TUNGLFISKUR sem flæktist inn í höfnina í Þorlákshöfn á haustdögum hefur nú verið stoppaður upp og verður hann til sýnis á sýningu í ráðhúsi Ölfuss. Tunglfiskurinn er gríðarstór og var fyrst talinn vera hákarl.

TUNGLFISKUR sem flæktist inn í höfnina í Þorlákshöfn á haustdögum hefur nú verið stoppaður upp og verður hann til sýnis á sýningu í ráðhúsi Ölfuss. Tunglfiskurinn er gríðarstór og var fyrst talinn vera hákarl. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að um tunglfisk var að ræða, tveggja metra langan furðufisk sem slæpst hafði um langa leið til Íslands. Björgunarsveitarmenn fönguðu fiskinn og komu honum á bryggjuna.

Á síðustu mánuðum hafa uppstoppararnir Steinar Kristjánsson og Ove Lundström stoppað fiskinn upp en þetta mun vera eitt stærsta verkefni í uppstoppun sem unnið hefur verið hér á landi. Báðir uppstoppararnir hafa hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín, m.a. fékk Steinar önnur verðlaun í heimsmeistarakeppni uppstoppara í vor.

Á Sjómannadaginn, 5. júní, verður opnuð sýning í Ráðhúsi Ölfuss í Þorlákshöfn, þar sem tunglfiskurinn skipar heiðurssæti. Á sýningunni verða einnig ýmis önnur sjávardýr, bæði þekktir fiskar og annað sem sést sjaldnar, m.a. tröllakrabbi, lúsífer og sædjöfull. Í tilefni af opnuninni mun Steinar Kristjánsson sýna ýmis dýr sem hann hefur stoppað upp, m.a. mun hann sýna verðlaunafuglinn úr heimsmeistarakeppninni.