Amedeo segist ekki vera eins þrjóskur og tvíburabróðirinn, Simone.
Amedeo segist ekki vera eins þrjóskur og tvíburabróðirinn, Simone. — Morgunblaðið/Jim Smart
Amedeo Pace er þriðjungur hljómsveitarinnar Blonde Redhead, sem komið hefur hingað tvisvar og myndað tengsl við land og þjóð. Ívar Páll Jónsson barðist með honum við kliðinn á kaffihúsi í hádeginu fyrir skömmu.

Amedeo Pace er í hljómsveitinni Blonde Redhead ásamt tvíburabróður sínum, Simone, og japanskri eiginkonu, Kazu Makino. Bræðurnir eru ítalskir, en öll búa þau í New York. Blonde Redhead sendi frá sér plötuna Misery Is a Butterfly á síðasta ári og hefur hlotið mikið lof fyrir, en verkið er melódískara en fyrri plötur sveitarinnar.

Amedeo var hér staddur í nokkra daga til að leika á hljómplötu bassaleikarans Skúla Sverrissonar, sem er góðvinur hljómsveitarinnar og hefur leikið á bassa á hljómplötum hennar. Skúli spilaði með Blonde Redhead í Austurbæ síðasta vetur, bæði með hljómsveitinni sjálfri og áður en hún steig á svið, með eigið efni. Það efni er Skúli nú að festa á segulband og var Amedeo kallaður til í þeim tilgangi að lita upptökurnar sínum litum. Undirrituðum, sem var viðstaddur tónleikana, fannst tónlist Skúla hreinlega mögnuð og jafnvel hljóma á köflum eins og verk Blonde Redhead. Amedeo tekur undir það.

"Já, ég fékk það einmitt sterklega á tilfinninguna og hugsaði með mér: "Ég hefði alveg getað samið þessa tónlist," þegar upptökurnar voru komnar nokkuð á veg. Ég held að við séum andlega skyldir; við höfum svipaðan þankagang, við Skúli.

Þetta var mjög gaman og ég vildi að við hefðum haft meiri tíma. Lögin hans eru svo falleg. Ég er þannig að ég þarf svo mikinn tíma og yfirlegu fyrir hvert lag, þannig að mér varð ekki eins mikið úr verki og ég hefði óskað mér. En ég skemmti mér vel."

Setur Skúli sterkan svip á þau Blonde Redhead-lög sem hann kemur nálægt í hljóðverinu?

"Já, hann veitir okkur svo mikinn styrk. Það skiptir engu máli hversu heilsteypt lagið er, eða hversu sterk höfundareinkenni mín eru; hann litar það alltaf með sínum litum."

Þið spilið hér á landi um mánaðamótin júlí/ágúst, í fjórða skiptið. Hvernig hefur verið að spila á Íslandi?

"Okkur hefur fundist það algjörlega frábært. Ísland er einn af þeim stöðum sem veitt hafa mér mestan innblástur."

Má þá búast við því að þú semjir lag um Ísland einhvern tímann?

"Ég veit það ekki. Ég hef ekki einu sinni samið lag um Ítalíu enn."

Eruð þið að vinna að nýrri plötu núna?

"Já, við erum rétt byrjuð á því. Við vorum að breyta um æfingahúsnæði í New York. Það hefur gerst í hvert einasta skipti sem við höfum byrjað að vinna að nýrri plötu, að okkur hefur verið sparkað út úr æfingahúsnæðinu. Við vorum með rosalega miklar græjur á litlu svæði og þess vegna er allt í kössum eins og er. En við ætlum að fara að semja nýtt efni eins fljótt og auðið er.

Mennirnir hjá útgáfufyrirtækinu vilja að næsta plata komi út á næsta ári. Það væri fínt, en við sjáum til."

Hvernig heldurðu að næsta plata verði? Eitthvað í líkingu við Misery Is a Butterfly ?

"Ég veit það ekki. Ég held þó að hún verði öðruvísi. Ég er þeirrar skoðunar að hver einasta plata eigi að vera stökk frá þeirri síðustu. Það boðar aldrei gott að endurtaka sig."

Er þetta spurning um þroska? Eða nýjungagirni?

