Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is STARFSMENN Landspítalans - háskólasjúkrahúss (LSH) segja það mikla mildi að ekkert alvarlegt tilfelli kom upp í gær á meðan tæknimenn glímdu við bilun í tölvukerfi spítalans.
Eftir Svavar Knút Kristinsson svavar@mbl.is

STARFSMENN Landspítalans - háskólasjúkrahúss (LSH) segja það mikla mildi að ekkert alvarlegt tilfelli kom upp í gær á meðan tæknimenn glímdu við bilun í tölvukerfi spítalans. Öll síma- og upplýsingakerfi LSH lömuðust. Að sögn starfsmanna bitnaði þetta mjög á öllu upplýsingastreymi og töfðust allar rannsóknir og niðurstöður sýnatöku og röntgenmynda vegna bilunarinnar.

Davíð Arnar, yfirlæknir á bráðamóttöku LSH, segir ástandið hafa verið afar bagalegt. "Margt sem við gerum er háð símakerfi og tölvukerfum," segir Davíð, en rannsóknir eru pantaðar gegnum tölvukerfið og niðurstöður skoðaðar. "Þá var hægt að taka röntgenmyndir en ekki hægt að skoða þær. Þannig gekk allt hægar fyrir sig, en sem betur fer urðu engar stórar uppákomur, stórslys eða hjartastopp, svo við komumst klakklaust í gegnum daginn."

Davíð segir að rökrétt sé að skoða möguleika á varakerfi til að bregðast við svona ástandi.

Gyða Baldursdóttir, deildarstjóri á bráðamóttöku við Hringbraut, segir allri vinnu hafa seinkað, en ástandið hefði getað orðið mun verra. "Við gátum ekki skrifað inn sjúklinga eða fengið svör við rannsóknum. Við vorum ekki heldur í símasambandi við umheiminn svo að við óttuðumst alltaf að sjúklingar næðu ekki inn á spítalann."

Neyðaráætlun virkaði

Gyða segir neyðaráætlun gera ráð fyrir notkun talstöðva, en þær voru mikið notaðar auk þess sem GSM-símasamband virkaði.

Gyða segir einnig miklu hafa skipt að öll mælitæki gengu rétt, en þau eru keyrð á aðskildum tölvuþjónum.

Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri Tækni og eigna hjá LSH, segir aðalnetkerfi spítalans grunn allra þjónustukerfa, en kerfið, sem er frá Cisco, er í hæsta gæðaflokki. "Það sem gerðist var að einn skiptir, af um 250 sem eru hér í kerfinu, bilaði sérkennilega og olli miklu álagi á netkerfinu," segir Ingólfur.

Að sögn Ingólfs hefði skiptirinn átt að stoppa og detta út, en þá hefðu nokkrar tölvur dottið úr sambandi við netið, en þess í stað olli hann álagi á kerfinu eins og áður segir. "Við munum gera allt til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur," segir Ingólfur og bætir við að kerfið hafi staðið sig mjög vel til þessa og verið stöðugt og við fulla virkni í tvö og hálft ár.