"TILFINNINGIN er sú eftir leikinn að við hefðum átt að vinna og áttum að geta unnið þennan leik með eðlilegri spilamennsku.

"TILFINNINGIN er sú eftir leikinn að við hefðum átt að vinna og áttum að geta unnið þennan leik með eðlilegri spilamennsku. Við vorum þungir, þreyttir og náðum ekki að láta boltann rúlla nægilega vel, eða eins og við erum vanir að gera," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, eftir jafnteflið gegn Þrótti. Honum fannst leikmenn sínir þreytulegir og sagði fríið framundan kærkomið.

"Þessi leikur var slakur, við spiluðum ekki nógu vel og ég held að við höfum einfaldlega ekki átt mikið meira á tankinum til að klára þennan leik af fullum krafti. Þetta er erfitt og það þarf að stýra álaginu á milli leikmanna en leikurinn í kvöld slapp og með heppni hefðum við getað krækt í stigin þrjú.

Við vorum hættir að vinna á boltanum í lokin og þeir fengu að dæla inn á okkur sendingum þannig að við hefðum jafnvel getað misst jafnteflið úr höndum okkar. En við börðumst hetjulega í lokin og náðum alla vega að halda jöfnu.

Það var ákveðin spenna í byrjun og spennustigið líklega of hátt, þegar líður á leikinn er svo ljóst að við erum þreyttir," sagði Kristján.

Augljós batamerki á liðinu

Ásgeir Elíasson, þjálfari Þróttar, var mátulega sáttur með fyrsta stig liðsins á leiktíðinni. "Fyrsta stigið er náttúrlega kærkomið og ég held að leikurinn hafi verið þokkalegur á köflum. Hann var kaflaskiptur, nokkuð jafn en þetta er ekki nægilega markvisst ennþá. Við verðum að laga það og höfum til þess ágætis tíma núna.

Ég get ekki verið sáttur við byrjun okkar á leiktíðinni, að vera með eitt stig eftir fjórar umferðir er ekki gott en það voru augljós batamerki á liðinu frá síðasta leik. Við vorum að leika betur og lið Keflavíkur er ágætt. Ég var búinn að skoða leik liðsins og því tókst okkur að loka betur á sóknir þess heldur en KR-ingar í síðasta leik. En við verðum að bæta leik okkar frekar, það er öruggt," sagði Ásgeir sem gat tekið undir með blaðamanni að jafnteflið hefði kannski verið sanngjarnt.

"Við vorum kannski aðeins meira með boltann en lítið var um færi svo að jafntefli var kannski sanngjarnt. Í lokin var svona hamagangur og læti og boltinn hefði getað endað inni en við vorum í vandræðum með blautan völlinn enda langt síðan leikmenn léku síðast á blautu grasi, þeir þurftu meiri tíma á boltanum en áður," sagði Ásgeir.