VIÐ uppnámi lá í ríkisstjórnarsamstarfinu og ráðherranefnd um einkavæðingu tók fram fyrir hendurnar á einkavæðingarnefnd nokkrum sinnum þegar Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands voru einkavæddir sumarið og haustið 2002, að því er fram kemur í...

VIÐ uppnámi lá í ríkisstjórnarsamstarfinu og ráðherranefnd um einkavæðingu tók fram fyrir hendurnar á einkavæðingarnefnd nokkrum sinnum þegar Landsbanki Íslands og Búnaðarbanki Íslands voru einkavæddir sumarið og haustið 2002, að því er fram kemur í ítarlegum fréttaskýringum Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, sem birst hafa í Fréttablaðinu fjóra síðustu daga.

Fram kemur meðal annars að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, breytti um afstöðu til fyrirkomulags á sölu bankanna eftir að Björgólfur Guðmundsson lýsti yfir áhuga fyrir hönd félagsins Samson á að kaupa annan hvorn ríkisbankann sumarið 2002, en þá var framkvæmdanefnd um einkavæðingu langt komin með að selja Landsbankann á almennum markaði þar sem enginn einn kaupandi fengi stærri hlut en 3-4%. Eftir þetta var söluferli bankanna tekið úr höndunum á nefndinni og verklagsreglur hennar settar til hliðar, en Steingrímur Ari Arason gagnrýndi þetta mjög þegar hann sagði sig úr nefndinni þremur mánuðum síðar, eftir að hafa setið í nefndinni í áratug. Endanlegt gengi á hlut ríkisins í Landsbankanum í viðskiptunum við Samson var 3,70, en Kaldbakur bauð 4,16 fyrir hlutinn í bankanum og S-hópurinn 4,10 á hlut.

Þá kemur fram að Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, hótaði að stöðva einkavæðingarferli bankanna nema Landsbankinn seldi hlut sinn í VÍS. Það hefði þýtt stöðvun einkavæðingarferlisins, sem var brot á stjórnarsáttmálanum og hefði Davíð Oddsson þá orðið að slíta stjórnasamstarfinu, segir í fréttaskýringunni. Er fjallað ítarlega um mikil átök um sölu VÍS sem enduðu með því að Landsbankinn seldi S-hópnum hlut sinn 29. ágúst 2002, en bankinn hafði þá átt helmingshlut í tryggingafélaginu frá árinu 1997. Þetta hafi verið nauðsynlegur liður í áætlun S-hópsins um að eignast Búnaðarbankann.

Í fréttaskýringunni er því jafnframt haldið fram að áður en ákvörðun framkvæmdanefndar um valið á Samson til viðræðna um kaupin á Landsbankanum hinn 10. september var tilkynnt hafi Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, haft milligöngu um það að hinir hóparnir tveir sem buðu í Landsbankann, Kaldbakur og S-hópurinn, sameinuðust um kaupin á Búnaðarbankanum. Hafi hann skipulagt símafund þar sem hann ásamt helstu fulltrúum beggja hópanna ræddi um hugsanlega sameiningu þeirra. Eru þátttakendur á símafundinum nafngreindir, en þeir eru samkvæmt blaðinu Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Eiríkur Jóhannesson frá Kaldbaki, og fulltrúar S-hópsins, Axel Gíslason, forstjóri VÍS, Margeir Daníelsson, Geir Magnússon, Óskar Gunnarsson og Þórólfur Gíslason, en Ólafur Ólafsson í Keri tók ekki þátt í fundinum.

Fram kemur ennfremur að 5. nóv. var tilkynnt um viðræður við S-hópinn um kaup, en viku síðar eiga sér stað talsverð viðskipti félaga innan S-hópsins, en þar höfðu tekist á tvær fylkingar. Var það leyst með því að Norvík eignarhaldsfélag BYKO keypti 25% hlutafjár í VÍS af Keri fyrir 3,4 milljarða króna, en seldi hlutinn til Hesteyrar nokkrum dögum síðar í skiptum fyrir hlut Hesteyrar í Keri. Hesteyri hafi verið í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Skinneyjar Þinganess, sem Halldór Ásgrímsson eigi hlut í.

Tilkynnt um sameiningu í mars

Gengið var frá kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum 16. janúar 2003 fyrir 11,2 milljarða króna. Í mars tveimur mánuðum síðar var tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings og segir í fréttaskýringunni að S-hópurinn hafi þá átt í margra mánaða viðræðum við Kaupþing um hugsanlega sameiningu og hafi Ólafur Ólafsson átt fundi með Sigurði Einarssyni mánuðum áður en kaupsamningurinn um Búnaðarbankann var undirritaður.

Kom ekki nálægt sölunni á VÍS

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, sagði í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi að hann hefði ekki komið nálægt sölu Landsbankans á VÍS áður en hann var einkavæddur og hann hafi ekki hótað stjórnarslitum út af því.

Varðandi símafund milli Kaldbaks og S-hópsins sagði Halldór að báðir hóparnir hefðu óskað eftir fundi, en hann hafi verið upptekinn og stungið upp á að þeir hringdu. Í símtalinu hafi þeir lýst yfir áhuga á bankakaupum. Hann hafi sagt að ef þeir hefðu svona mikinn áhuga væri best fyrir þá að vinna saman að því. Að öðru leyti hafi hann engin afskipti haft og þessir menn hafi ekki komið sér saman.