Andabær Elstu börnin í leikskólanum Andabæ tóku við Grænfánanum úr hendi Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra.
Andabær Elstu börnin í leikskólanum Andabæ tóku við Grænfánanum úr hendi Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra. — Morgunblaðið/Davíð Pétursson
Hvanneyri | Útlit er fyrir það að allir skólarnir á Hvanneyri geti dregið Grænfánann að húni á næstunni. Andakílsskóli og leikskólinn Andabær hafa þegar fengið umhverfisviðurkenninguna. Landbúnaðarháskóli Íslands stefnir að því að feta í fótspor þeirra.

Hvanneyri | Útlit er fyrir það að allir skólarnir á Hvanneyri geti dregið Grænfánann að húni á næstunni. Andakílsskóli og leikskólinn Andabær hafa þegar fengið umhverfisviðurkenninguna. Landbúnaðarháskóli Íslands stefnir að því að feta í fótspor þeirra.

Fjöldi gesta var viðstaddur athöfn sem efnt var til í tilefni þess að Sigríður Anna Þórðardóttir kom í heimsókn í leikskólann Andabæ ásamt fulltrúum Landverndar í þeim tilgangi að afhenda Grænfánann. Tóku elstu nemendur skólans við viðurkenningunni.

Fram kom við þetta tækifæri að Andabær er sjötti leikskólinn hér á landi sem fær Grænfánann. Nú eru 44 skólar í verkefninu Skólar á grænni grein og hafa fjórtán þegar fengið Grænfánann og ellefu til viðbótar óskað eftir að fá hann í vor.