Sigurður Helgason, fráfarandi forstjóri: "Þetta hefur verið vinna og vakt allan sólarhringinn."
Sigurður Helgason, fráfarandi forstjóri: "Þetta hefur verið vinna og vakt allan sólarhringinn." — Morgunblaðið/Þorkell
Sigurður Helgason er staðinn upp úr forstjórastóli Flugleiða, eftir tuttugu ár þar og ellefu árum betur í þjónustu félagsins.

Sigurður Helgason er staðinn upp úr forstjórastóli Flugleiða, eftir tuttugu ár þar og ellefu árum betur í þjónustu félagsins. Í samtali við Freystein Jóhannsson segir hann það sitt stærsta lán að reksturinn hefur gengið slysalaust í forstjóratíð sinni. Hann segir gott frí framundan hjá sér.

Hann byrjar á því að minna mig á það, að ég hafi einu sinni tekið viðtal við hann áður; sumarið '71, þegar hann var að ljúka viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Það var ekkert flugsnið á honum þá; framundan framhaldsnám í Bandaríkjunum, þar sem hann tók master í rekstrarhagfræði. Heimkominn hóf hann störf hjá Hagvangi, hjá Sigurði R. Helgasyni, sem reyndist ekki fyrsti nafninn sem hann hefur starfað með.

Þá var verið að sameina Flugfélag Íslands og Loftleiðir og Hörður Sigurgestsson, sem var ráðgjafi á fjármálasviði nýja félagsins, hringdi í Sigurð og sagði honum frá nýju starfi hjá félaginu á sviði fjársýslu. Eftir viðtal við Hörð fór Sigurður í viðtal við forstjórana þrjá; Alfreð Elíasson, Sigurð Helgason og Örn Johnson. Hann hóf síðan störf hjá Flugleiðum 1. júlí 1974.

Alltaf flugveikur á leið í sveitina

"Þetta voru erfiðir tímar. Sameiningin tók sinn toll. Það vorum bara við Hörður, sem komum nýir inn í stjórnendahópinn, hinir höfðu ýmist starfað hjá Flugfélaginu eða Loftleiðum. Loftleiðamennirnir töldu mig vera Flugfélagsmann og Flugfélagsmennirnir töldu mig Loftleiðamann! Þetta var svolítið þvingað andrúmsloft um tíma, en á endanum urðum við allir Flugleiðamenn!

Mín deild heyrði undir Sigurð Helgason og þar var ég þá farinn að vinna með öðrum nafna mínum."

Olli það einhverjum vandræðum?

"Nei, nei! En samt voru þeir margir, sem héldu, að ég væri sonur hans."

Samkvæmt þessu hefur þú ekki gengið með flugið í maganum?

"Nei, alls ekki! Ég tók engin valfög því tengd í háskólanum. Öll mín menntun var á viðskiptasviðinu. Og ég var enginn áhugamaður um flug."

Hér brosir Sigurður og bætir við: "Mín fyrstu kynni af fluginu voru þegar ég var í sveit í Suðursveitinni og flaug á milli með þristi; DC3. Ég var alltaf flugveikur!"

En ekki lengur?

"Nei. Flugveikin eltist af mér og var bara í minningunni, þegar ég hóf störf hjá Flugleiðum."

Þegar Sigurður hafði verið forstöðumaður fjárreiðudeildar í fimm ár urðu þær breytingar, að Hörður Sigurgestsson fór til starfa hjá Eimskipafélagi Íslands, Alfreð og Örn hættu sem forstjórar og Sigurður Helgason var einn forstjóri áfram.

"Þessi ár sem ég stýrði fjárreiðudeildinni voru fyrirtækinu erfið, svo erfið, að það var á barmi gjaldþrots. Ég held að félagið hafi flogið lægst á sínum ferli '78, '79. Margir, þar á meðal menn inni á Alþingi, vildu gera okkur að ríkisfyrirtæki."

Höfðu þau átök áhrif á félagið?

"Já. Menn höfðu miklar áhyggjur og hér innanhúss voru þeir til, sem vildu gefast upp fyrir þeim mönnum, sem unnu að því hörðum höndum að gera Flugleiðir að ríkisflugfélagi. Sem betur fer kom ekki til þess. Það liti efalaust eitt og annað öðruvísi út núna, ef af ríkisvæðingu félagsins hefði orðið. Þau félög, sem við vorum í samkeppni við, voru mörg hver ríkisflugfélög og það hefði ekki verið Flugleiðum hollt að bætast í þann hóp.

