Sigríður Ingibjörg Claessen fæddist í Reykjavík 1. apríl 1943. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 23. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Guðrún Arnbjarnardóttir Claessen, húsmóðir, f. 18. apríl 1921, og Haukur Claessen, varaflugmálastjóri, f. 26. mars 1918, d. 26. mars 1973. Sigríður var elst þriggja systkina en eftirlifandi eru Gunnlaugur, hæstaréttardómari, f. 18. ágúst 1946, kvæntur Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, og Helga Kristín, skrifstofumaður, f. 5. september 1955, gift Ragnari Hinrikssyni.

Sigríður giftist 25. maí 1968 Júlíusi Sæberg Ólafssyni, forstjóra, f. 20. mars 1943. Þau eignuðust þrjár dætur. Þær eru: 1) Guðrún, viðskiptafræðingur, f. 24. nóvember 1968, maki Júlíus Þór Gunnarsson, hagfræðingur. Börn þeirra eru Ragnheiður, f. 1997, Ólafur Haukur, f. 2000, og Kjartan Þór, f. 2004. 2) Guðlaug María, félagsráðgjafi, f. 10. janúar 1975, maki Brynjar Þór Jónasson, húsasmíðameistari. Börn þeirra eru Óskar Sæberg, f. 2001, og Ásdís Ósk, f. 2005. 3) Elísabet, lögmaður, f. 16. júlí 1976, maki Arnar Þór Ragnarsson, hagfræðingur.

Sigríður ólst upp í Reykjavík, útskrifaðist með landspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1960, var AFS skiptinemi í Bandaríkjunum 1960-1961. Hún brautskráðist með stúdentspróf frá Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð í desember 1974 og lauk meinatæknanámi frá Tækniskóla Íslands vorið 1983.

Hún starfaði við blóðmeinafræðideild Landspítalans við Hringbraut frá útskrift, fyrst sem meinatæknir en síðar sem kennslumeinatæknir og annaðist þar með kennslu fyrir meinatækna- og læknanema auk símenntunar meinatækna. Áður hafði hún starfað m.a. hjá Almennum tryggingum og Loftleiðum. Hún varð síðar félagi í Svölunum, félagi fyrrverandi flugfreyja, og var þar m.a. í stjórn.

Útför Sigríðar verður gerð frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Mamma er dáin. Elsku mamma þurfti að lúta í lægra haldi fyrir illvígu krabbameininu. Hún barðist við það þrisvar sinnum, fyrst fyrir 25 árum síðan, þegar ég var aðeins fimm ára gömul og systur mínar tólf og fjögurra ára. Aftur tók meinið sig upp fyrir fimm árum síðan. Þær tvær orustur sigraði hún, en það kom þó að því að krabbameinið varð lífsviljanum yfirsterkara.

Það er nákvæmlega ár síðan fjölskyldan fékk þær hræðilegu fréttir að mamma hefði greinst með æxli í lunga. Þá var mánuður síðan eldri systir mín eignaðist sitt yngsta barn og hálfur mánuður síðan ég og eiginmaður minn giftum okkur. Nú, á deginum sem mamma verður jörðuð, eru rúmir þrír mánuðir síðan við hjónin eignuðumst okkar annað barn og sjö vikur síðan yngri systir mín gifti sig. Svona er lífið undarlegt. Gleði og sorg, skin og skúrir, líf og dauði. Maður reynir ekki að botna í hvers vegna lífið rúllar svona, bara heldur sér fast og bíður eftir næstu öldu.

En eftir stendur að stórbrotin og glæsileg kona er farin frá okkur. Aldrei munum við systurnar gleyma ljósu lokkunum, fjaðrandi göngulaginu, fallega brosinu og góðu ilmvatnslyktinni. Ávallt munum við minnast hennar þegar fjölskyldan er saman í Sæviðarsundinu eða í Langholti - sumarbústað fjölskyldunnar í Grímsnesi. Alltaf munum við vera þakklátar fyrir, þrátt fyrir mikla vanlíðan, að mamma náði að taka þátt í þessum stóru stundum í lífi okkar systranna og var okkur stoð og stytta í gegnum það allt.

Það er erfitt að útskýra fyrir Óskari litla syni mínum, tæpra fjögurra ára, að amma Sigga sé dáin. Að Guð hafi hana hjá sér og að nú eigi afi heima einn í Sævó. Hann saknar ömmu sinnar sárlega og biður um að hún ,,opni aftur augun". Hann saknar góðu stundanna þegar hún tók hann í fangið og las Sætabrauðsdrenginn og fleiri sögur og ævintýri fyrir hann eða söng með honum. Vonandi mun hann alltaf geyma minninguna um hana í brjósti sér og hafa hana með sér í hverju sem hann tekur sér fyrir hendur.

Erfiðast við þetta allt saman er þó að horfast í augu við það að mamma er farin frá okkur öllum. Samrýndri fjölskyldu sem hún var máttarstólpi í, og að ég sjái mömmu mína aldrei aftur.

En huggun okkar allra felst í því að nú líður henni vel, þjáist ekki lengur, er ekki lengur fangi í illa förnum líkama. Guð veri með henni og okkur öllum.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Þýð. S. Egilsson.)

Guðlaug M. Júlíusdóttir.

Elskuleg tengdamóðir mín, Sigríður Ingibjörg Claessen, er fallin frá aðeins 62 ára gömul.

