Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhendir verðlaun í ritgerðarsamkeppni um Snorra Sturluson í íslenska sendiráðinu í Ósló.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhendir verðlaun í ritgerðarsamkeppni um Snorra Sturluson í íslenska sendiráðinu í Ósló.
ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhenti á dögunum verðlaun í ritgerðasamkeppni sem bar yfirskriftina "Áhrif Snorra Sturlusonar á norskt nútímasamfélag". Fór athöfnin fram í sendiráði Íslands í Ósló.

ÞORGERÐUR Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra afhenti á dögunum verðlaun í ritgerðasamkeppni sem bar yfirskriftina "Áhrif Snorra Sturlusonar á norskt nútímasamfélag". Fór athöfnin fram í sendiráði Íslands í Ósló.

Þessari ritgerðarsamkeppni á meðal framhaldsskólanema í Noregi var komið á laggirnar af Bókaútgáfunni Guðrúnu ehf. og norska systurfélagi hennar, Gudrun Forlag AS. Nemendur gátu valið á milli þess að skrifa stutta tímaritsgrein þar sem sagt er frá Snorra Sturlusyni og þau áhrif og þýðingu sem verk hans hafa enn þann dag í dag í Noregi. Annað ritgerðarverkefni var að skrifa tímaritsgrein sem lýsti fyrir Íslendingum áhrifum Snorra Sturlusonar á norskan samtíma. Í þriðja lagi gátu nemendur valið um að taka viðtal við sjálfan Snorra Sturluson, í viðtalinu átti að koma fram með hvaða hætti mætti finna fótspor Snorra á sviði mennta og menningarmála í samtímanum.

Fyrstu verðlaun hlaut Hannah Hagtved Hjeltnes, nemandi í Oslo Katedralskole. Aðrir vinningshafar voru Marit Lid Bjerkvik, Ingrid Krog, Line Elverum og Marie Krum.

Þessi ritgerðarsamkeppni var unnin í samvinnu við norsk menntamálayfirvöld og tókst vonum framar, að sögn aðstandenda.

Fjölmargar ritgerðir bárust í keppnina og hlutu höfundar fimm bestu ritgerðanna bók að launum, Snorra Edda og myndlistin, en þá bók gefur Guðrún út í Noregi og fyrir bestu ritgerðina var að auki ferð til Íslands í boði Flugleiða fyrir tvo.

Á Íslandi verður Hannah Hagtved Hjeltnes m.a. boðið til Reykholts að skoða Snorrastofu og heimsækja Þingvelli, Gullfoss og Geysi.

Ætlunin er að þessi ritgerðarsamkeppni verði að árlegum viðburði í Noregi og jafnvel Íslandi líka.