Mikill verðmunur var á milli matvöruverslana í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði um land allt miðvikudaginn 25. maí sl.

Verðmunur í könnuninni, sem gerð var í 63 verslunum víðs vegar um land, mældist aldrei undir 100%. Mestur mældist munurinn á hæsta og lægsta verði á kílói af gulrótum, rúmlega 1.450%. Var þar hæst gulrótaverð í verslunum 10-11 við Seljaveg í Reykjavík og á Kaupangi á Akureyri 698 kr., en lægst í verslunum Bónuss við Suðurströnd á Seltjarnarnesi, á Egilsstöðum, Akureyri og Ísafirði, eða 45 kr. Minnstur reyndist hins vegar verðmunurinn á Egils maltöli og var hann 119%, eða 73 kr. í verslunum Bónuss og 160 kr. hjá Hraðbúð Esso á Hellissandi.

Yfir 200% munur var á 13 vörutegundum af þeim 20 sem kannaðar voru og reyndist verð í flestum tilvikum lægst í Bónus á Suðurströnd.

Í verðkönnuninni var skoðað verð í 63 verslunum um land allt og í nokkrum tilfellum m.a. farið í keðjuverslanir sem eru með útibú víða um land. Sýndi könnunin í fjölda tilfella fram á ósamræmi í verði milli verslana innan sömu keðju á mismunandi stöðum á landinu. Reyndist ósamræmið mest í verslunum Samkaupa-Úrvals og var þar ósamræmi í verði milli verslana í 18 tilvikum af 20. Í verslunum Krónunnar var ósamræmi í 17 tilvikum, hjá Samkaupum Strax í 14 tilvikum og í verslunum Bónuss og Kaskó var ósamræmi í 10 tilvikum. Í öðrum keðjuverslunum var sjaldnar ósamræmi.

Að sögn Hennýjar Hinz, verkefnisstjóra hjá verðlagseftirliti ASÍ, ber við samanburð á milli verslana að hafa í huga að um mjög margar mismunandi verslanir er að ræða, allt frá litlum verslunum sem þjóna neytendum í dreifbýli til stórra keðjuverslana.

Í könnuninni er einungis um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu seljenda.