STÖÐUMÆLAR munu heyra sögunni til í miðbæ Akureyrar frá og með næsta hausti, en bæjarstjórn ákvað á fundi sínum í gær að hætta að notast við stöðumælana og nota þess í stað svokallaðar framrúðuklukkur.

STÖÐUMÆLAR munu heyra sögunni til í miðbæ Akureyrar frá og með næsta hausti, en bæjarstjórn ákvað á fundi sínum í gær að hætta að notast við stöðumælana og nota þess í stað svokallaðar framrúðuklukkur.

"Það verður engin gjaldtaka á bílastæðum bæjarins, við ætlum að hætta að taka gjald fyrir bílastæðin. Við erum í dag með 660-670 bílastæði á vegum bílastæðasjóðs, þar af er um helmingur gjaldfrjáls," segir Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri.

Þetta mun vera í fyrsta skipti sem framrúðuklukkur verða notaðar hér á landi, en sambærileg kerfi eru notuð víða annars staðar í Evrópu. Bílar sem eiga erindi í miðbæinn þurfa því eftir að breytingarnar taka gildi að vera með pappírsklukku festa við framrúðu bíla sinna, og stilla vísa klukkunnar á þann tíma sem þeir yfirgefa bílinn. Ef þeir eru lengur að sinna erindum sínum en heimilt er eiga þeir á hættu að fá sekt.

Aðkomumenn fái klukku

Bæjarstjórn fól bæjarráði frekari úrvinnslu málsins, en Kristján segist eiga von á því að þetta kerfi verði komið á laggirnar seinnipart ágústmánaðar. Spurður hvernig áhrif þetta hafi á utanbæjarmenn sem leggi bílum sínum í miðbænum viðurkennir hann að það sé visst vandamál. Til greina komi að framrúðuklukkur fái að liggja frammi á bensínstöðvum, bílaleigum og víðar svo aðkomumenn geti eignast slíka klukku ef þörf krefur.