Ég kynntist Siggu, eins og hún var alltaf kölluð, fyrir rúmum 12 árum þegar ég var nýbúinn að kynnast Gunnu eiginkonu minni og elstu dóttur þeirra hjóna. Mér var strax vel tekið og varð ég fljótt hluti af fjölskyldunni í Sæviðarsundi. Ég tók strax eftir því hversu vel Sigga sinnti fjölskyldu sinni og vinum. Samband hennar og dætranna þriggja var mjög náið og leituðu þær systur mikið ráða hjá móður sinni. Gunna var sérstaklega náin móður sinni enda lík henni að utan sem innan. Sigga sinnti móður sinni einstaklega vel og var hún hennar stoð og stytta, ekki síst eftir að fjölskyldufaðirinn Haukur féll skyndilega frá árið 1973. Síðan þegar barnabörnin komu til sögunnar var Sigga mjög natin við þau og gaf sér ávallt góðan tíma til að lesa fyrir þau og kenna þeim ýmsa leiki og söngva. Það er mikil synd að barnabörnin skyldu ekki fá að kynnast henni betur en það verður hlutverk okkar að halda minningu hennar lifandi og kenna afkomendum hennar þá góðu siði sem hún sjálf tamdi sér og lagði ríka áherslu á.

Sigga var glæsileg kona og vönduð í alla staði, jafnlynd og dagfarsprúð. Hún lagði mikið upp úr kurteisi og góðum mannasiðum og einnig var hún mjög samviskusöm, sjálfsöguð, ósérhlífin og hjálpsöm. Einstök eljusemi einkenndi Siggu og féll henni aldrei verk úr hendi. Hún var alltaf með eitthvað í gangi; fundir í saumaklúbbunum fjórum, matarboð fyrir fjölskyldu, vini og ættingja, undirbúningur veiðiferða, gönguferða og utanlandsferða, trjárækt, bútasaumur, prjónaskapur, þrif og fleira mætti nefna. Allt var þaulskipulagt til að tíminn nýttist sem best og hægt væri að koma sem flestu í verk.

Sigga og Júlli voru mjög samhent hjón þótt þau væru að mörgu leyti ólík og áttu þau mörg sameiginleg áhugamál eins og trjárækt, útiveru, tónlist, leiklist og ferðalög innanlands sem utan þar sem þau kynntu sér menningu og sögu hinna ýmsu landa. Árið 2001 reistu þau sér sumarbústað í landi fjölskyldunnar að Fossi í Grímsnesi þar sem þau eyddu síðan drjúgum tíma við að fegra og rækta landið. Þar var þeirra unaðsreitur og nutu þau þess að taka á móti börnum og barnabörnum og áttum við þar margar og gleðilegar samverustundir.

Ég er tvímælalaust betri maður að hafa kynnst Sigríði Claessen. Hún reyndist mér og mínum ákaflega vel og betri tengdamóður hefði ég ekki getað hugsað mér. Hún má vera stolt af sinni ævi og því sem hún áorkaði. Það er hins vegar erfitt að sætta sig við að hún hafi verið hrifin á brott á besta aldri þegar framundan voru góð ár en maður verður að sætta sig við ákvörðun almættisins. Himnafaðirinn hefur ætlað henni hlutverk á öðrum stað þar sem endurfundir verða síðar.

Blessuð sé minning Sigríðar Ingibjargar Claessen.

Júlíus Þór Gunnarsson.

Nú er elsku amma Sigga komin til Guðs og englanna á himnum. Hún var búin að vera lengi veik á spítalanum en hún var alltaf svo glöð þegar við komum að heimsækja hana. Hún var svo góð við okkur og fylgdist svo vel með heilsu okkar og öllu því sem við tókum okkur fyrir hendur. Amma las alltaf fyrir okkur og hún kenndi líka Ragnheiði að lesa. Allar ferðirnar austur í stóru-sveit (eins og Óli Haukur kallar það) með afa Júlla og ömmu Siggu voru svo skemmtilegar. Þar fórum við út að skoða trén, tína ber á haustin, spila á gítarinn við varðeldinn á afmælum Bettýjar og njóta þess að vera saman.

Elsku amma Sigga. Við erum viss um að nú líði þér vel og ert komin á fulla ferð að lesa fyrir börnin á himnum. Við vitum að amma mun alltaf vaka yfir okkur og fylgjast vel með okkur öllum eins og henni einni er lagið. Við kveðjum elsku ömmu Siggu með uppáhaldsbæninni hennar sem hún las oft með okkur.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Ragnheiður, Óli Haukur og Kjartan Þór.

Elsku Sigga systir er dáin. Eftir hetjulega baráttu sína við vágestinn ógurlega varð hún að lúta í lægra haldi. Eftir situr maður algjörlega tómur. Það er skrýtin tilfinning að geta ekki hringt í hana og fengið hennar góðu ráð í hinum ýmsu málum.

Það eru forréttindi að hafa átt Siggu sem systur og fyrir það skal þakkað. Hún var stóra systir mín, var 12 árum eldri en ég. Fékk ég að njóta góðs af því þegar ég var smástelpa, en um tíma var hún flugfreyja hjá Loftleiðum. Alltaf mundi hún eftir litlu systur og kom færandi hendi úr hverri ferð. Barbídúkkurnar Ken, Barbí og Skipper, sem voru þá að sjást hér á landi í fyrsta skipti kom hún með, og ógrynni af fötum á þær. Þetta gladdi litlu systur og allan vinahópinn hennar.

Með árunum kynntumst við betur og urðum nánari og skipti þá aldursmunurinn ekki máli. Það er dýrmætt núna að minnast sláturgerðar og laufabrauðssteikingar við spjall og skemmtisögur.

