Gunnar Gunnarsson
Gunnar Gunnarsson
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

LJÓST er að gefnar hafa verið út að minnsta kosti tvær milljónir eintaka af bókum Gunnars Gunnarssonar rithöfundar, sem stóð á hátindi ferils síns á fjórða áratug síðustu aldar, en greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að eintök af bókum Arnaldar Indriðasonar væru orðin fleiri en milljón talsins og voru í því samhengi nefndir þrír aðrir íslenskir rithöfundar sem líklegt er að hafi gefið út bækur í meira en milljón eintökum; Halldór Laxness, Jón Sveinsson og Gunnar Gunnarsson.

Að sögn Skúla Björns Gunnarssonar, forstöðumanns Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, hafa vel á aðra milljón eintaka verið seld af skáldsögunni Aðventu einni saman. "Þegar hún kom út í Bandaríkjunum árið 1940 var upplagið um 600 þúsund eintök, og þá var hún meðal annars gjafabók í Book of the Month-klúbbnum. Frá árinu 1948 hefur Reclam-forlagið í Þýskalandi selt 330 þúsund eintök af henni, og þar kemur hún reglulega út á nokkurra ára fresti," segir hann.

Skúli Björn segir ekki alveg ljóst hvað seldist af henni þar fyrir utan. "En þar sem bókin hefur verið þýdd á um 20 tungumál má örugglega bæta við 2-300 þúsund eintökum, þannig að í heildina hafa verið seld að lágmarki 1.200 þúsund eintök af Aðventu ."

Á metsölulista í New York

Aðrar skáldsögur Gunnars en Aðventa hafa ekki selst í viðlíka upplögum, en Skúli Björn segir margar þeirra hafa selst í tugum þúsunda eintaka og hafi nokkrar klárlega farið yfir 100 þúsund eintök. "Hann átti iðulega bækur á topp tíu listum í Danmörku og Þýskalandi og þegar fyrra bindi Fjallkirkjunnar, Ships in the sky , kom út í Bandaríkjunum árið 1938 stökk það beint í 6. sæti metsölulistans í New York, svo dæmi sé tekið um vinsældir hans. Að mínu mati hefur Gunnar Gunnarsson að minnsta kosti selt um 2 milljónir eintaka af verkum sínum, þó að erfitt sé að fullyrða nákvæmlega um sölutölur einstakra bóka nema leggjast í ítarlegar rannsóknir. En fyrir ritlaunin gat hann meðal annars byggt stórhýsið á Skriðuklaustri sem kostaði eins og tíu einbýlishús í Reykjavík árið 1939," segir Skúli Björn að lokum.