Hver fær eplið? Alma Vestmann er hér með hópi nemenda úr tíunda bekk Myllubakkaskóla í Keflavík. Hún veitir einum eða tveimur nemendum verðlaun á vorin. Ætli einhver af þessum nemendum fái Kennaraeplið í ár?
Hver fær eplið? Alma Vestmann er hér með hópi nemenda úr tíunda bekk Myllubakkaskóla í Keflavík. Hún veitir einum eða tveimur nemendum verðlaun á vorin. Ætli einhver af þessum nemendum fái Kennaraeplið í ár? — Morgunblaðið/Svanhildur Eiríksdóttir
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur Keflavík | "Mér þykir vænt um að stjórnendur skólans taki eftir því sem gert er utan hins daglega starfs. Sjálf er ég orðin samofin þessum hugmyndum.
Eftir Svanhildi Eiríksdóttur

Keflavík | "Mér þykir vænt um að stjórnendur skólans taki eftir því sem gert er utan hins daglega starfs. Sjálf er ég orðin samofin þessum hugmyndum. Ég lít svo á að þetta sé ekki síður hvatning til skólans sem hefur það að markmiði að nemendum líði vel," sagði Alma Vestmann, námsráðgjafi og íslenskukennari í Myllubakkaskóla í Keflavík, en hún hlaut á dögunum hvatningarverðlaun Landssamtakanna Heimilis og skóla fyrir verkefnin "Sólblóm", "Kennaraepli" og "Merkispjöld". Blaðamanni Morgunblaðsins lék forvitni á að vita hvað hér væri á ferðinni.

Samstarfsfólk og nemendur Ölmu Vestmann segja hana afar hugmyndaríka og það sem meira er, hún kemur hugmyndunum í framkvæmd. Sjálf orðar hún þetta þannig að hún "hafi gaman af kortum og klipperíi" og að fyrirmyndir hafi hún m.a. sótt í föndurbækur Mette Voldmester. Skólayfirvöldum þótti kominn tími til að vekja athygli á ýmsum skemmtilegum hugmyndum sem Alma hefur komið í framkvæmd í Myllubakkaskóla á undanförnum árum og sendu því tilnefningu til Heimilis og skóla.

Verkefnið "Sólblóm" varð til fljótlega eftir að elstu nemendur grunnskólans hófu þar nám á haustmánuðum 1999 en verkefnin snúa öll að 10. bekkingum sem Alma kennir íslensku "Fyrsta veturinn sem við kenndum þessum krökkum vildum við hvetja þau. Þegar ég fór að velta fyrir mér hvað við gætum gert kviknaði hugmyndin að "Sólblóminu"," sagði Alma í samtali við blaðamann en Sólblómið er kort sem inniheldur hvatningarkveðjur handa hverjum og einum. Hún tekur skýrt fram að við kortagerðina fái hún aðstoð valinkunnra kvenna í skólanum enda klippivinnan mikil.

"Það síðasta sem við kennarar nemenda í 10. bekk gerum, áður en þau fara í páskafrí, er að kalla þau saman og afhenda þeim lítið páskaegg og sólblómakort. Hvatningarorðin í kortunum eru í formi spakmæla, ljóða eða heilræða og ekki stíluð á nemendur fyrr en eftir á þannig að enginn veit hvaða hvatningarorð er í viðkomandi korti. Þetta er klapp á bak þeirra í upphafi undirbúnings fyrir samræmdu prófin. Þótt þau viti orðið af þessu vita þau aldrei hvað stendur í kortinu sem þau fá og þannig helst spennan í kringum þennan atburð," sagði Alma.

Gæðaverðlaun til góðra nemenda

Upphafið að "Kennaraeplinu" má rekja til ársins 2001 þegar Alma varð fyrir því óláni að meiðast á fæti og gat með engu móti hoppað upp til að draga niður sýningartjaldið í kennslustofunni. "Einn nemandi minn var þá svo hugulsamur að smíða handa mér langan krók í smíðatíma svo ég gæti krækt í tjaldið. Mér fannst að slíka nemendur þyrfti að hvetja til áframhaldandi dáða með einhverjum hætti. Ég bar hugmyndina undir Vilhjálm Ketilsson, þáverandi skólastjóra, og hann var sammála henni. Þegar ég kom heim og varð litið á ávaxtakörfuna kom epli strax upp í hugann, enda tákn kennara, og mér fannst kjörið að það yrði viðurkenning fyrir frumkvæði og aðra góða mannlega eiginleika. Við hverja útskrift fá einn til tveir nemendur 10. bekkjar gljáfægt epli með slaufu." Alma bætir við að oft reynist erfitt að velja aðeins einn eða tvo því þetta séu svo frábærir krakkar allir saman og einn samstarfsmanna hennar hefur lagt til að eplið verði skorið í sneiðar.

Að sögn Ölmu ríkir ekki síður mikil spenna þegar kemur að "Kennaraeplinu" eins og "Sólblóminu" þar sem nemendur vita aldrei í hvers hlut eplið kemur. "Þeir telja sig vita hver fær viðurkenningu fyrir besta námsárangurinn en þetta vita þeir ekki."

Síðasta verkefnið, "Merkispjöld", tengist árlegri vorferð 10. bekkinga. "Í fyrravor sigldum við með krakkana til Færeyja en haustið áður fórum við að huga að fjáröflun. Okkur fannst ómögulegt að við færum inn á fjáraflanir annarra og því varð að koma með nýja hugmynd. Mér datt í hug að við gerðum merkispjöld á jólapakka og seldum. Í því skyni settumst ég og dóttir mín, Lóa Mjöll Ægisdóttir, niður eina dagstund og útbjuggum nokkrar tillögur. Ég bar þær upp í skólanum og tíu hugmyndir voru valdar úr. Fyrir síðustu jól bættum við svo ilmandi merkispjöldum í safnið en einn nemandi minn, Harpa Guðjónsdóttir, útvegaði mót af sætabrauðsdreng og jólatré sem við notuðum til að skera út fígúrur sem ilmuðu af jólum."

Þótt grunnurinn sé frá Ölmu kominn sjá nemendurnir sjálfir um gerð merkispjaldanna. Þeir koma saman nokkrum sinnum á haustönn og Alma segir þessar samverustundir mjög mikilvægar fyrir þá, þær þjappi þeim saman og efli þann góða anda sem fyrir er. "Þau vita sjálf, þegar að þessu kemur, hver getur hvað og skipta með sér verkum við að brjóta, klippa, líma, skrifa og skreyta og þessum verkaskiptum fylgja engin leiðindi," sagði Alma og bætti við að starfsfólk skólans væri mjög ánægt með þennan árgang, ekki bara núna heldur alltaf. "Það er mjög góður andi í hópnum og þetta eru svo góðir krakkar," sagði Alma að lokum og blaðamaður þorir að fullyrða að Alma eigi ekki síst heiðurinn af þessum góða anda með skemmtilegum hvatningarverðlaunum þeim til handa.