Sigga var vel gefin og vönd að virðingu sinni. Fórnfús var hún, gjafmild, hjálpleg og trygg. Hún hugsaði alltaf um hvað kæmi öðrum betur en henni sjálfri. Sigga var líka skemmtileg og var slegist um að fá hana í hópinn, en hún var aðeins í fjórum saumaklúbbum. Hún tímdi ekki að hætta í neinum þeirra.

Það var henni mikil gleði þegar þau Júlli reistu sér sumarbústað í Fosslandi í Grímsnesi, fyrir nokkrum árum. Bústaðurinn ber handbragði hennar og smekk sannarlega vitni. Handavinna og skemmtilegir munir, ekta að sjálfsögðu, því hún þoldi ekkert skran. Einnig hafði hún mikla ánægju af að planta trjám og gera huggulegt í kringum sig. En ekki mátti gleyma barnabörnunum. Með því fyrsta sem gert var klárt í sveitinni voru rólur og sandkassi fyrir þau. Hún elskaði að hafa þau í kringum sig. Það var henni mikið keppikefli að gera þau óhrædd við hundana okkar Ragga. Gerði hún sér margar ferðir með þau yfir til okkar, bara til að klappa Tótu. Alltaf kom hún færandi hendi sem áður og í einni af heimsóknunum í okkar bústað stakk hún að okkur stóru bútasaumsteppi sem hún hafði lagt mikla vinnu í að gera og var hún nokkuð stolt af sjálf. Verður það varðveitt um ókomin ár.

Það er margs að minnast að leiðarlokum en upp úr stendur að hún var svo góð manneskja.

Elsku Sigga mín, góða ferð inn í framtíðarlandið mikla sem okkur mönnunum er öllum hulið. Hafðu þakkir fyrir allt sem þú varst mér og minni fjölskyldu.

Við Raggi sendum innilegar samúðarkveðjur til þín, Júlli minn, til Gunnu, Guðlaugar og Bettýjar og þeirra fjölskyldna. Megi Guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.

Helga Claessen.

Stundum er sagt einstökum mönnum til hróss að þeir hafi góða nærveru, eins og það er gjarnan kallað. Hvaða eiginleikar það nákvæmlega eru, sem leiða til þess að maður upplifir þessa tilfinningu, er ekki alltaf auðvelt að festa hendur á. Það er hins vegar alveg víst að hún Sigga mágkona mín bjó yfir þessum kostum í ríkum mæli. Kannski var það brosið í augunum, smitandi hláturinn, hlýjan og jákvæðnin eða allt þetta í senn, sem leiddi til þess að öllum hlaut að líða vel í návist hennar. Þetta viðmót við aðra var henni eðlilegt og fyrirhafnarlaust. Það kemur af sjálfu sér að aðrir laðast að slíku fólki. Hún Sigga var líka vinsæl og vinamörg í samræmi við það.

Rúmlega tuttugu ár eru nú liðin síðan ég var kynnt fyrir Siggu og öðrum í fjölskyldu Gunnlaugs. Ég fann fljótt að tengsl systkinanna voru sterk og það var eins og að Sigga yfirfærði þessa væntumþykju strax yfir á mig án nokkurs fyrirvara. Hjá henni voru óvenju miklir mannkostir saman komnir í einni persónu. Sjálfstæð í hugsun, skemmtileg, hjálpsöm og ósérhlífin. Umhyggja fyrir móður sinni, sem nú er orðin hnigin að aldri, var einstök. Samkomur stórfjölskyldunnar urðu margar og ljúfar, þar sem Sigga lagði sig alla fram út frá þeirri afstöðu sinni að samheldni fjölskyldu væri dýrmætari en margt annað. Enn færðumst við nær hvor annarri í orðsins fyllstu merkingu þegar sumarhús okkar beggja voru reist í landi Foss í Grímsnesi fyrir nokkrum árum.

Sigga sýndi það líka að hún var ekki þeirrar gerðar að láta deigan síga þegar á móti blés. Hún fékk sannarlega mótvind þegar hún greindist með krabbamein árið 1980. Tvívegis lagðist hún undir hnífinn og síðan í lyfja- og geislameðferð og sigraði óvin sinn í það skiptið. En lúmskur og óvæginn sjúkdómurinn réðst aftur til atlögu gegn henni á síðasta ári. Nú varð engum vörnum við komið og hún lést 23. maí síðastliðinn eftir hetjulega og æðrulausa baráttu.

Það er gott að hafa verið samferðamaður Siggu, vinur og félagi. Sporin hennar eru full af gleði og gróanda. Hún bætti það mannlíf sem hún var hluti af. Nú er hún horfin yfir landamæri lífs og dauða. Hennar er sárt saknað.

Fari elskuleg mágkona mín í friði, friður Guðs hana blessi.

Guðrún Sveinbjörnsdóttir.

Elsku Sigga frænka. Eftir mikla baráttu þurfum við að kveðja þig. Þú sem hélst fjölskyldunni svo vel saman og verður mikill missir að þér. Nú sitjum við systur og hugsum um bernsku okkar þar sem þú reyndist okkur alltaf vel. Ef eitthvað bjátaði á varst þú alltaf til staðar. Þú hringdir og sendir okkur gjafir til að gleðja okkur. Alltaf mundir þú eftir afmælisdögunum okkar. Þegar Bjarki Ragnar fæddist komst þú á spítalann og færðir honum tvö útsaumuð sængurver sem þú gerðir sjálf og verða þau varðveitt í framtíðinni.