Flugleiðum fer bezt að vera einkafyrirtæki sem stendur og fellur með sjálfu sér."

Djarfar ákvarðanir um endurnýjun

Árið 1983 fór Sigurður til Bandaríkjanna og varð yfirmaður Flugleiða þar. Hann segist hafa reiknað með fimm til sex árum í því starfi, en staðreyndin varð tuttugu mánuðir. Þá lézt Örn Johnson og Sigurður Helgason eldri flutti sig úr forstjórastólnum í sæti stjórnarformanns og Sigurður Helgason kom heim frá Bandaríkjunum og gerðist forstjóri Flugleiða 1. júní 1985.

"Þegar ég kom til forstjórastarfsins var fjárhagsstaðan mjög þung og menn stóðu frammi fyrir tveimur kostum; vera áfram lítið félag með gamlar vélar og að mörgu leyti úrelt tæki, eða grípa til róttækra ráðstafana. Það var ákveðið að snúa vörn í sókn og endurskipuleggja fyrirtækið, endurnýja flugflotann og með tilkomu Leifsstöðvar gátum við hannað nýtt leiðakerfi með Keflavík sem skiptistöð í tengifluginu yfir Atlanzhafið. Það skipti mjög miklu máli, ef ekki sköpum, fyrir félagið.

Þarna voru teknar djarfar ákvarðanir. Við endurnýjuðum Atlanzhafsflotann, Evrópuflotann og innanlandsflugið, byggðum flugskýli og endurnýjuðum hótelið.

Félagið var svo í stöðugum vexti frá 1990. Með nýja leiðakerfinu óx ferðamannastraumurinn til landsins, eiginlega í takt við fjölgun flugvéla og ferða. Frá 1995 voru Flugleiðir ekki bara flugfélag, heldur alhliða ferðaþjónustufyrirtæki og Sigurður segir, að þeir hafi alltaf tekið það hlutverk alvarlega að efla og styrkja ferðaþjónustuna úti á landsbyggðinni. En 11. september 2001 dundu ósköpin yfir. Þá hrundi farþegafjöldinn á nokkrum klukkustundum eftir atburðina í New York.

"Það kom sér vel, að við vorum sveigjanlegt fyrirtæki og við vorum komnir í endurskipulagningu einni til tveimur vikum eftir 11. september.

Við minnkuðum framboðið yfir hafið um 30%, en fækkuðum ekki ferðum inn og út úr Íslandi, sem við héldum ótrauðir áfram að auglýsa sem ferðamannaland. Við snerum okkur í auknum mæli að fraktflutningum og leiguflugi og svo fór, að 2002 varð mjög gott ár hjá okkur. Þar kom okkur til góða uppbygging félagsins; við vorum með eina þotutegund og höfðum aðskilið starfsaldurslista Flugfélags Íslands og Icelandair.

En endurskipulagningaraðgerðirnar voru okkur erfiðar. Við sögðum upp á þriðja hundrað manns, en sem betur fór náðum við á tveimur til þremur árum að ráða til baka langstærstan hluta fagfólksins og stóran hluta hinna.

Enn þann dag í dag er flugið í Bandaríkjunum ekki búið að ná sér eftir 11. september, stór flugfélög í Evrópu fóru á hausinn, eins og Swissair og Sabena, og félag eins og SAS hefur átt við stöðugt tap að glíma síðan."

En Flugleiðir hafa flogið áfram á grænni grein. Uppbygging félagsins heldur áfram og á þessu ári er það með 45-50% meira framboð á öllu sínu leiðakerfi en var 2003. Á dögunum var opnuð bein áætlunarflugleið til San Francisco og er það í fyrsta skipti, sem íslenzkt flugfélag flýgur til vesturstrandar Bandaríkjanna.

Sigurður segir, að Icelandair bjóði nú upp á svipaðan ferðafjölda frá Íslandi til Bandaríkjanna og SAS býður út frá Kaupmannahöfn.

