Umdeildar veiðar Tillögur um að taka upp takmarkaðar hvalveiðar í stað alþjóðlegs banns verða ræddar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins.
Umdeildar veiðar Tillögur um að taka upp takmarkaðar hvalveiðar í stað alþjóðlegs banns verða ræddar á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins. — Morgunblaðið/Kristján
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is UMRÆÐA um endurskoðun á stjórnun hvalveiða verður að öllum líkindum aðaldeiluefni árlegs fundar Alþjóðahvalveiðiráðsins í Ulsan í S-Kóreu sem verður haldinn í júní.
Eftir Árna Helgason arnihelgason@mbl.is

UMRÆÐA um endurskoðun á stjórnun hvalveiða verður að öllum líkindum aðaldeiluefni árlegs fundar Alþjóðahvalveiðiráðsins í Ulsan í S-Kóreu sem verður haldinn í júní. Eitt stærsta deilumálið á fundinum er hvort taka eigi upp hið svokallaða RMS-kerfi sem byggist á því að leyfa takmarkaðar hvalveiðar þannig að hver þjóð eigi rétt á ákveðnum kvóta, sem miðaðist við fimm ár í senn. Myndu slíkar reglur koma í stað alþjóðlegs banns við hvalveiðum sem er nú í gildi.

Stefán Ásmundsson, skrifstofustjóri í í sjávarútvegsráðuneytinu, er meðal þeirra sem sækja fundinn fyrir Íslands hönd. Hann segist ekki vera bjartsýnn á að mikill árangur náist á þessum fundi, sérstaklega ekki miðað við hvernig umræðan hefur þróast að undanförnu. Það var Henrik Fischer, formaður ráðsins, sem lagði fram tillögur um RMS-kerfið á fundi ráðsins í Sorrento á Ítalíu í fyrra og segir Stefán að íslenska sendinefndin hefði getað hugsað sér að samþykkja tillögurnar eins og þær lágu fyrir þá. Umræðan að undanförnu hafi hins vegar snúist um að endurskoða tillögurnar og breyta þeim frá grunni. Stefán vonast þó eftir því að hægt verði að semja um áframhaldandi umræður um tillögur Fischers og nánari útfærslu þeirra.

Til þess að breyta reglum um hvalveiðar verða 75% aðildarþjóðanna að samþykkja breytinguna. Stefán segir að til þess að fá þær samþykktar þurfi að ná til þjóða á borð við Svíþjóð og Írland sem eru hófsamari en margar aðrar í andstöðu sinni við hvalveiðar. Kosturinn við takmarkaðar veiðar, að sögn Stefáns, er að með því má ná stjórn á hvalveiðum og bendir hann á að þrátt fyrir að alþjóðlegt hvalveiðibann sé í gildi séu ekki allar þjóðir bundnar af því. Norðmenn ráði t.d. sjálfir hve marga hvali þeir veiði á ári þar sem þeir samþykktu ekki bannið á sínum tíma og eru þar af leiðandi óbundnir af því.

Gagnrýni á tillögur Fischers

Á fréttavef BBC var fjallað um fundinn í fyrradag. Þar kemur meðal annars fram sú gagnrýni á tillögur Fischers, að með þeim verði ekki hægt að ná stjórn á veiðunum, þar sem hvalveiðiþjóðir geti áfram stundað hvalveiðar í vísindaskyni. Haft er eftir Sue Fisher, hjá The Whale and Dolphin Conservation Society , að tillögurnar feli í sér að þjóðir heims séu að falla frá þeirri ábyrgð sem á þeim hvílir að vernda hvali.

BBC greinir einnig frá því að Grænfriðungar hafi safnast saman þar sem áætlað er að hvalkjötsverksmiðja rísi í Ulsan til að mótmæla byggingu verksmiðjunnar. Hvalveiðar eru bannaðar í S-Kóreu en flækist hvalur í fiskinet má nýta kjöt af honum, sé sýnt fram á að veiðarnar hafi verið af slysni.

Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins hefst hinn 13. júní nk. og stendur til 24. júní en fundur vísindanefndar ráðsins er þegar hafinn.