Jóhannes Jónsson Pálsson fæddist á Enni í Unadal 12. júní 1939. Hann lést á heimili sínu á Akureyri 22. maí síðastliðinn. Jóhannes var sonur hjónanna Svanhvítar Jóhannesdóttur frá Ósbrekku í Ólafsfirði og Páls Þorleifssonar frá Hrauni í Unadal. Systkini Jóhannesar eru Hugljúf Ragna, f. 1934, Þráinn, f. 1940, Ingi Þormar, f. 1944 og Auðbjörg Hlín, f. 1950.

Jóhannes kvæntist 8. desember 1963 Sigfríð Dóru Vigfúsdóttur, f. 21. júní 1947. Börn þeirra eru þrjú: 1) Svanhvít, f. 1964, gift Þóri Stefánssyni. Börn þeirra eru Stefán, Einar Páll, Fanndís Dóra og Axel Haukur en fyrir átti Svanhvít soninn Jóhannes Birgi Atlason. 2) Vigfús, f. 1968, kvæntur Jóhönnu Önnu Jóhannesdóttur. Börn þeirra eru Íris Ósk og Eva Dögg en dóttir Jóhönnu er Linda Lárusdóttir. 3) Páll Ómar, f. 1969, var kvæntur Ingibjörgu Sigurðardóttur og eiga þau synina Aron Smára og Sindra Snæ.

Jóhannes ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum á Enni en hóf ungur störf utan heimilis. Hann flutti til Akureyrar rúmlega tvítugur og bjó þar síðan. Hann stundaði margvísleg störf bæði á sjó og landi og stóð meðal annars um árabil fyrir eigin atvinnurekstri.

Útför Jóhannesar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Árin líða, börn fæðast og fólk deyr, það er gangur lífsins, en samt sem áður hefur dauðinn ávallt áhrif á þá sem eftir lifa.

Jói minn, nú er þinni lífgöngu lokið. Upp á síðkastið settu veikindi sett mark á líf þitt. Óhætt er að fullyrða að þú máttir ekkert aumt sjá og varst ávallt boðinn og búinn að hlúa að mönnum og málleysingjum og þeir sem minna máttu sín áttu oft höfði sínu að halla hjá þér. Þínir eigin hagsmunir voru ekki ofarlega í forgangsröðinni ef þú sást möguleika á að gera öðrum gott á einn eða annan hátt. Líf þitt var vissulega ekki alltaf dans á rósum en hagsmunir annarra voru þér þó oftast ofar í huga en þínir eigin.

Ég kynntist þér og fjölskyldu þinni fyrir um fimmtán árum síðan og hafa leiðir okkar legið saman síðan. Margar góðar minningar leita á hugann og skemmst er að minnast fjölskyldudaga og sumarbústaðaferða þar sem fjölskyldan kom saman, jafnt ungir sem aldnir. Slíkar stundir voru þér vafalaust dýrmætar enda lagðir þú mikla áherslu á að efla og viðhalda góðu sambandi allra í fjölskyldunni.

Þó börnin þín og fjölskyldur þeirra byggju ekki öll nálægt þér, fylgist þú grannt með öllu og nýttir þú símann óspart í þeim tilgangi. Þær voru ófáar stundirnar sem rætt var um búskap og hestamennsku í nútíð og fortíð. Áhugi á búskap og skepnum var þér í blóð borinn og þó þú fengist ekki við búskap í seinni tíð voru málefni sveitanna þér ávallt hugleikin og á síðustu árum hafðir þú mikið yndi af tíkinni Tátu sem vart vék frá þér.

Jói minn, þakka þér fyrir allt og allt.

Á hendur fel þú honum,

sem himna stýrir borg,

það allt, er áttu í vonum,

og allt, er veldur sorg.

Hann bylgjur getur bundið

og bugað storma her,

hann fótstig getur fundið,

sem fær sé handa þér.

(Þýð. Björn Halldórsson.)

Elsku Sigfríð og aðrir ættingjar, ykkur votta ég innilega samúð.

Ingibjörg Sigurðardóttir.

Besti vinur minn er horfinn úr þessum heimi. Endurminningarnar frá liðnum árum streyma fram. Jóa er sárt saknað af vinum, ættingjum og fjölskyldu, en skæður sjúkdómurinn náði yfirhöndinni eftir stranga baráttu.

