GERT er ráð fyrir að greiðslumark mjólkur aukist um 6-7 milljónir lítra á næsta verðlagsári og verði 112-113 milljónir lítra.

GERT er ráð fyrir að greiðslumark mjólkur aukist um 6-7 milljónir lítra á næsta verðlagsári og verði 112-113 milljónir lítra. Greiðslumark mjólkur hefur aldrei áður aukist jafn mikið milli ára og má það fyrst og fremst rekja til mikilla vinsælda skyrdrykkja.

Þessi hækkun greiðslumarksins þýðir þó ekki auknar beingreiðslur til bænda úr ríkissjóði, þar sem þær miðast við 105 milljónir lítra. Hins vegar fá bændur greitt fyrir umframmjólkina frá afurðastöðvunum og þær greiðslur eru talsvert yfir breytilegum kostnaði, að sögn Þórólfs Sveinssonar, formanns Landssambands kúabænda. Þórólfur sagðist hafa áhyggjur af þurrki og kulda undanfarið því til þess að ná þetta mikilli framleiðsluaukningu milli ára þyrftu þeir á að halda mjög góðu fóðri.