakið væri ekki nógu stórt. En vissulega mætti til dæmis leita skýringa með athugunum á hvort þeir nemendahópar sem innrituðust í HR og Bifröst væru á einhvern hátt ólíkir. Steinn sagði að í deildinni væru konur 59% en karlar 41% nemenda og að af nemendum væru 59% yfir 29 ára gömul. Í könnun þeirri sem Háskólinn í Reykjavík hefur bent á svöruðu 108 manns sem útskrifast höfðu úr viðskiptadeild.

Félag viðskiptafræðinga með víðtækari prófanir

Nanna Ósk Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Félags viðskipta- og hagfræðinga, sagði að félagið hefði gert launakannanir frá 1987 og að frá 1997 væri launamunur kynjanna mældur. Nanna sagði einnig að von væri á niðurstöðum úr nýrri könnun í vikunni en ekki hægt að greina frá þeim strax. Í þeirri könnun verður gerð mun ítarlegri úttekt á launamun kynjanna og tekið tillit til fleiri þátta til að finna út raunverulegan kynbundinn launamun, að sögn Guðna Rafns Gunnarssonar hjá IMG Gallup. Í niðurstöðum kannana IMG fyrir FVH frá árunum 2003 og 2001 var miðgildi launa karla og kvenna borið saman og fékkst þá út að eftir að vinnuframlag var tekið með í reikninginn hefði launamunur aukist úr tæpum 15% árið 2001 í rúm 17% árið 2003. 1.060 manns tóku könnunina árið 2003.

Þær tölur eru ekki langt frá niðurstöðum launakannana VR sem sýna að árið 2004 var kynbundinn launamunur, þ.e. óútskýrður munur þegar búið er að taka tillit til vinnutíma, aldurs, starfsaldurs og starfsstéttar, 15%. Árið 2003 var hann 14% en munurinn á milli ára er ekki marktækur.

Kyn ekki sjálfstæð breyta

Í samtali við blaðakonu lagði Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, áherslu á að leita þyrfti að rótum vandans sem væri samspil ýmissa félagslegra þátta og yfirvinna þyrfti þá þætti sem hömluðu jafnri þátttöku allra á vinnumarkaði. Þegar kjarakannanir væru framkvæmdar þyrfti að gæta nákvæmni og taka inn allar breytur sem áhrif gætu haft á launamismun kynjanna, s.s. hvers eðlis störf væru og eiginleika launþegans. Kyn út af fyrir sig taldi hann ekki vísindalega breytu.