Ayin de Sela við æfingar á sirkusnum Sagan um Gústa trúð.
Ayin de Sela við æfingar á sirkusnum Sagan um Gústa trúð. — Morgunblaðið/ÞÖK
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is VIÐ erum stödd í sirkus. Á sviðinu er trúður sem heldur á stiga, pappírstungli og stól. Hann hengir tunglið í loftið, sest í stólinn við stigann og horfir brosandi upp til himins í áttina að tunglinu.
Eftir Völu Ósk Bergsveinsdóttur valaosk@mbl.is

VIÐ erum stödd í sirkus. Á sviðinu er trúður sem heldur á stiga, pappírstungli og stól. Hann hengir tunglið í loftið, sest í stólinn við stigann og horfir brosandi upp til himins í áttina að tunglinu. Þetta er atriði trúðsins Gústa. Í byrjun eru áhorfendur ánægðir og veltast um úr hlátri en þegar líður á pirrast þeir og undir lokin finnst þeim atriðið innihaldslaust og leiðinlegt. Fólk kom ekki til að horfa á svona atriði.

Franski sirkusinn Cirque er staddur hér á landi og í sýningu hans er sögð sagan af trúðinum Gústa sem byggð er á smásögu Henry Millers, "The Smile at the Foot of the Ladder." Gústi þráir mest að veita áhorfendum sínum eilífa gleði en kemst að því að það er ógerlegt. Hann verður leiður og einmana þar til hann uppgötvar að til að finna hamingju verður hann að vera hann sjálfur, trúðurinn.

Cirque fjallar um listina í sirkus og túlkun rithöfundarins á sirkusfyrirbærinu.

Leikstjórinn, Ueli Hirzel, segir sirkusinn vera óhefðbundinn. "Markmið okkar er að sýna sirkus frá öðru sjónarhorni en fólk er vant. Það eru engin dýr eða hefðbundnir trúðar á sviði heldur fjöllum við um sirkusinn eins og við upplifum hann. Þetta er fyrsti sirkusinn sem túlkar sjálfan sig."

Að leika sig sjálf

Í sýningunni taka þátt fjórir listamenn; tvær mexíkóskar systur, Dani og franskur tónlistarmaður. Þau eru öll sirkuslistamenn og því er leiktúlkunin tiltölulega ný fyrir þeim. Hirzel segir þau samt sem áður eiga auðvelt með að tileinka sér leikarahlutverkið því þau séu í raun að leika sig sjálf.

Sirkusinn er ekki einungis leiksýning heldur inniheldur einnig sjónhverfingar og loftfimleika. Tónlistin er sambland af trommuslætti og ýmsum fallegum tónum sem framkallaðir eru á eins konar hljóðskúlptúr.

Cirque hefur ferðast með söguna af trúðinum Gústa um heiminn síðastliðin þrjú ár og nú síðast dvaldi hópurinn í fjóra og hálfan mánuð í Chile þar sem hann ferðaðist um og skemmti landsmönnum. Ísland er svo síðasti áfangastaður þessa leikferðalags.

Sirkussýningarnar, sem Listahátíð í Reykjavík, Hátíð hafsins og Síminn standa að, verða sýndar 2., 4.,5. og 6. júní.

Sýningarnar fara fram á ensku en þeir sem vilja geta fengið leikskrá á íslensku.