Kristján Ragnar Ásgeirsson
Kristján Ragnar Ásgeirsson
Kristján Ragnar Ásgeirsson fjallar um samgöngur á vegum: "Það er í mínum huga ekkert sjálfsagðara en að þessi bæjarfélög fái notið bættra vegasamgangna eins og önnur bæjarfélög í landinu..."

Í MORGUNBLAÐINU 17. maí síðastliðinn fer Þórólfur Matthíasson prófessor við Háskóla Íslands mikinn um arðsemi Héðinsfjarðarganga og nefnir aðra kosti sem sér þyki vænlegri, eins og bættan veg um Lágheiði eða einbreið göng í stað tvíbreiðra. Í sjónvarpsfréttum 18. maí er tekið viðtal við hann í kjölfar greinarinnar og kemur þá í ljós vanþekking hans á umtalsefninu þegar hann dregur í efa að 350 bílar fari um Héðinsfjarðargöng dag hvern þar sem Siglfirðingar séu ekki nógu margir til að sú spá Vegagerðarinnar rætist.

Ég veit að hagfræðingar nota oftast einn útgangspunkt í hagfræðiútreikningum sínum, en að ætla að Siglfirðingar séu einu notendur Héðinsfjarðarganga er náttúrulega fráleit þröngsýni. Það er nefnilega svo að Héðinsfjarðargöng munu stytta vegalengdir milli Ólafsfjarðar og Reykjavíkur umtalsvert og einnig milli Dalvíkur og Reykjavíkur. Þá gætu Akureyringar einnig nýtt sér leiðina þegar Öxnadalsheiði er ófær, en leiðin gegnum Héðinsfjarðargöng og um Þverárfjall er litlu lengri en leiðin um Öxnadalsheiði hvað vegalengd milli Akureyrar og Reykjavíkur varðar. Það er því töluverður sparnaður falinn í spörun eldsneytis við akstur um göngin, auk þess að ekki þyrfti að halda Öxnadalsheiði opinni við erfiðar aðstæður á illviðrisdögum.

Vegur um Lágheiði er algjörlega afleitur kostur þar sem viðhald og snjómokstur myndu kosta tugi milljóna ár hvert. Þá eru einbreið göng einnig slæmur kostur þar sem mikið umferðaröngþveiti myndast í slíkum göngum á álagstímum auk þeirrar hættu sem skapast þegar tvær bifreiðar koma úr gagnstæðri átt á sömu akrein. Í þessu sambandi býð ég Þórólf Matthíasson velkominn að keyra Ólafsfjarðargöng nokkrum sinnum fram og aftur, helst um verslunarmannahelgina.

Héðinsfjarðargöng munu gera Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Hofsósi og Sauðárkróki kleift að tengjast með reglulegum rútusamgöngum þar sem rútur geta gengið daglega frá Akureyri til Reykjavíkur um þessi bæjarfélög, en hingað til hafa slíkar rútuferðir farið frá Akureyri um Öxnadalsheiði, Varmahlíð, Blönduós, Borgarnes og endað í Reykjavík og ekki nýst Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Hofsósi og Sauðárkróki nema að íbúum sé keyrt á núverandi stoppistöðvar með tilheyrandi ómaki.

Sauðárkrókur, Hofsós, Siglufjörður, Ólafsfjörður og Dalvík munu öll njóta verulegs ábata með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Það er í mínum huga ekkert sjálfsagðara en að þessi bæjarfélög fái notið bættra vegasamgangna eins og önnur bæjarfélög í landinu og tel ég að aðför að þeim úrbótum sé beinlínis móðgandi við íbúa þessara byggðarlaga sem leggja til samfélagsins til jafns við aðra.

Höfundur er fjármálastjóri.