Seigur Happasæll KE er stærsti plastbáturinn í fiskiskipaflotanum.
Seigur Happasæll KE er stærsti plastbáturinn í fiskiskipaflotanum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netabáturinn Happasæll KE frá Keflavík var að venju aflasæll á nýliðinni vorvertíð. Nú er farið að hægjast um, aflinn minnkað og karlarnir farnir að huga að sumarfríinu. Helgi Mar Árnason ræddi við skipstjórann, Hallgrím Guðmundsson, um vertíðina, fiskgengdina og nýja bátinn.

Þeir eru fjórir á, karlarnir á Happasæli KE, að skipstjóranum meðtöldum. Með átta trossur í sjó. Happasæll er á netum allt árið og það er alltaf róið í Faxaflóann. Núna er nýliðin vorvertíðin og segir Hallgrímur Guðmundsson skipstjóri að mjög hafi dregið úr aflabrögðunum síðasta mánuðinn eða svo. Hann er samt ánægður með fiskiríið á vorvertíðinni. "Vorið var mjög gott, við fengum 110 tonn í mars og 85 tonn í apríl. Sennilega höfum við fengið um 350 tonn frá áramótum. Þetta lá allt saman vel við, aðeins um klukkustundar stím á miðin, tíðin góð og það virtist vera mikill fiskur á ferðinni. Þetta getur hins vegar orðið dálítið skrap þegar líður á vorið."

En það kviknaði líf í Flóanum núna þegar norðanáttina lægði á dögunum. Það bregst ekki að sögn Hallgríms. "Það fiskast ævinlega lítið í Faxaflóa í norðanátt en við höfum fengið ágætan afla í blíðunni undanfarna daga, mikið í kringum fimm tonn eftir daginn.

Við erum með netin í svokölluðum Rennum en höfum einnig lagt net fyrir ýsu í svonefndum Melakrika. Menn tala um að nú flæði ýsa yfir öll Íslandsmið en við höfum reyndar oft orðið varir við meiri ýsu á þessum slóðum. Aflinn hefur engu að síður verið þokkalegur, við fáum mjög væna ýsu og fáum fyrir hana ágætt verð eins og svo oft á þessum árstíma."

Það er farið að hægjast talsvert um á netunum núna í sumarbyrjun. Aflinn hefur minnkað og róðrarnir styst, karlarnir oft komnir út á golfvöll upp úr hádegi. Enda ætla þeir að fara að taka sér frí, taka netin upp núna fyrir sjómannadaginn og leggja þau ekki aftur fyrr en eftir verslunarmannahelgi. Hallgrímur segist þó vera að hugsa um að leggja kannski nokkur skötuselsnet í sumar, svona rétt til að hafa eitthvað að gera.

30 vertíðir að baki

Hallgrímur er eldri en tvævetur þegar kemur að netaveiðum í Faxaflóanum. Honum reiknast til að hann hafi nú í vor farið sína þrítugustu vertíð í Flóann. Hann segist ekki merkja minni fiskgengd á þessari vertíð en hinum 29. "Það virðist vera nóg af fiski. Hins vegar fannst mér fiskurinn nokkru horaðri en áður, hann virtist vanta æti. Þorskurinn hefur alltaf verið kjaftfullur af loðnu í mars en nú brá hinsvegar svo við að hann kom upp með galtóman maga. Menn síðan greinir á um hvort um er að kenna skilyrðum í hafinu eða hreinlega því að búið sé að veiða frá þorskinum alla loðnuna. Sjálfur er ég þeirrar skoðunnar að við veiðum of mikið af loðnu og sérstaklega á undanförnum árum eftir að menn fóru að nota flottroll við loðnuveiðarnar. Ég hef mikla ótrú á því í loðnuveiðum. Menn verða að stíga varlega niður í þessum efnum og velta betur fyrir sér samspili fiskstofnanna og áhrifum þeirra hvers á annan. Það er ekki nóg að vernda þorskinn en skilja ekkert eftir handa honum að éta. Fiskifræðingarnir hafa viljað friða þorskinn á hrygningartímabilinu en það segir sig nánast sjálft að fiskur sem fær ekkert að éta er ekki vel undir hrygningu búinn. Við höfum merkt þetta vel í vor, fiskurinn sem við fengum í mars og apríl, fyrir hrygningu, var grindhoraður en fiskurinn sem við fáum þessa dagana er spikfeitur enda kemst hann í síli hér inni í Flóanum."

