— Morgunblaðið/Árni Sæberg
NÁTTÚRUVERNDARSAMTÖK Íslands hafa sent stjórnvöldum bréf þar sem bent er á nauðsyn þess að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika á alþjóðlegum hafsvæðum.

NÁTTÚRUVERNDARSAMTÖK Íslands hafa sent stjórnvöldum bréf þar sem bent er á nauðsyn þess að Ísland beiti sér fyrir alþjóðlegum aðgerðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika á alþjóðlegum hafsvæðum.

Í bréfi samtakanna segir: "Náttúruverndarsamtök Íslands vilja vekja athygli á alþjóðlegum samningaviðræðum um bann við botnvörpuveiðum á djúphafssvæðum á alþjóðlegu hafsvæði. Afstaða Íslands til alþjóðlegs samkomulags um verndun lífríkis sjávar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna kann að skipta sköpum. Náttúruverndarsamtök Íslands skora á íslensk stjórnvöld að greiða atkvæði með tímabundnu alþjóðlegu banni við botnvörpuveiðum svo takast megi að forða einstöku lífríki djúphafssvæða frá óafturkræfri eyðileggingu. Á meðan bannið er í gildi fari fram vísindalegar rannsóknir á þessum svæðum."

Í bréfinu segir jafnframt að rányrkja á fiskistofnum úthafanna og eyðilegging á viðkvæmum vistkerfum þeirra þegar botnvarpa er dregin eftir sjávarbotni sé alvarlegt vandamál. Þátt fyrir að veiðar með botnvörpu á alþjóðlegu hafsvæði séu enn takmarkaðar og að slíkar veiðar hafi takmarkaða efnahagslega þýðingu samanborið við annars konar fiskveiðar, sé ljóst að þær hafi valdið umtalsverðu tjóni víða um heim og margt bendi til að það fari vaxandi. Því hafi 1.136 vísindamenn á sviði hafrannsókna, ásamt meira en 40 umhverfissamtökum, skrifað undir kröfu um að allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna stöðvi botnvörpuveiðar á úthöfunum tímabundið.