Jói ólst upp í skjóli dals og fjalla að Enni í Unadal, þar sem tignarlegur Ennishnjúkurinn gnæfir yfir bænum og byggðinni. Þar voru hans æskuspor og þar átti hann rætur. Á unglingsaldri fór hann á vertíðir á Suðurnesjum og var það upphafið að langri og giftusamri starfsævi til sjós og lands. Jói var ákaflega starfsamur og verklaginn, eftirsóttur til vinnu, og má segja að honum hafi ekki fallið starf úr hendi alla ævina. Ég stikla aðeins á stóru hér. Jói var lengi starfsmaður á Lundi, tilraunabúi Sambands nautgriparæktarfélaga við Eyjafjörð, eða S.N.E. Jói og Sigfríð bjuggu um tíma á Glerá fyrir ofan Akureyri. Jói starfaði um hríð hjá Sjálfstæðishúsinu á Akureyri, og rak um langt árabil hreingerningaþjónustu og teppahreinsun ásamt konu sinni. Voru þau brautryðjendur í þessu sviði á Akureyri og voru um árabil með fólk í vinnu. Sáu þau um hreingerningar á stórum vinnustöðum og opinberum stofnunum. Starfsdagurinn var oft langur, ekkert gefið eftir fyrr en verkið var eins vel af hendi leyst og kostur var. Seinna gerðist Jói húsvörður hjá Bjargi, húseign Sjálfsbjargar á Akureyri. Eftir nokkur ár í því starfi réðst Jói til sjós, fór þá á flutningaskipið Hauk, sem sigldi á margar hafnir í Evrópu. Þá bar fundum okkar stundum saman í Danmörku, en Haukurinn flutti loðnumjöl til Árósa, en ég bjó þar á þeim tíma. Voru þá fagnaðarfundir. Jói var bátsmaður á Hauknum, vinsæll af skipstjórum sínum og áhöfn, enda lagði hann ætíð metnað sinn í að leysa starf sitt af hendi af nákvæmni og samviskusemi.

Þegar sjómennskunni á Hauknum lauk réðst hann til starfa hjá Plastási hf á Akureyri við framleiðslu á einangrunarplasti. Jói og Sigfríð keyptu það fyrirtæki fyrir fáum árum. Þá hafði gamall draumur ræst, Jói átti sitt eigið fyrirtæki þar sem hæfileikar hans nutu sín til fullnustu. Oft var kátt á hjalla í litlu kaffistofunni í Plastási, vinir litu inn í kaffi, þar voru rifjaðar upp gamlar minningar og gjarnan farið með vísur. Í fyrra fór að bera á þeim sjúkdómi sem að lokum hafði yfirhöndina, en þrátt fyrir erfið veikindi var Jói sífellt með hugann við Plastás. Vigfús, elsti sonur Jóa og Sigfríðar, tók við framkvæmdastjórn þar þegar kraftar Jóa þurru.

Liðnir eru nærri þrír áratugir frá því að fundum okkar Jóa bar saman í fyrsta sinn. Þá höfðum við báðir ráðist í sumarvinnu hjá Malar- og steypustöðinni hf. við Glerá. Ekki þekktumst við neitt, en ekki leið langur tími þar til góð vinátta varð á milli okkar sem aldrei slitnaði og urðu vináttuböndun sterkari með árunum. Á þessum vinnustað unnum við oft saman, við erfiðar aðstæður, og þar kom góða skapið hans Jóa oft að miklu gagni, svo við gátum hlegið að öllu saman þegar tækin biluðu, sem oft gerðist. Vinnudagurinn þarna var oft tólf eða jafnvel fjórtán tímar og þótti engum mikið.

Jói var ákaflega félagslyndur, hrókur alls fagnaðar á mannamótum, mikill grínisti, leiftrandi kímnigáfan og meitlaðar setningar hittu beint í mark. Undir niðri bjó þó viðkvæm sál sem mátti ekkert aumt sjá. Á honum sannaðist það fornkveðna að sælla er að gefa en þiggja. Greiðasemi Jóa var svo mikil að hann var venjulega mættur á staðinn til að rétta hjálparhönd, hvort sem hann hafði tíma til þess eða ekki. Það var hans mesta gleði að verða þeim að liði sem áttu undir högg að sækja eða höfðu orðið fyrir rangleitni. Aldrei ætlaðist hann til neins í staðinn. Það eru mikil verðmæti að eiga þá kosti sem breyta tárum í bros. Slíkt er ekki öllum gefið.

Jói steig mikið gæfuspor þegar hann eignaðist Sigfríði konu sina. Hún stóð alla tíð óbifanleg við hlið manns síns, enda sagði Jói að Sigfríð væri sá klettur í lífinu sem hann gæti alltaf treyst á.