"Þetta hefur með lagasmíðar að gera. Lögin "ákveða" hvernig útsetningar og hljóðfæraskipunin verða. Það fer eftir lögunum sem við semjum næst, í hvaða átt við förum."

Hljóðfærið Clavinet litaði síðustu plötu.

"Já, það er skrýtið þegar maður kaupir sér nýtt hljóðfæri, í hálfgerðu bríaríi, og það verður algjörlega einkennandi fyrir verk manns."

Hvernig er hugarfar ykkar, þegar þið semjið lög? Reynið þið að gera tilraunir?

"Já, við erum opin fyrir þeim. Við "djömmum" ekki, sem mér finnst eiginlega miður. Þegar ég spilaði með Skúla hérna á dögunum gerðum við það; prófuðum okkur áfram og létum dæluna ganga. Það gerum við ekki í Blonde Redhead. Fyrirkomulagið er í fastari skorðum þar; að sínu leyti ágætt, en ekki jafn opið, enda þurfum við að aga sjálf okkur í lagasmíðunum."

Þið eruð væntanlega mjög samhent sem hljómsveit, tvíburar og eiginkona annars þeirra. Hvernig eru hreyfiöflin, dínamíkin, innan sveitarinnar?

"[Hugsar sig um] Ég á auðvitað í mjög sérstöku sambandi við þau bæði, bróður minn og Kazu. Manni finnst þetta oftast vera rosalega flókið allt saman, en þegar þetta gengur upp er það frábært. Við bræðurnir erum sífellt að rífast um tónlist, en þegar við spilum saman og eitthvað gengur upp er það óviðjafnanlegt. Það eru í raun forréttindi að hafa einhvern sem skilur mann svo gjörsamlega. Við erum báðir svolítið þrjóskir; hann er þó þrjóskari en ég, því hann vill ekki gefa eftir í sumum málum."

Eruð þið með einhverja klassíska tónlistarþjálfun?

"Nei, ég er ekkert tónlistarmenntaður."

Hlustarðu á klassíska tónlist?

"Já, en ég er alls ekki vel að mér um hana. Móðir mín og faðir hlustuðu mikið á klassíska tónlist þegar ég var ungur. Það var alltaf einhver að spila á píanó heima hjá okkur og það kom kennari í hverri viku að kenna systur minni á píanóið. Frændi minn er hljómsveitarstjóri og hann spilaði mikið á selló þegar ég var ungur.

Reyndar lærði ég örlítið á klassískan gítar, en ég kunni ekki að lesa nótur og fannst auðveldara að leggja lögin á minnið. Það gekk í fyrstu tveimur tímunum, en svo fór það að verða of erfitt, þannig að ég hætti," segir hann og hlær.

Mér skilst að þú hafir mikinn áhuga á hestum og stundir hestamennsku í New York. Er lífið tónlist og hestar?

"Ég hef fullan hug á því að hestamennskan verði fyrirferðarmeiri í lífi mínu, en ég veit ekki hvort ég myndi ráða almennilega við það. Stundum finnst mér að ég verði að eignast hest, en svo efast ég um að ég vilji það í raun og veru.

Ég er í klassísku reiðnámi í New York, sem er næstum því eins og að vera í tónlistarnámi. Reiðmennska er svolítið lík því að læra á hljóðfæri, reyndar margbrotnari ef eitthvað er. Fólk stendur almennt í þeirri trú að hún snúist bara um að setjast á bak, sparka hælunum í síðu hestsins og halda af stað, en hún er meira í ætt við listgrein. Samband hests og reiðknapa er einstakt; þeir þurfa að skilja hvor annan."

Blonde Redhead hefur verið að spila töluvert; meðal annars á tónleikaferð með Interpol. Hvernig var það?

"Mjög gaman. Ég held við höfum spilað í flestum stærstu borgum Bandaríkjanna, og litlum líka auðvitað. Við veltum því svolítið fyrir okkur hvort það væri rétt að fara í þessa tónleikaferð, en eftir á að hyggja erum við mjög fegin að hafa látið slag standa. Okkur líkar mjög vel við Interpol-menn og það er góður vinskapur milli sveitanna."

ivarpall@mbl.is