Gestur Gylfason hjá Keflavík og Halldór Hilmisson hjá Þrótti eigast við í leiknum á Laugardalsvellinum í gærkvöld.
Gestur Gylfason hjá Keflavík og Halldór Hilmisson hjá Þrótti eigast við í leiknum á Laugardalsvellinum í gærkvöld. — Morgunblaðið/Jim Smart
MEÐ öguðum og kraftmiklum leik slógu Valsmenn gesti sína úr Fram algerlega útaf laginu þegar liðin mættust að Hlíðarenda í gærkvöldi. Vörn Fram var ráðþrota gegn öflugum sóknarleik Vals, sem skilaði þremur mörkum á 34 mínútum.

MEÐ öguðum og kraftmiklum leik slógu Valsmenn gesti sína úr Fram algerlega útaf laginu þegar liðin mættust að Hlíðarenda í gærkvöldi. Vörn Fram var ráðþrota gegn öflugum sóknarleik Vals, sem skilaði þremur mörkum á 34 mínútum. Valsmenn duttu hins vegar í þá gryfju að hugsa mest um að halda fengnum hlut og komust upp með það, ekki síst fyrir sterka vörn og 3:0 sigur var öruggur. Valsmenn sitja því við hlið FH í næstefsta sæti deildarinnar eftir sigur í öllum fjórum leikjum sínum.

Eftir Stefán Stefánsson ste@mbl.is

Báðum liðum tókst bærileg að spila boltanum framan af en Valsmenn náðu fljótlega undirtökunum þótt ekki væri mikið um færi. Rúmlega þúsund áhorfendur þurftu þó ekki að bíða lengur en fram á 12. mínútu eftir marki þegar Matthías skoraði með skalla eftir góða sendingu Guðmundar Benediktssonar. Eftir markið slógu Valsmenn aðeins af, hörfuðu aftar á völlinn þrátt fyrir hvatningarorð þjálfara síns af hliðarlínunni og gestirnir úr Safamýri fetuðu sig framar. Það skapar hins vegar hættu og á 23. mínútu bætti Sigþór Júlíusson við marki eftir vel agaða sókn Vals. Valsmenn reyndu að fylgja því eftir og Kristinn Lárusson átti hörkuskalla að marki Fram eftir hornspyrnu en boltinn fór rétt yfir. Enn bökkuðu Valsmenn eftir mark og Framarar færðu sig fram svo að þriðja mark Vals var nánast endurtekning á öðru markinu. Með þrjú mörk í hendi fóru Valsmenn að gæta sín og þeir hörfuðu hægt en örugglega aftar á völlinn svo að Fram fékk sín fyrstu umtalsverðu færi þegar aukaspyrna Hans Mathiesen fór í hliðarnetið og skallabolti Ríkharðs Daðasonar rétt framhjá.

Valur bakkaði eftir hlé

Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur, Valsmenn bökkuðu upp að vítateig sínum og Framarar reyndu að koma sér í þægileg færi en traust vörn Vals ásamt miðjumönnum var föst fyrir. Engu að síður myndaðist stundum þvaga inni í markteig Valsara og Fram átti nokkur færi. Ingvar Ólason skaut of lausu skoti af þröngu færi, önnur aukaspyrna Hans var varin út við stöng og Ríkharður skallaði aftur rétt framhjá marki Vals.

Valsmenn voru vel að sigrinum komnir. Sóknin var mjög beitt framan af þar sem Matthías fór mikinn og Baldur Aðalsteinsson spreytti sig á hægri kantinum en mesta hættan skapaðist yfirleitt þegar Guðmundur fékk boltann því flest færi Vals komu eftir sendingar frá honum. Á miðjunni létu reynsluboltarnir Kristinn Lárusson og Sigurbjörn Hreiðarsson vita af sér og vörnin var mjög traust, með Atla Svein Þórarinsson og Grétar S. Sigurðsson fremsta í flokki. Að vísu hörfaði liðið fullmikið en tókst samt að halda fengnum hlut.

"Valsmenn voru betri á öllum sviðum í fyrri hálfleik og því fór sem fór," sagði Ólafur Kristjánsson, þjálfari Fram, eftir leikinn. "Við náðum aðeins að rétta okkur við í seinni hálfleik en ekki nóg til að breyta leiknum. Við vissum að við værum að fara að spila við gott lið og ætluðum ekki að lenda svona undir í hálfleik en Valsmenn nýttu sín færi og voru góðir. Þetta er einn af þessum dögum sem við erum slakir og þeir góðir." Vörnin var lengi vel í basli með sóknarmenn Vals auk þess sem miðjumönnum gekk lítið sem ekkert að ná völdum, helst að Hans næði að spila boltanum. Sóknarmönnum Fram gekk illa að byggja upp sóknir eða brjótast í gegn, helst að Andri Fannar Ottósson gerði usla.