Brotsjóir lífsins skella á okkur öllum og enginn er fullkominn. Forsendan fyrir framförum er að viðurkenna veikleika sinn. Við Jói ræddum þetta oft en mannlegt hlutskipti og mannleg samskipti voru áhugamál okkar. Jói fylgdi jafnaðarmennskunni að málum, í besta skilningi þess hugtaks. Hann vildi félagslegt réttlæti, í samræmi við lífsskoðun sína. Í mínum huga var Jói þó alltaf fyrst og fremst Skagfirðingur, góður sonur síns fagra héraðs.

Missir fjölskyldu, ættingja og vina er mikill. En við vitum líka að Jói hefði viljað að við horfðum óbuguð fram á veginn nú.

Vertu sæll, kæri vinur, og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Egill Héðinn Bragason.

Í dag er til moldar borinn vinur minn Jóhannes Pálsson eða Jói Páls eins og hann var ávallt nefndur í vinahópi. Okkar kynni byrjuðu þegar við urðum skipverjar á m/s Hauk, unnum við þar saman í um tíu ár. Er margs að minnast frá þeim árum. Það voru mörg kvöldin sem við sátum uppi í brú og ræddum við okkar skipstjóra, var þar hlegið og gert að gamni sínu. Flugu þá margar sögur sem eru geymdar í huga okkar.

Jói var fróður og sagði vel og skemmtilega frá og var ávallt hrókur alls fagnaðar. Hluti af áhöfninni var Pólverjar, varð Jói strax mikill vinur þeirra, voru þeir oft að glettast og gera að gamni sínu.Var Jói mjög útsjónarsamur með að finna upp smá hrekkjabrögð sem voru saklaus og ekki til annars en að brosa að, fékk hann það borgað við fyrsta tækifæri og það oft ríflega greitt. Oft var vinnudagurinn langur hjá okkur, við fórum marga túra með salt á hafnir landsins, var þá mikið að gera og lítið um hvíld. En þegar búið var að setja í land síðasta pokann og siglt af stað til að sækja meira salt, eða lesta mjöl, þá gáfum við okkur tíma til að setjast niður með Pólverjunum sem unnu að losun með okkur. Var þá búið að fara í bakarí og kaupa tertu eða eitthvað gott. Var sest niður í klefa og haldið smá partý. Var þá eins og öll þreyta væri gleymd þessa stuttu stund sem við gáfum okkur til að setjast niður. Var þá eins og áður að Jói hélt uppi fjörinu.

Það var um mánaðamótin mars - apríl fyrir rúmu ári að Jói hringdi til mín og sagði mér að tveir vinir okkar hefðu látist í slysi. Mig setti hljóðan við þessi tíðindi, ræddum við þetta í smástund. Þá segi ég "þetta gerir ekki boð á undan sér". Þagnar þá hann í smá stund og segir: "Ég var að greinast með krabbamein." Þá fannst mér komið of mikið af sorgartíðindum þennan dag. Ekki greindi ég nein viðbrögð hjá honum við þetta. Hann sagði "þetta hefur sinn gang". Jói barðist sem hetja við þennan vágest, hann vissi að stríðið var tapað en barist var til 22. maí, þá var þrekið búið. Jói var þeim hæfileikum búinn að hann sá það sem aðrir sáu ekki. Sagði hann mér oft frá þessu þegar ég hitti hann. Núna í vor þá sagði hann við mig: "Það er stór móttökunefnd sem tekur á móti mér þegar ég flyt búferlum." Ávallt var Jói vakandi fyrir því að hjálpa öðrum, hef ég ekki kynnst annarri eins hjálpsemi. Skipti engu máli þótt hjálpsemi væri honum til erfiðis eða útláta. Alltaf var hann með útrétta hjálparhönd.

Góði vinur, með þessum fátæklegu orðum kveð ég þig, klökkur í huga, með þakklæti fyrir allar þær ánægjustundir sem við höfum átt til sjós og lands, sem eru mér ógleymanlegar. Þótt þú sért horfinn sjónum okkar lifi minningin um þig sem vin og félaga sem enginn getur afmáð. Því miður get ég ekki verið við útför þína en hugur minn verður þar og hjá þínu fólki. Votta ég svo konu þinni og börnum mína dýpstu samúð.

Þinn vinur

Ásgeir Magnússon.

Hinsta kveðja

Hinsta kveðja

Afi.

Sálin ríkir himnum á, dafnar vel í himnaríki, hvílir hjartað litla.

Afi minn, ég sakna þín, bless

Aron Smári.

Ég sakna þín afi, nú get ég ekki komið oftar að heimsækja þig á Akureyri, en ég ætla áfram að heimsækja ömmu.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Saknaðarkveðjur,

Sindri Snær.