Þegar þú heyrðir af veikindum þínum, færðir þú okkur systkinabörnunum grein þar sem saga fjölskyldunnar er rakin og metum við það mikils. Þú varst alltaf höfðingi heim að sækja og er þess skemmst að minnast þegar við komum til ykkar Júlla á jóladag. Þar hittist öll fjölskyldan saman og gerði sér glaðan dag og verður sá dagur lengi í minnum hafður.

Elsku amma, það er mikið á þig lagt í lífinu. Þar sem þú ert svo sterk tekst þú á við þennan missi eins og annað sem hefur bjátað á í lífi þínu.

Elsku Júlli, Gunna, Guðlaug, Bettý og fjölskyldur, þið eigið alla okkar samúð.

Minningin um Siggu móðursystur okkar lifir alltaf.

Edda Rún og Jóna Margrét.

Sigríður Claessen meinatæknir starfaði á blóðmeinafræðideild Landspítala - háskólasjúkrahúss Hringbraut í 21 ár samfellt. Lengst af starfaði hún sem kennslumeinatæknir í blóðmeinafræði sem var hennar sérgrein. Hún kenndi meinatækninemum við Tækniháskóla Íslands og læknanemum við Háskóla Íslands og síðast en ekki síst sá hún um símenntun meinatækna í blóðmeinafræði á rannsóknadeildunum.

Sigríður var einstaklega góður kennari og miðlaði af þekkingu sinni af mikilli einlægni enda mjög vel lesin og kunni sitt fag. Það er því stórt skarð höggvið í hóp okkar meinatækna og verður hennar sárt saknað.

Persónuleiki Sigríðar stendur jafnframt upp úr, því duglegri, áreiðanlegri og traustari vinur er vandfundinn. Við munum því varðveita minninguna um hana, ekki eingöngu sem framúrskarandi meinatækni heldur einnig sem framúrskarandi manneskju.

Við sendum eiginmanni og fjölskyldu hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Meinatæknar og annað samstarfsfólk á blóðmeinafræðideild, klínískri lífefnafræðideild, erfða- og sameindalæknisfræðideild LSH.

Með sorg í hjarta kveðja kennarar og nemendur námsbrautar í lífeindafræði (meinatækni) og annað samferðafólk í Tækniháskóla Íslands Sigríði Claessen. Við Sigríður erum báðar lífeindafræðingar og höfum lengi átt samleið á rannsóknastofum LSH og í kennslu við THÍ. Ég vissi því vel af störfum hennar og því góða orðspori sem af henni fór. Góðum árangri hennar í kennslu og viðhorfum nemenda kynntist ég síðan enn betur þegar ég tók við sviðstjórn í okkar faggrein og ég naut þess einnig að kynnast henni sjálfri betur.

Sigríður bar stétt okkar gott merki og sýndi það í öllu sínu starfi að það skiptir ekki meginmáli hvort það er kallað meinatækni eða lífeindafræði, heldur er það innihaldið sem skiptir mestu. Fagmennska, fagþekking, fagleg vinnubrögð, falleg og fagleg framkoma. Allt eru þetta þættir sem við viljum að prýði stéttina. Sigríður hafði þá alla í ríkum mæli og var bæði nemendum sínum og samstarfsfólki góð fyrirmynd.

Síðasta haust kenndi Sigríður áfangann sinn í síðasta sinn og okkur var flestum ljóst að þannig væri það. Hún var þá mjög veik og meðferðin erfið, en henni var mikilvægt að ljúka þessu verki sem hún hafði tekið að sér. Okkur var líka mikilvægt að fá að njóta starfskrafta hennar áfram, en fyrst og fremst samvista við hana hér í skólanum aðeins lengur. Nemendur hennar lögðu sig fram um að allt gengi að óskum. Þeir hafa örugglega lært svo miklu meira af henni þennan tíma en það sem hún kenndi þeim um útlit og eðli hinna mismunandi blóðfrumna. Við samkennarar hennar gerðum það alla vega. Lykilorðin þar voru hugrekki, æðruleysi og reisn.

Af djúpri virðingu og þökk kveð ég Sigríði Claessen. Minningarnar um hana eru einungis góðar og þær ylja. Fjölskyldu og vinum Sigríðar færi ég innilegar samúðarkveðjur starfsfélaga og nemenda Sigríðar í THÍ og bið þess að minningarnar megi létta þeim erfiða daga.

Martha Á. Hjálmarsdóttir.

Sigga Claessen gaf mér afleggjara af hindberjarunna fyrir tveim árum sem ég setti niður í gróðurhús á Laugarvatni. Framan af hélt ég að annar gróður ætlaði að kæfa þennan legg en þegar ég leit eftir honum 22. maí s.l. sá ég að upp úr jarðarberjaplöntunum var kominn keikur vísir að runna. Hann hafði ekki látið kæfa sig. Næsta dag lést Sigga eftir langt sjúkdómsstríð. Í starfi sínu plantaði Sigga kunnáttu sem orðið hefur að sprotum og fullvaxta trjám í starfi blóðmeinafræðinnar á Íslandi. Hún átti sem kennslumeinatæknir drjúgan þátt í þjálfun meinatækna- og læknanema og viðhaldsmenntun starfsmanna. Á þjálfuninni byggir þekking og starf meinatækna og lækna um allt land. Þannig lifa afleggjarar hennar áfram í starfi hinna. Hennar verður sárt saknað sem samstarfsmanns og vinar af starfsmönnum blóðmeinafræðideildar LSH. Ég sendi innilegustu samúðarkveðjur til eiginmanns og aðstandenda.

