Víkverji fór á dögunum í veiðiferð að Reynisvatni ásamt ungum syni sínum og hafði ekki komið þangað um nokkra hríð. Þegar á staðinn var komið sló það Víkverja hvað byggðin í Grafarholtinu er nálægt vatninu.

Víkverji fór á dögunum í veiðiferð að Reynisvatni ásamt ungum syni sínum og hafði ekki komið þangað um nokkra hríð. Þegar á staðinn var komið sló það Víkverja hvað byggðin í Grafarholtinu er nálægt vatninu. Það getur varla talist lengur náttúruparadís svona þétt við blokkirnar. Allt eins væri hægt að standa á bökkum Tjarnarinnar í miðbænum með veiðistöng í hendi. Kannski að það verði framtíðin, hver veit.

Verst var þó að sjá hvað staðurinn er í mikilli niðurníðslu. Öll aðstaða er heldur óþrifaleg og lítt aðlaðandi. Þarna stóðu gasgrill til boða, illa þrifin og nánast óstarfhæf. Með herkjum var hægt að notast við tvö grill, á öðru þeirra stóð loginn beint upp í loftið í einu horni grillsins og brennarinn greinilega handónýtur. Ef aðstandendur Reynisvatns ætla að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sæmilega aðstöðu verða þeir að hafa svona hluti í lagi.

Þegar á staðinn var komið var ekki mikla leiðsögn að fá um veiðiaðferðir eða góða veiðistaði en eftir þessa ferð mælir Víkverji ekki með því við nokkurn mann að fara að Reynisvatni með spún. Annaðhvort er það flugan eða að róa á báti út á vatnið og dorga. Þarna voru krakkarnar hver á fætur öðrum að festa spúnana í grunnu og grýttu vatninu og veiðin harla lítil að sjá.

Svo er það gjaldskráin. Fyrir ferðina var sagt að börnin gætu fengið veiðistöng fyrir 500 krónur. Hljómaði það ágætlega (þó að á vef Reynisvatns sé talað um 300 kr. leigu fyrir barnastöng) og mættu margir því án alls veiðibúnaðar. En þetta reyndist bara grunngjald, eftir að búið var að leigja græjur á stöngina og fá beitu var kostnaðurinn fljótt kominn vel á annað þúsundið.

,,Útivistarparadís í útjaðri borgarinnar," segja Reynisvatnsmenn á vefnum sínum. Til að standa undir nafni þurfa þeir að bæta sig fyrir sumarið, ef fólk á að snúa þaðan sælt og ánægt eftir ferðina. Víkverji getur ekki leynt því að hann varð fyrir vonbrigðum, sem og fleiri í ferðinni.