Umræðan um hvalveiðar er lifandi þessa dagana, í aðdraganda ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem haldinn verður í Ulsan í Suður-Kóreu dagana 20.-24. júní.

Umræðan um hvalveiðar er lifandi þessa dagana, í aðdraganda ársfundar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem haldinn verður í Ulsan í Suður-Kóreu dagana 20.-24. júní. Helstu andstæðingar hvalveiða láta mjög að sér kveða í erlendum fjölmiðlum, enda óttast þeir að á fundinum verði heimilað að hefja hvalveiðar í atvinnuskyni á ný. Þannig hafa Ástralar fordæmt harkalega vísindaveiðar Japana að undanförnu og beinlínis sagt þær "sjúkar" og "fáránlegar" eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu. Umhverfisráðherra Ástralíu hélt því m.a. fram að það væri út í hött að drepa svo stórkostlegar og skarpgreindar skepnur, sem oft vega fleiri tonn, í þeim tilgangi að ná í örlítið lífsýni til aldursgreiningar. Nú kann að vera að ástralski umhverfisráðherrann hafi rætt heimspeki eða reiknað afleiður með þarlendum hvölum en hér á landi er almennt talið að hvalir séu álíka greindir og kýr.

Eru uppi kröfur um það í Ástralíu að þarlend stjórnvöld fari með málið fyrir alþjóðlega dómstóla en það munu þau vitaskuld ekki gera, enda veiðar Japana fullkomlega löglegar. Ástralar eiga allan rétt á því að vera andvígir hvalkjötsneyslu, rétt eins og hindúar eru andvígir nautakjötsáti og gyðingar og múslimar eru andvígir svínakjötsáti. Ástralar ættu samt sem áður að stilla mótmælum sínum í hóf, sérstaklega þar sem hvalkjötsneysla Japana er hluti af menningararfleifð þeirra, rétt eins og Áströlum finnst gott að fá sér kengúrusteik endrum og sinnum.

Íslendingar hafa undanfarin ár veitt nokkrar hrefnur í vísindaskyni og fengu sína sneið af mótmælum á dögunum þegar sendiherrar Þýskalands, Frakklands og Bretlands sendu frá sér tilkynningu þar sem þeir skoruðu á íslensk stjórnvöld að hverfa frá öllum áætlunum um hvalveiðar "sem eru af vafasömum vísindalegum toga," líkt og sagði í tilkynningunni. Sjávarútvegsráðherra Íslands brást nokkuð harkalega við þessari tilkynningu og er gremja hans skiljanleg því í henni eru sendiherrarnir að draga í efa heilindi og fagmennsku heillar stofnunar, Hafrannsóknastofnunarinnar. Nógu mikið mæðir nú á blessuðum fiskifræðingunum okkar, sem mega sitja undir óvæginni og oft ósanngjarnri gagnrýni fyrir það eitt að vinna vinnuna sína, vinnu sem þeir hafa varið miklum tíma og fé í að mennta sig til og hafa eflaust talið að með því væru þeir um leið að vinna landi og þjóð eitthvert gagn. Nei, þó að mér finnist fiskifræðin áhugaverð þá er ég oft feginn að hafa ekki valið mér hana að lífsstarfi.

hema@mbl.is