Birna Guðleifsdóttir, framkvæmdastjóri Framvegis, Árni Magnússon félagsmálaráðherra, Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, og Þórleif Drífa Jónsdóttir, deildarstjóri starfsþróunar og fræðslu hjá LSH.
Birna Guðleifsdóttir, framkvæmdastjóri Framvegis, Árni Magnússon félagsmálaráðherra, Kristín Á. Guðmundsdóttir, formaður Sjúkraliðafélags Íslands, og Þórleif Drífa Jónsdóttir, deildarstjóri starfsþróunar og fræðslu hjá LSH. — Morgunblaðið/Þorkell
ÚTHLUTAÐ var úr starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytisins í gær rúmum 48 milljónum króna til samtals 28 aðila fyrir 42 verkefni. Alls sóttu 55 um með 66 verkefni.

ÚTHLUTAÐ var úr starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytisins í gær rúmum 48 milljónum króna til samtals 28 aðila fyrir 42 verkefni. Alls sóttu 55 um með 66 verkefni. Námu styrkirnir frá 300 þúsundum króna upp í 2,1 milljón króna, en alls hlutu átta verkefni styrk að upphæð 2 milljónir króna.

Að sögn Margrétar Kr. Gunnarsdóttur, starfsmanns Starfsmenntaráðs, voru styrkirnir að þessu sinni veittir í þremur flokkum, tveimur flokkum sértækra verkefna og einum opnum. Segir hún að árlega séu tveir áhersluflokkar með mismunandi þemu milli ára. Að þessu sinni voru flokkarnir annars vegar "Tækifæri miðaldra og eldra fólks til starfsmenntunar", en veittir voru 23 styrkir í þeim flokki, og hins vegar "Yfirfærsla þekkingar og reynslu innan fyrirtækja", en veittir voru 17 styrkir í þeim flokki.

Hæsta styrkinn hlaut að þessu sinni verkefni er nefnist "Brú sjúkraliðanáms" og var það í fyrrnefnda flokknum. Það eru Framvegis, miðstöð um símenntun, í samstarfi við Sjúkraliðafélag Íslands, sem standa að verkefninu, en markmið þess er að auðvelda fullorðnum einstaklingum sem hafa aflað sér tiltekinnar starfsreynslu við umönnun og aðhlynningu á heilbrigðisstofnunum að stunda starfsnám sjúkraliða. Með þessu móti gefst einstaklingum sem eru 30 ára og eldri nýtt tækifæri til formlegrar menntunar.

Meðal þeirra sem hlutu styrk í síðarnefnda flokknum voru Landspítali - háskólasjúkrahús í samstarfi við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins og Eflingu - stéttarfélag. Markmið verkefnisins er að hanna líkan fyrir yfirfærslu á þekkingu og færni starfsmanna sem búa við færni í ákveðnum verkþáttum til þeirra sem hafa minni færni í þeim. Þátttakendur verkefnisins eru frá mismunandi þjóðlöndum, með ólíkan bakgrunn og menningararf.