Guðjón Guðnason fæddist á Flankastöðum í Sandgerði 2. september 1930. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 10. maí síðastliðinn og var útför hans gerð frá Fossvogskirkju 19. maí.

Afi Gaui er farinn og bíður okkar á betri stað. Við minnumst hans með söknuði og gleði yfir þeim minningum sem hann skilur eftir sig, þær ylja okkur um ókomin ár.

Ég verð ævinlega þakklát fyrir tímana sem ég fékk að eyða með afa mínum. Þegar ég var yngri var ég svo heppin að búa í göngufæri við ömmu og afa í Skaftahlíðinni. Ég fékk stundum að fara til afa á daginn þegar hann var ekki að fljúga. Þá stóð hann úti á svölum og beið eftir mér. Hann sótti mig líka gjarnan í skólann og fór þá með mig heim og bjó til dýrindis"tertur" úr rúgbrauði, gúrkum og grænum eplum. Hollast alltaf best hjá afa.

Svo var ég svo heppin síðustu ár að vera aftur komin í göngufæri við afa og ömmu og höfum við, ég og Gunnlaugur Ernir sonur minn, notað tækifærið síðustu misseri og heimsótt þau. Þó afi hafi verið orðinn veikur áður en Gunni fæddist fengu þeir sitt tækifæri til að kynnast og verður það okkur ætíð ómetanlegt.

Við þökkum fyrir þann tíma sem við fengum að eiga með þér, elsku afi og langafi. Ég mun alltaf muna afann minn eins og hann átti að sér að vera, hressan að skoða fuglana í Afalandi á Kjalarnesi, eða tilhlökkunina þegar ég vissi að hann kæmi að sækja mig og beið svo eftir mér skælbrosandi á skólalóðinni eftir skóla.

Það er kaldhæðni örlaganna að hraustur og heilsumeðvitaður maður eins og hann afi minn skyldi enda ævi sína í baráttu við tvo illvíga sjúkdóma samtímis. En baráttunni er lokið og ég trúi að einhversstaðar líði afa mínum vel. Elsku afi minn, ég sakna þín en finn huggunina í fallegu minningunum sem við varðveitum í hjörtum okkar um alla framtíð.

Elsku amma mín. Baráttunni er lokið, missirinn er mikill en lífið heldur áfram og við lærum að njóta þess aftur og kunnum betur að meta hvort annað og stundirnar sem við eigum saman.

Nafna.

Kveðja frá Flugfreyjufélagi Íslands

Hann var vanur að fara í ferðalag og að því loknu kveðja áhöfn sína með orðunum sjáumst fljótt aftur. En nú er hann farinn í ferðalagið sem bíður okkar allra, ferðalagið sem við leggjum í ein og án fyrirvara og enginn veit hvenær brottfarartíminn er.

Það er komið að kveðjustund. Guðjón Guðnason, fyrrum starfsfélagi okkar, er látinn. Guðjón hóf störf hjá Loftleiðum árið 1966 og sem flugþjónn hjá sama fyrirtæki 3 árum síðar. Starfsævin í fluginu spannaði tæp 30 ár, ferðirnar urðu margar sem og farþegar hans og áfangastaðir.

Hár, grannur og tignarlegur tók hann á móti farþegum Flugleiða sem eigin gestum og bauð velkomna um borð. Við sem unnum með Guðjóni sáum strax að hér var atvinnumaður á ferð. Flugþjónn sem lagði metnað sinn í að sinna farþegum vel og að halda áhöfninni saman. Hver ferð var sérstök og allir skiptu máli. Hann var alla tíð okkur sem störfuðu með honum góður leiðbeinandi og góð fyrirmynd sem bar hag áhafnar sinnar fyrir brjósti. Hann var duglegur við að leiðbeina okkur og kenna rétt vinnubrögð þannig að farþegunum liði sem best án þess að yfirgera hlutina. Þegar stundir gáfust til að spjalla þá kom í ljós mikill áhugi hans á ættfræði og löngum stundum var rætt um hverra manna maður væri og hvaðan. Það var gott að koma til vinnu og hitta Guðjón og spjalla um landsins gagn og nauðsynjar. Hann sýndi því áhuga sem hver og einn var að gera og gladdist með öllum þeim áföngum sem náðust.

Þá þrjá áratugi sem Guðjón var í fluginu urðu miklar breytingar á vinnuumhverfi okkar. Nýir staðir, nýjar vélar og sífellt nýtt samstarfsfólk. Öllu tók hann með jafnaðargeði og þeirri yfirvegun sem einkenndi störf hans. Í fluginu eru samstarfsfélagarnir eitt það dýrmætasta hverju sinni og hvert flug verður sérstakt þeirra vegna.

Fyrir hönd samstarfsfélaga Guðjóns gegnum árin langar mig að þakka honum samfylgdina og óska honum góðrar ferðar. Innilegar samúðaróskir til Steinunnar, eiginkonu Guðjóns, og fjölskyldu. Megi guð blessa ykkur á þessari erfiðu stundu.

Ásdís Eva Hannesdóttir.