Himinn og haf Avion Group keypti í gær 94,1% hlutafjár í Eimskipafélagi Íslands hf. Magnús Þorsteinsson er aðaleigandi og stjórnarformaður Avion Group. Hann segir kaupin verða fjármögnuð á hefðbundinn máta.
Himinn og haf Avion Group keypti í gær 94,1% hlutafjár í Eimskipafélagi Íslands hf. Magnús Þorsteinsson er aðaleigandi og stjórnarformaður Avion Group. Hann segir kaupin verða fjármögnuð á hefðbundinn máta. — Morgunblaðið/Þorkell
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MAGNÚS Þorsteinsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Avion Group, tilkynnti í gær að félagið hefði keypt 94,1% hlut Burðaráss hf. í Eimskipafélagi Íslands.

MAGNÚS Þorsteinsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Avion Group, tilkynnti í gær að félagið hefði keypt 94,1% hlut Burðaráss hf. í Eimskipafélagi Íslands. Kaupverðið er 21,6 milljarðar króna og eru 12,7 milljarðar greiddir í peningum en 8,9 milljarðar með hlutabréfum í Avion Group. Eftir kaupin býr Avion Group yfir 67 þotum og 22 skipum og rekur 80 starfsstöðvar um allan heim. Stefnt er að skráningu Avion Group í Kauphöll Íslands fyrir 31. janúar á næsta ári, en fyrirtækið yrði eitt af þeim stærstu í Kauphöllinni.

Magnús sagði að með kaupunum á Eimskipafélaginu gæti Avion Group sótt fram á mörgum sviðum og raunar hefðu kaupin gengið undir heitinu "himinn og haf" innan Avion Group, með vísan til starfseminnar, skipa- og flugvélarekstrar. Þar má reyndar einnig bæta við landflutningum, t.d. á vegum Flytjanda, sem er að meirihluta í eigu Eimskips.

Ódýrari olía og tryggingar

Magnús sagði að sumarið yrði nýtt til að ná sem allra mestri samlegð í rekstrinum og gera hann skilvirkari. Í samtali við Morgunblaðið nefndi Magnús m.a. að augljóslega mætti ná töluverðri hagræðingu í eldsneytiskaupum þegar innkaup á öllu því magni sem flugvéla- og skipafloti félagsins notar færast á sömu hendur og eflaust væri einnig hægt að ná mun hagstæðari samningum við tryggingafélög en nú. Sama ætti við um samninga við lánardrottna, en augljóslega myndi smávægileg lækkun vaxta þýða háar upphæðir fyrir svo umfangsmikinn rekstur. Samlegðaráhrif þessi væru aðeins upphafið að hagkvæmari rekstri. "Með kaupunum hefur orðið til stærsta félag landsins í flutningastarfsemi með áætlaða 110 milljarða veltu á þessu ári, 4.400 starfsmenn og 80 starfsstöðvar víða um heim," sagði Magnús.

Aðspurður hvort fyrir lægju einhverjar breytingar á áætlunum félaganna eða tíðni ferða sagði Magnús svo ekki vera. "Avion Group hefur átt ágætt samstarf við Eimskip um flugflutninga til og frá Íslandi. Við munum nýta það að við erum að fljúga og sigla um allan heim og höfum miklu meiri slagkraft núna, með sameinaðar söluskrifstofur og starfsemi mjög víða."

Kaupsamningurinn var gerður með fyrirvara um að Avion Group fjármagni kaupin innan 14 daga. Magnús sagði fjármögnunina vera á góðri leið. "Fjármögnunin verður hefðbundin, við gefum út nýtt hlutafé og skuldabréf og reynum að finna hinn gullna meðalveg þar á milli. Við erum að ræða við nokkra aðila í því sambandi, bæði innlenda og erlenda. Ég er mjög bjartsýnn á að fjármögnunin takist innan tiltekins tíma."

Fjöldi þeirra hluta, sem Burðarás fær í Avion Group við kaupin og metnir eru á 8,9 milljarða króna, verður ekki endanlega ákvarðaður fyrr en við skráningu Avion Group í Kauphöll Íslands. Náist ekki markmið um skráningu fyrir 31. janúar á næsta ári hefur Avion Group skuldbundið sig til að kaupa þessa hluti af Burðarási.

Magnús, Hafþór og Baldur við stjórnvölinn

Magnús verður stjórnarformaður Avion Group sem fyrr. Þá mun Hafþór Hafsteinsson áfram stýra flugrekstri samstæðunnar, þ.e. Air Atlanta, Excel Airways og viðhaldsþjónustunni Avia Technical Services.

Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, stýrir skipafélaginu áfram. Baldur benti á að "óskabarn þjóðarinnar", eins og Eimskipafélagið var nefnt í árdaga, ætti að baki rúmlega 90 ára sögu í flutningum. Hann kvaðst fagna þeim styrk sem sameiningin við Avion Group færði Eimskip. "Undanfarnar vikur hefur verið unnið af kappi að undirbúningi þessa samnings, en núna hefst fyrir alvöru mikil vinna við að gera Avion Group að einum eftirsóttasta kostinum sem býðst í Kauphöllinni."

Hafþór Hafsteinsson kvaðst einnig vænta mikils af nýju samstarfi. Bæði félögin byggju að mikilli reynslu góðs starfsfólks og sameinuð myndu þau skila aukinni arðsemi. Avion Group gæti boðið viðskiptavinum sínum heildarlausnir í flutningum. "Sameinaðir kraftar gefa enn frekari sóknarfæri," sagði hann.

Magnús Þorsteinsson seldi á dögunum hlut sinn í Samson eignarhaldsfélagi ehf. og Samson Holding, sem hann átti í félagi við Björgólf Guðmundsson og Björgólf Thor Björgólfsson. Samson-félögin eiga hluti í Landsbanka Íslands og Burðarási. Við sölu Magnúsar á hlut sínum í Samson kom fram, að með þeirri ákvörðun ætlaði Magnús sér að einbeita sér að fjárfestingum í almennri flutningastarfsemi og flugrekstri.

Viðburðarík ævi óskabarns

EIMSKIPAFÉLAG Íslands var stofnað á fundi í Reykjavík 17. janúar 1914. Þúsundir manna um allt land og í Íslendingabyggðum vestanhafs skráðu sig fyrir hlut í félaginu.

Fyrstu skipin, Gullfoss og Goðafoss, komu til landsins 16. apríl og 13. júlí 1915. Næst bættust við Lagarfoss, nýr Goðafoss, frysti- og kæliskipið Brúarfoss, Selfoss og Dettifoss.

Eimskip flutti í glæsilega skrifstofubyggingu, fyrsta hús landsins með lyftu, við Pósthússtræti 2 árið 1921. Þar er nú hótel.

Á 5. og 6. áratug síðustu aldar endurnýjaði Eimskip skipaflotann og byggði nýjar vörugeymslur.

Fyrstu mótorskipin, Goðafoss, Dettifoss og Lagarfoss, komu til landsins á árunum 1948 og 1949 og voru mikil framför frá gufuskipunum.

Skipastóllinn var enn endurnýjaður á 7. og 8. áratugnum og nýjar vörugeymslur reistar. Skipum fækkaði úr 24 árið 1979 í 13 árið 1989, en flutningsmagnið jókst á sama tíma um 70%, úr 560 þúsund tonnum í 950 þúsund tonn. Gámabyltingin hóf innreið sína á níunda áratugnum.

Árið 1982 flutti Eimskip endanlega úr gömlu höfninni inn í Sundahöfn.

Í mars 1990 var hlutahafaskrá í fyrsta skipti birt opinberlega hér á landi, en þá var birt í viðskiptablaði Morgunblaðsins skrá yfir stærstu hluthafa Eimskipafélagsins. Var hlutur fimmtán stærstu hluthafanna þá 36% af heildarhlutafénu. Sjóvá-Almennar tryggingar var stærsti hluthafinn með um 11% hlutafjárins. Háskólasjóður Eimskipafélagsins átti þá um 5% og Lífeyrissjóður verslunarmanna 3,1%.

19. september 2003 gengu Landsbankinn, Íslandsbanki, Fjárfestingarfélagið Straumur, Samson Global Holdings, Sjóvá-Almennar tryggingar, Burðarás og Otec Investment frá samkomulagi um verðbréfaviðskipti, sem fól í sér að Landsbankinn og tengdir aðilar eignuðust ráðandi hlut í Eimskipafélaginu. Samson, í eigu Björgólfs Guðmundssonar, Björgólfs Thors Björgólfssonar og Magnúsar Þorsteinssonar, hafði keypt tæpan helming í Landsbankanum á gamlársdag 2002 og þeir félagar því ráðandi bæði í Landsbanka og Eimskip.

Nafni hf. Eimskipafélags Íslands var breytt í Burðarás hf. í mars í fyrra, en nafni dótturfélagsins, þ.e. flutningafélagsins Eimskips ehf., var breytt í Eimskipafélag Íslands.

Magnús seldi hlut sinn í Samson eignarhaldsfélagi og Samson Holding fyrir skömmu, en í gær keypti hann Eimskipafélagið, flutningafélag Burðaráss, af gömlu félögum sínum og færði undir hatt Avion Group.

rsv@mbl.is