Smærri riðill skilar engu

Og Hallgrímur er heldur ekki sáttur við að hafa þurft að smækka riðilinn í netum sínum í því skyni að vernda stórfiskinn. Hann segist ekki sjá að sú aðgerð skili nokkru. "Hér í Faxaflóanum hefur aldrei verið landburður af fiski yfir tíu kílóum á vertíðinni. Þessi stóri fiskur er ekki mikið á þessum slóðum en heldur sig meira fyrir Suðurlandinu. Auðvitað höfum við fengið þennan fisk en aldrei í verulega miklum mæli, jafnvel þó að við værum með stóran riðil. En núna, þegar við verðum að vera með smáan riðil í netunum, fáum við jafn mikið af þessum stóra fiski en meira af þriggja til fimm kílóa fiski sem við værum annars lausir við ef við værum með stærri riðil. Árangurinn er þannig enginn að mínu viti."

Stærsti plastbátur flotans

Happasæll KE er einn nafntogaðasti netabátur flotans og hefur sannarlega borið nafn með rentu í gegnum tíðina, lengst af undir stjórn aflaskipstjórans og útgerðarmannsins Guðmundar Rúnars Hallgrímssonar. Guðmundur Rúnar dró sig í hlé fyrir um áratug og fól syni sínum, Hallgrími, skipstjórnina.

En sá Happasæll sem Hallgrímur stýrir núna er einnig þekktur fyrir að vera stærsti plastbátur íslenska fiskiskipaflotans. Báturinn er rammíslenskur, af gerðinni Seigur 1500, smíðaður hjá bátasmiðjunni Seiglu og er um 30 tonn. Útgerðin Happi ehf. fékk bátinn afhentan í desember sl. og leysti af hólmi stálbát sem bar sama nafn. Sá var smíðaður fyrir Happa ehf. í Kína og var í eigu útgerðarinnar í fjögur ár. Hallgrímur segir að báturinn hafi verið nokkuð þungur í rekstri, margir í áhöfn og því hafi þurft að fiska mikið inn á hann til að bera útgerðina. Hallgrímur hefur orð á því að heldur hafi hann þynnst, vertíðarflotinn sem jafnan var á netum í Faxaflóanum á vorin. "Það eru ekki margir öflugir netabátar eftir og hér í Flóanum eru þeir teljandi á fingrum annarar handar."

"Algjör snilld"

"Hann er algjör snilld," segir Hallgrímur þegar hann er spurður um reynsluna af nýja bátnum. "Þetta er öndvegis sjóskip. Hann hefur sko fengið að reyna sig í vetrarveðrum og staðið sig vel þótt hann sé smærri og léttari en eldri báturinn. Við höfum að minnsta kosti ekki þurft að sleppa róðri vegna veðurs frá áramótum."

Og viðbrigðin eru talsvert mikil, því fyrir utan að fara út stáli í plast kemst Hallgrímur nú talsvert hraðar yfir en hann hefur átt að venjast til þessa. Undir "húddinu" í Happasæl KE eru tvær 600 hestafla aðalvélar sem ættu að geta ýtt plastinu hressilega á undan sér. Eða hvað? "Maður fer nú sparlega með þennan kraft, það fer náttúrulega eftir veðrum og vindum hvað hægt er að keyra. Það væri heldur ekkert vit að keyra þær alltaf á fullu afli, þá gerði maður ekki annað en taka olíu. En það er ágætt að vita af þessum hestöflum þarna niðri og geta bætt í annað slagið, þegar þess þarf með," segir Hallgrímur.