Páll Torfi Önundarson, yfirlæknir blóðmeinafræðideildar LSH.

Í dag kveðjum við Sigríði Ingibjörgu Claessen kennslumeinatækni og félagskonu okkar í Svölunum, félagi fyrrverandi og núverandi flugfreyja.

Margar okkar kynntust henni og unnu með henni í fluginu, en hún var glæsilegur, duglegur og ósérhlífinn fulltrúi sinnar stéttar. Seinna er þeim starfsvettvangi lauk gekk hún til liðs við Svölurnar og var í því félagi í mörg ár. Hún tók virkan þátt í starfi félagsins, fyrst sem ritari stjórnar og síðar í fjáröflunarnefnd og vann hún störf sín fyrir félagið af samviskusemi og dugnaði, ávallt ljúf og einlæg í viðmóti.

Við þökkum samfylgdina og vel unnin störf í þágu félagsins. Fjölskyldu Sigríðar sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Svalanna,

Þórhildur Sandholt, formaður.

Það er hlutskipti sumra að vera hrifnir yfir móðuna miklu fyrir aldur fram. Þetta var hlutskipti Sigríðar, Siggu eins og hún hét í okkar hópi, einmitt þegar hún átti að geta verið með og notið samskipta við barnabörnin. Þetta tímabil, sem ömmum þykir svo mikilvægt.

Hún Sigga var klettur. Á sinn hægláta hátt smitaði hún frá sér stöðugleika og góðvild. Það var gott að hafa hana í hópnum, því hún kunni að gleðjast í hógværð. Okkar spila- og ferðahópur byggir á gömlum grunni, en þegar Sigga og Júlíus bættust í hópinn þá auðguðumst við, sem fyrir vorum. Að ekki sé minnst á góðgerðirnar, sem við spilamenn fengum í Sæviðarsundinu.

Við minnumst allra okkar skemmtilegu ferða, utanlands eða milli heimila. Ekki síst, er okkur fyrir tveim árum var boðið í nýjan sumarbústað þeirra hjóna í Grímsnesi. Þar var, auk annars, farið í skógarferð um land þeirra undir leiðsögn gestgjafanna.

Við, spilamenn og konur, vottum Júlíusi, Guðrúnu móður Sigríðar, dætrunum og þeirra fjölskyldum dýpstu samúð okkar og hluttekningu. En við skulum ekki gleyma að börn verða fullorðin og taka við okkar hlutverki á lífsins leið.

Spila- og ferðafélagar.

Haustið 1981 hóf 14 manna hópur nám í meinatækni við Tækniskóla Íslands. Fæst höfðum við hist nokkurn tímann áður, komum víðsvegar að af landinu og vorum á ýmsum aldri jafnvel svo að tvær þær elstu gátu verið mæður þeirra yngstu. Að loknu námi hurfum við til starfa á ýmsum stöðum, en flest þó á Landspítalann. Þessi hópur náði svo vel saman að alla tíð síðan höfum við haldið sambandi og hist reglulega yfir vetrartímann. Alltaf verið tilhlökkunarefni að komast í næsta klúbb, rabba um lífið og tilveruna og ekki síst fagið.

Nú er ein okkar horfin yfir móðuna miklu og er hennar sárt saknað. Sigríður Claessen vakti strax athygli í okkar hópi. Há, grönn, ljóshærð og glæsileg. Við nánari kynni kom fram að þar fór vönduð, greind og hreinskiptin kona - blátt áfram og með hárfínan húmor. Á hennar fallega heimili áttum við góðar stundir, og það leyndi sér ekki hversu mikil mamma og fjölskyldumanneskja hún var. Á vinnustað var hún vinsæl og naut virðingar. Hún sá um kennslu meinatæknanema og fórst það vel úr hendi.

Eftir áratuga hlé tók sig upp erfiður sjúkdómur og varð ekki við ráðið. Sigríður tókst á við veikindi sín með æðruleysi sem lýsir henni vel. Við vottum eiginmanni hennar, dætrum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð. Minning hennar lifir.

Skólasystur úr T.Í.

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt,

þagnar kliður dagsins.

Guð er að bjóða góða nótt

í geislum sólarlagsins.

(Trausti Á. Reykdal.)

Í dag kveðjum við Siggu, vinkonu okkar, Claessen. Fyrir fjörutíu árum kynnti Júlíus hana fyrir hópnum okkar sem unnustu sína. Hún var þá sem ávallt síðar óvenju glæsileg kona, hávaxin, björt yfirlitum, traust og hreinskiptin. Hún hafði einstaklega góða og hlýja nærveru.

Áratuga kynni hafa fært okkur margar góðar minningarperlur, sem við þökkum af alhug.

Við sendum Júlíusi, dætrum þeirra og fjölskyldum, Guðrúnu móður Siggu og ástvinum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Karenar og Skarphéðingar.

Septembermánuður 1979 er genginn í garð. Ferðalag er hafið í fylgd Sigríðar Ingibjargar Claessen, Siggu. Á því ferðalagi er víða komið við, bæði á sérdeildum Landspítalans svo og New York-borgar.

Áfangasigrar vinnast er gáfu góða heilsu og Siggu þrek og þor til margvíslegra verka. Hvergi var slegið slöku við, fjölskyldunni sinnt, en jafnframt hafið nám í meinatækni, er hún lauk á árinu 1983. Starfaði Sigga æ síðan á blóðmeinafræðideild Landspítalans við Hringbraut, undanfarin ár sem kennslumeinatæknir.