Góðan rekstur félagsins síðustu árin segir hann hafa skapað grunn að nýjum umsvifum félagsins með nýjum eigendum; kaupum á flugvélum til að leigja öðrum félögum og 10% hlut í Easy Jet. "Allt byggist þetta á reynslu og þekkingu innan fyrirtækisins. Þetta er ekki óskyld starfsemi, heldur enn frekari stækkun á grunni félagsins í flug- og ferðaþjónustu."

Flugfélagið, sem Sigurður kom til starfa hjá 1974 og rak 4,5 flugvélar, er orðið fjárfestingarfélag, sem rekur þrettán dótturfélög, sem starfa í flugrekstri, flugflutningum og ferðaþjónustu.

Vinna og vakt allan sólarhringinn

Er eitthvert eitt atriði sem þú vilt nefna öðrum fremur frá þínum forstjóraferli?

"Minn forstjóratími er orðinn tuttugu ár. Númer eitt, tvö og þrjú hjá þeim, sem í flugrekstri standa, eru öryggismálin. Við höfum flutt tugi milljóna farþega í minni forstjóratíð og það án allra óhappa.

Ég hef aldrei fengið símhringinguna um miðja nótt, þessa sem er boðberi slysalegra tíðinda. Mér þykir afskaplega vænt um að starfsemi fyrirtækisins hefur verið áfallalaus meðan ég gegndi forstjórastarfinu.

En af því þú spurðir um eitt atriði, þá langar mig líka til þess að nefna flugvélakaupin í kringum 1990 og leiðakerfi félagsins!"

Þessi ákvörðun þín að hætta...

"Ég tók þessa ákvörðun í janúar. Mér fannst þetta bara góð tímamót. Hér eru komnir nýir eigendur með nýjar áherzlur; það má segja, að þeir sem eiga peningana séu komnir að borðinu og hér innanhúss er ungt og efnilegt starfsfólk, sem mun reynast félaginu vel í framtíðinni.

Ég færi ekki, ef hlutirnir væru ekki í lagi. En félagið hefur aldrei staðið betur. Fjárhagsstaðan er sterk og mikil verkefni framundan."

En hvað er framundan hjá þér?

"Ég tek mér gott frí í sumar og sé svo til."

Ekkert fast í hendi?

"Nei. Ég veit að ég mun fylgjast áfram með fluginu, þótt það verði með öðrum hætti. Ég hugsa að ég muni líka athuga hvernig ég passa í golf, sem er nokkuð sem ég hef ekki haft tíma til. Ég óttast ekki framtíðina, þótt ég mæti ekki hér á hverjum degi."

Það er augljóst, að Sigurður ætlar sér að eiga líf eftir Flugleiðir! Reyndar mun hann verða stjórn félagsins til ráðgjafar eftir að hann hættir sem forstjóri, einkum varðandi flugrekstur. En hann er ekki einu sinni hættur þar, þegar hann var orðaður við nýtt starf forstjóra lággjaldaflugfélagsins Sterling. Hann segir að málið hafi verið rætt við sig, en hann hafnað. "Ég er að hætta sem forstjóri Flugleiða og ég er ekki að fara að verða forstjóri annars flugfélags," sagði hann af þessu tilefni við Morgunblaðið á dögunum.

"Ég veit ekki um neinn annan sem hefur gegnt forstjórastöðu flugfélags eins lengi. Í minni forstjóratíð hef ég kynnzt fjórum og fimm forstjórum hjá mörgum flugfélögum, að ekki sé nú minnzt á Grikkina, sem skipta um flugfélagsforstjóra á níu mánaða fresti!"

Sigurður Helgason hefur að vonum þurft að vera mikið á ferðinni. Hann byrjaði forstjóraferilinn 1. júní 1985 á ferð til Bergen að opna nýja flugleið og á dögunum var hann í San Francisco sömu erinda. En starfi sínu hjá Flugleiðum lýkur hann í Japan, þar sem hann situr IATA-fund til 31. maí.

"Flugið hefur verið mínar ær og kýr. Þetta hefur verið vinna og vakt allan sólarhringinn."

Aldrei hugsað þér til hreyfings úr fluginu?

"Nei, ég hef einbeitt mér að þessu starfi og hef alltaf haft gaman af að vera í vinnunni. Það hefur aldrei hvarflað að mér að breyta um starfsvettvang. Ég fékk eitt eða tvö atvinnutilboð að utan, en minn hugur stóð alltaf til þess að vinna að íslenzkum flugmálum."

freysteinn@mbl.is