Eftir Helga Mar Árnason hema@mbl.is HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðarfélaginu Síldey ehf. vegna þess hvernig staðið var að kvótasetningu á löngu og keilu. Málsatvik voru þau að Síldey ehf.
Eftir Helga Mar Árnason hema@mbl.is

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið skaðabótaskylt gagnvart útgerðarfélaginu Síldey ehf. vegna þess hvernig staðið var að kvótasetningu á löngu og keilu.

Málsatvik voru þau að Síldey ehf. hóf útgerð á bátnum Síldey í maí 2001 og landaði tvívegis á fiskveiðiárinu 2000/2001, þ.e. í júlí og ágúst. Aflinn var aðallega langa og keila, en sérstaklega var sótt í þær tegundir. Við kvótasetningu löngu og keilu sem fór fram 16. ágúst 2001 voru lok þriggja ára viðmiðunartímabils veiðireynslu miðuð við 31. maí 2001. Veiðireynsla Síldeyjar féll því að öllu leyti utan viðmiðunartímabilsins og fékk Síldey því enga aflamarkshlutdeild í löngu og keilu í sinn hlut.

Í dómnum kemur fram að ekki sé ástæða til að efast um að umræddar heildaraflatakmarkanir, sem voru settar í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunar, hafi helgast af fiskifræðilegri nauðsyn. Niðurstaða héraðsdóms Reykjavíkur byggist aftur á móti á því að kvótasetning á löngu og keilu hafi falið í sér að alfarið var litið fram hjá veiðireynslu Síldeyjar og þar með atvinnuhagsmunum félagsins af áframhaldandi veiðum. Aðferð sem reglugerðin byggðist á við ákvörðun aflahlutdeildar hafi þannig komið með óvenjulegum og verulega íþyngjandi hætti niður á Síldey samanborið við aðra sem stundað höfðu veiðar á sömu tegundum. Stefnandi hafi því verið sviptur umræddum fjárhagslegum hagsmunum bótalaust í andstöðu við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og eigi rétt til bóta af þeim sökum.

Jón Jónsson héraðsdómslögmaður hjá Regula-lögmannsstofu ehf. flutti málið fyrir hönd Síldeyjar. Hann segir málið sérstætt, því nánast sé einstætt að útgerðir hafi fengið viðurkennda bótaskyldu íslenska ríkisins vegna kvótaúthlutunar samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða. "Niðurstaða málsins er jafnframt nokkur persónulegur sigur fyrir fyrirsvarsmann Síldeyjar ehf. enda hafði kvótasetning á löngu og keilu mikil og þung áhrif í rekstri fyrirtækisins á fyrsta starfsári þess."

Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.