Yuri Bashmet kemur fram í Háskólabíói ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands annað kvöld.
Yuri Bashmet kemur fram í Háskólabíói ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands annað kvöld. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is RÚSSINN Yuri Bashmet, sem sumir segja þekktasta víóluleikara allra tíma, er mættur til leiks með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kemur fram á tónleikum hljómsveitarinnar á morgun.
Eftir Ingu Maríu Leifsdóttur ingamaria@mbl.is

RÚSSINN Yuri Bashmet, sem sumir segja þekktasta víóluleikara allra tíma, er mættur til leiks með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kemur fram á tónleikum hljómsveitarinnar á morgun. Víst þykir að minnsta kosti að koma Bashmets sé hápunkturinn á alþjóðlegri víóluráðstefnu sem þá hefur göngu sína í Reykjavík og einnig stórviðburður í íslensku tónlistarlífi, enda hefur hann leikið með og stjórnað öllum helstu hljómsveitum heims og er reglulegur samstarfsmaður þekktustu tónlistarmanna nútímans.

Bahsmet ætlar að leika einleik með Sinfóníuhljómsveitinni ásamt því að stjórna henni og eru fjögur verk á efnisskránni; Tvær andlitsmyndir - fyrir víólu og strengi eftir Benjamin Britten, sinfónía fyrir víólu og strengi eftir Dimítríj Shostakovits, víólukonsert nr. 1 í D-dúr eftir Franz Hofmeister og sinfónía nr. 3 eftir Franz Schubert.

Einleikari/stjórnandi

Hann segist í samtali við blaðamann oft fara þá leið að stjórna hljómsveitinni og spila einleik um leið, en auk þess að koma reglulega fram með sinfóníuhljómsveitum víða um heim er Bashmet aðalstjórnandi tveggja hljómsveita í Rússlandi; kammersveitarinnar Moskvu-einleikararnir og Nýju rússnesku sinfóníuhljómsveitarinnar. "Já, ég vinn oft á þennan hátt, enda er ég einleikari og stjórnandi til helminga. Hvort hægt er að gera bæði um leið veltur á því hversu mikill tími er til æfinga. Á tónleikunum hér á Íslandi gengur það upp vegna þess að hljómsveitarmeðlimir hafa undirbúið sig fyrir komu mína. Við vorum að enda við að spila í gegnum eitt erfiðasta verkið á efnisskránni - Shostakovits - og ég fann að allir voru undirbúnir og mjög fagmannlegir," segir hann.

Bashmet segist mjög ánægður með að vera kominn hingað til lands. Hreint loft, fátt fólk á ferðinni, magnað landslag, mjög góð hljómsveit eru orðin sem hann velur aðspurður hvernig dvöl hans hafi verið hingað til, þó stutt sé. "Það er mjög undarlegt að ég hafi aldrei komið hingað. Ég vildi auðvitað gjarnan taka þátt í alþjóðlegu víóluráðstefnunni, en mér fannst landið líka spennandi," segir hann en bætir við að hann þekki lítið sem ekkert til lands, þjóðar eða tónlistarlífs á Íslandi.

Fór beint í blóðið

Það lá ekki alltaf fyrir að Yuri Bashmet tæki hljómsveitarstjórn að sér, til viðbótar við hljóðfæraleikinn. Hann nam víóluleik við Tónlistarháskólann í Moskvu frá árinu 1971 og var gerður að prófessor þar fimm árum síðar - sá yngsti sem hlotið hefur þá nafnbót. Það lá því fyrir að víóluleikurinn ætti eftir að verða hans meginstarfi, en hljómsveitarstjórnina rak óvænt á fjörur hans. "Ég vildi aldrei verða hljómsveitarstjóri - hafði raunar óbeit á því starfi þó að ég hefði unnið með heimsins bestu stjórnendum. En það æxlaðist á hefðbundinn hátt fyrir rúmum tuttugu árum; eitt sinn forfallaðist hljómsveitarstjórinn og ég var beðinn að taka það að mér. Þegar ég lét á það reyna var það eins og eiturlyf - það fór beint í blóðið á mér og ég hef stjórnað meðfram víóluleiknum síðan," segir Bashmet og brosir.

Hann segist eftirvæntingarfullur að bjóða íslenskum áheyrendum upp á hina sérstæðu efnisskrá, víóluverk eftir Britten, Shostakovits og Hofmeister og sinfóníu eftir Schubert. "Þar er að sjálfsögðu rík áhersla lögð á víóluna. En á sama tíma er þar að finna marga ólíka stíla. Hofmeister var vinur Mozarts, sem er ástæða ein og sér til að spila hann, en líka vegna þess að tónlist hans er mjög góð. Hana þarf hins vegar að spila samkvæmt forsendum þess tíma tónlistar, og Schubert raunar líka," útskýrir hann.

Hin verkin tvö á efnisskránni eru nýrri af nálinni, eftir Britten og Shostakovits, en Bashmet hefur einbeitt sér sérstaklega að því að leika ný verk. Ótal verk hafa verið samin fyrir hann sérstaklega, til dæmis af ekki ómerkari tónskáldum en löndum hans Alfred Schnittke og Sofiu Gubaidulinu. "Ég held að hljómsveitin hafi leikið hvorugt verkanna áður, og sjálfur frumflutti ég þau fyrir einungis nokkrum árum. Ég tel því að þetta sé áhugaverð efnisskrá fyrir áheyrendur, og vonandi nokkuð fersk," segir hann að lokum.

Tónleikar Yuri Bashmet og Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói á morgun hefjast klukkan 19.30.