Sigga var glæsileg kona, fríð sýnum, hávaxin, ljós yfirlitum og bar allt hennar fas merki um skapfestu. Var hún gædd góðum gáfum, öguð í hugsun og verki, er skilaði sér í fullkomnun þeirra verka er hún tók að sér. Metnaðarfull, bæði fyrir hönd sjálfrar sín og sinna, ákveðin í skoðunum, traustur vinur. Í áratugi höfum við notið vináttu þeirra Siggu og Júlíusar og fjölskyldu þeirra. Er þar margs að minnast, m.a. árlegar skoðunarferðir um landið í góðra vina hópi, fjölda sameiginlegra veiðiferða, þar sem kjölfestan hefur verið Laxárdalur í Suður-Þingeyjarsýslu, hvar sál og líkami endurnærast við náttúruskoðun og veiðar á þeim fagra stað.

Á undanförnum árum hefur drjúgum hluta frítíma þeirra Siggu og Júlíusar verið varið til þess að bæta landkosti að Fossi í Grímsnesi, þar sem þau hófu skógrækt í fjölskyldureit sínum. Hefur verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdum þeirra þar og njóta með þeim ávaxta verkanna bæði innan og utan dyra í Langholti, en svo er staðurinn nefndur. Hefur skógræktinni fleygt fram, enda hugað sérlega að hverju tré, þótt mörg séu. Líktist Sigga helst glöggum og nærgætnum fjárbónda, er við gengum með þeim hjónum um landareignina, þar sem hún þekkti hvert tré og hvern græðling nánast með nafni og að auki gróðursetningardaginn. Bætti hún stöðugt við þekkingu sína á öllum þáttum skógræktar og var aðdáunarvert að sjá, hvernig hún nýtti þekkingaraukann til bættrar ræktunar.

Unaðsreitur varð til, þar sem dætur, tengdasynir, barnabörn og vinir nutu samveru þeirra hjóna.

Fyrir rúmu ári dró ský fyrir sólu. Erfiður sjúkdómur greindist að nýju. Ferðalag til bættrar heilsu hafið, meðferðarleiðir reyndar. Árangur minni en vonir og vilji stóðu til en ánægjustundir nýttar til hins ýtrasta. Gifting dætra, skírn barnabarns, stundir í Langholti auk ánægjulegs ferðalags þeirra hjóna í marsmánuði síðastliðnum. En enginn má sköpum renna. Ferðin þyngdist, krafturinn minnkaði og andaðist Sigga á krabbameinslækningadeild Landspítalans hinn 23. maí.

Góð vinkona er kvödd, þökkum við samfylgdina. Megi Guð og góðar vættir styrkja góðan vin, Júlíus, dæturnar þrjár og fjölskyldur þeirra, systkini og móður þeirra, Guðrúnu.

Hildur og Þórarinn.

Við andlát Sigríðar Claessen 23. maí hvarf ein af bestu vinkonum okkar hjóna úr lífi okkar. Við Sigga erum fædd á sama ári og uppalin á ættarheimili mæðra okkar í jaðri Skuggahverfis. Hún fluttist ung að aldri með foreldrum sínum að Langholtsvegi í Reykjavík og bjó þar til þess tíma að hún giftist skólabróður mínum úr Menntaskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands, Júlíusi Sæberg. Þar með endurnýjuðust kynni okkar Siggu og rifjaði hún stundum upp að hún myndi enn eftir hvað hún vorkenndi stráknum sem var bundinn í band í porti við Hverfisgötu.

Með okkur hjónum þróaðist fljótt góður vinskapur sem hefur fylgt okkur alla tíð síðan. Við höfum því orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með þróun og þroska sambands þeirra og dætra. Af kynnum okkar sannast að maður og kona í góðu hjónabandi eru eitt og því erfitt að minnast eins án þess að minnast beggja. Hægt er að minnast ýmissa atburða af samvistum okkar en ég kýs að nota þessar fáu línur til að draga fram persónulýsingu frá bæjardyrum okkar Sigrúnar.

Eftir góða grunnmenntun frá Kvennaskólanum í Reykjavík og stofnun hjúskapar ákvað Sigga að taka stúdentspróf og mennta sig sem meinatæknir. Hún sýndi þar þrautseigju, staðfestu og samviskusemi sem endurspeglaðist síðar í dætrum hennar. Heimilið, uppeldi, menntun og velferð dætranna, Guðrúnar, Guðlaugar og Elísabetar, var þeim hjónum ætíð efst í huga og voru það lokaverk Siggu að taka þátt í skírn dótturdóttur og skömmu síðar brúðkaupi yngstu dótturinnar. Sigga naut þess að hlúa að heimili sínu fyrst í Hlíðunum, síðan í Heimunum og síðast í Sæviðarsundi. Mátti þar glöggt sjá að hún var myndarleg húsmóðir og afbragðs hannyrðakona. Umhyggja fyrir móður sinni, sem misst hafði mann sinn á miðjum aldri, var henni ætíð ofarlega í huga.

Þeim hjónum var annt um vini sína sem ávallt voru þátttakendur við hátíðleg tækifæri, s.s. við lokapróf og brúðkaup dætranna.

Sigga var glæsileg kona, vel að sér í þjóðfélagslegri umræðu, glaðlynd og félagslynd. Eitt aðaláhugamál þeirra hjóna á síðari árum var að reisa myndarlegt sumarhús í Grímsnesinu, í landi Hauks heitins föður hennar. Þar stunduðu þau gróðursetningu af kunnáttu og elju og undu vel hag sínum í faðmi fjölskyldunnar.

Með söknuð í hjarta kveðjum við nú góða vinkonu og vottum Júlíusi, dætrum og fjölskyldum, móður hennar og systkinum dýpstu samúð okkar. Siggu þökkum við fyrir öll árin sem við höfum átt samleið. Guð blessi minningu hennar.

Kristján og Sigrún.

Í amstri daganna er okkur mannfólkinu gjarnt að taka lífinu sem sjálfsögðum hlut. Hugurinn er oftast bundinn við þá veraldlegu hluti sem við erum að fást við en síður við fallvaltleika lífsins. Við ákveðna atburði í lífinu er hins vegar eins og tíminn stöðvist og þannig varð okkar innanbrjósts þegar við fréttum andlát góðs vinar okkar, Sigríðar Claessen.

Liðin ár rifjast upp, minningarnar streyma fram og við fyllumst þakklæti fyrir að hafa átt allar þær ánægjustundir sem tengjast henni og koma upp í hugann. Þær verma og ylja og skilja eftir gleði í hjarta vegna þess að þær hafa gert lífið bjartara og innihaldsríkara. Samverustundir heima og heiman um langt árabil, sem eru svo ótal margar og ánægjulegar, er við hjónin höfum átt með Júlíusi og Siggu. Þar eru ofarlega minningar frá árlegum ferðalögum um landið, veiðiferðum og heimboðum en ekki síður frá merkisviðburðum í fjölskyldunni eins og afmælum, útskriftum og brúðkaupum dætra þeirra.

Það sem ber þó hæst er vináttan sem hefur myndast og það góða og hlýja viðmót sem ávallt mætti okkur. Hún var ákveðin og sterkur persónuleiki, hreinskiptin, réttsýn, greind og víðlesin. Það einkenndi fas hennar allt hvað hún bar hag fjölskyldu sinnar mjög fyrir brjósti og hafði metnað fyrir þeirra hönd. Hún var stolt af dætrum sínum og barnabörnum sem eru miklir sólargeislar í lífi þeirra hjóna. Það er aðdáunarvert hvernig Sigga tókst á við örlög sín þegar sýnt var að veikindin voru komin á ný á alvarlegt stig. Hún lét það ekki buga sig heldur gerði flest það sem hugur hennar stóð til og reyndi að njóta daganna eftir mætti þótt kraftur færi þverrandi. Það er ekki fjarri að hugur manns fylltist helgi að verða vitni að slíkum hugarstyrk.

Í minningunni munum við sjá hana fyrir okkur í sumarbústaðnum, glaða og reifa, ræða málefni líðandi stundar af áhuga, bera fram góðan mat og gleðjast með glöðum, helst með alla fjölskylduna í kringum sig. Þeir sem skilja eftir góðar minningar og hafa lagt rækt við sinn garð hafa lifað lífinu vel því það eflir og styrkir þá sem eftir lifa. Sigga var góður vinur sem verður sárt saknað. Mestur er söknuðurinn hjá eiginmanni, dætrunum og fjölskyldum þeirra, aldraðri móður og systkinum. Við biðjum algóðan Guð að styrkja þau og vernda.

Blessuð sé minning Sigríðar Claessen.

Áslaug og Karl F. Garðarsson.

Elskuleg vinkona okkar, Sigríður Claessen, er látin langt um aldur fram. Í veikindum sínum sýndi hún mikið æðruleysi og baráttuþrek.

Sigga var sterk kona, greind, ákveðin, dugleg með afbrigðum, skemmtileg og vinmörg.

Við unnum með henni á Rannsóknastofu Landspítalans og var það samstarf mjög ánægjulegt. Hún var frábær í starfi sínu sem kennslumeinatæknir, en hún var ekki aðeins með fræðin á hreinu heldur kunni hún svo vel að miðla þeim til annarra.

Fyrir nokkrum árum stofnuðum við bútasaumsklúbbinn okkar og hittumst reglulega. Efldi þetta enn frekar vináttuna. Sigga var afkastamest okkar við saumaskapinn og komu listrænir hæfileikar hennar þar mjög vel í ljós. Hún saumaði mörg falleg teppi og flest þeirra gaf hún vinum og vandamönnum. Við eigum oft eftir að minnast skemmtilegrar ferðar okkar í sumarbústað s.l. haust, þar sem Sigga naut sín svo vel. Við erum mjög þakklátar fyrir allar góðu og skemmtilegu samverustundirnar. Skarð hennar í klúbbnum okkar verður aldrei fyllt og mun hennar verða sárt saknað. Í einkalífi sínu var hún gæfusöm. Hún talaði með mikilli væntumþykju um fjölskyldu sína og var mjög stolt af dætrum sínum og barnabörnum, sem mikið hafa misst því betri amma er vart finnanleg. Megi minningin um umhyggjusama og hjartahlýja eiginkonu, móður, ömmu og dóttur, milda sorgina og gefa þeim styrk, sem eftir lifa.

Anna Lovísa, Hafdís, Hjördís,

Kristín G. og Þórunn.

Sigríður Claessen elskuleg vinkona mín er látin langt fyrir aldur fram. Við kynntumst þegar við unnum saman á skrifstofu Loftleiða árin 1965 og 1966 og hefur ætíð síðan verið vinskapur okkar á milli. Það var skemmtilegur tími, bæði í vinnu og frítíma. Sigga var ákaflega traust og tryggur vinur vina sinna. Hún var mjög skemmtileg og hafði skemmtilega kímnigáfu og tilsvör. Einnig var hún minnug og vitnaði oft í gömul atvik á sinn sérstaka hátt. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hitta Siggu fyrir mánuði síðan. Þá var hún sæmilega hress og leið vel miðað við aðstæður. Ekki hvarflaði að mér þá að þetta yrði okkar síðasta stund. Ég mun sakna hennar sárt.

Fjölskyldu Siggu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið Guð að styrkja þau í sorginni.

Nanna Sigurðardóttir.

Kær vinkona er kvödd í dag, langt fyrir aldur fram. Hennar mun ég sakna sárt. Að henni stóðu góðir foreldrar sem með sinni framgöngu komu börnum sínum vel til manns, eins og þau bera merki.

Sigga var heilsteypt og samviskusöm og trygglynd svo af bar. Vinum sínum var hún sannur vinur bæði í gleði og í þraut. Dætrum sínum var hún góð móðir og allar bera þær vitni umhyggju og góðs uppeldis úr foreldrahúsum. Mikið jafnræði var með þeim hjónum Siggu og Júlla og á heimili þeirra var gott að koma, gestrisni og gleði í fyrirrúmi.

Sigga bar veikindi sín af ótrúlegum viljastyrk og æðruleysi.

Elsku Gunna mín, stundirnar góðu á Langholtsveginum hafa staðið mér ljóslifandi fyrir hugskotssjónum undanfarna daga, þær eru meðal minna bestu minninga. Júlli, Gunna, Guðlaug , Bettý, tengdasynir og barnabörn, ykkar harmur er mikill en minningarnar um góða konu og móður er huggunin. Gulli og Helga þið kveðjið kæra systur sem vildi ykkar hag og fjölskyldna ykkar sem bestan.

Blessuð sé minning vinkonu minnar.

Lilja.

Kæra Sigga mín, nú ert þú horfin yfir móðuna mikla. Þú barðist við illvígan sjúkdóm með æðruleysi eins og þín var von og vísa. Ég leit til þín morguninn 23. maí og þú sagðir þá við mig: "Nú er minn tími kominn." Ég var mjög þakklát fyrir að fá þá tækifæri til að þakka þér fyrir allar góðu og ógleymanlegu samverustundirnar, sem við höfum átt bæði í starfi og frítíma. Ómetanleg vinátta okkar hófst fyrir 15 árum þegar við unnum saman að BS-verkefni í meinatækni. Þá kynntist ég hversu heilsteypt, trygg og einstök manneskja þú varst. Þegar við vorum að skrifa ritgerðina kom í ljós hve næmt auga þú hafðir fyrir móðurmálinu og hvað þér var það kært. Við samstarfskonur þínar sem störfuðum við smásjárskoðun á blóðmynd gátum alltaf leitað til þín og komum þá ætíð að hafsjó fróðleiks sem þú hafðir aflað þér og varst alltaf tilbúin að miðla af.

Við áttum margar góðar samverustundir og gátum talað endalaust saman. Þau voru ófá leyndarmálin, sem ég sagði þér og ég bætti alltaf við: Ég treysti þér, þú ert eins og klettur. Þannig varstu, þú varðveittir það sem þér var treyst fyrir.

Fjölskylda þín var þér allt. Það var þín mesta ánægja í lífinu að veita henni þá ástúð og hlýju sem prýddi þig. Ég man þegar þú varst orðin veik, þá bað ég þig um að fara vel með þig og hvíla þig, en þú sagðir að það væri ekki þess virði að lifa, ef þú gætir ekki gert það sem þú hefðir gert hingað til. Þú varst mikil hagleikskona og ég þakka þér sérstaklega fyrir bútasaumsteppið sem þú saumaðir og gafst okkur Geir í sumarbústaðinn. Eitt skiptið þegar við Geir komum í bústaðinn til ykkar Júlla þá var Guðlaug dóttir þín þar. Stoltið ljómaði af henni þegar hún sýndi okkur allt það sem þú hafðir saumað og málað.

Kæra Sigga, við Geir þökkum ykkur Júlla fyrir allar ánægjulegu samverustundir liðinna ára. Kæri Júlli, þér og fjölskyldu þinni vottum við okkar dýpstu samúð. Við vitum að söknuður ykkar er mikill, en við trúum því að minningin um einstaka konu og móður muni lifa með ykkur og létta söknuðinn.

Blessuð sé minning þín, kæra Sigga.

Þín vinkona,

Kristín.

Eg minnist þín í vorsins bláa veldi,

er vonir okkar stefndu að sama marki,

þær týndust ei í heimsins glaum og harki,

og hugann glöddu á björtu sumarkveldi.

Þín sál var öll hjá fögrum lit og línum,

og ljóðsins töfraglæsta dularheimi.

Þú leiðst í burt frá lágum jarðarseimi,

í ljóssins dýrð, á hugarvængjum þínum.

Ég sakna þín, ég syrgi farinn vin,

í sálu þinni fann ég dýpsta hljóminn,

er hóf sig yfir heimsins dægurglys.

Á horfna tímans horfi ég endurskin

ég heyri ennþá glaða, þýða róminn,

frá hreinni sál með hárra vona ris.

(S. Steinarr.)

Við vottum öllum sem syrgja okkar dýpstu samúð.

Jarþrúður, María,

Sigurlaug og Svava.