Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið 7. febrúar síðastliðinn að ákveðið hefði verið að halda reglulega blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu.

Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, sagði í samtali við Morgunblaðið 7. febrúar síðastliðinn að ákveðið hefði verið að halda reglulega blaðamannafundi í forsætisráðuneytinu.

Hugmyndin væri að halda annars vegar almenna upplýsingafundi með forsætisráðherra og hins vegar eins konar upplýsingafundi, þar sem farið yrði nánar ofan í þau málefni sem hæst bæri hverju sinni.

Fundir sem þessir eru víða haldnir í nágrannalöndum okkar, t.d. í Bretlandi, Bandaríkjunum og í hinum norrænu ríkjunum og stuðla alls staðar að góðum samskiptum fjölmiðla og stjórnvalda. Fjölmiðlafólk á vissu fyrir því að geta fengið svör við öllum sínum spurningum með reglulegu millibili og rætt við ráðamenn þau mál, sem eru efst á baugi.

Þetta er liður í bættum samskiptum okkar við fjölmiðla," sagði Björn Ingi líka í blaðinu 7. febrúar. "Þetta er eitt af því sem við vorum búnir að ákveða áður en við fórum í forsætisráðuneytið en hefur ekki gefist tími til að hrinda í framkvæmd."

Björn Ingi sagði 7. febrúar að á næstu dögum og vikum yrði óskað eftir samvinnu um málið við fjölmiðla og Blaðamannafélagið. Í Morgunblaðinu í gær segir hann hins vegar að ástæðan fyrir því að ekkert hafi gerzt í málinu sé annars vegar að ekki hafi borizt svör frá Félagi fréttamanna við umleitan ráðuneytisins.

Hins vegar hafi ýmsir fréttamenn haft áhyggjur af því að erfiðara yrði að ná í forsætisráðherra og samskipti við fjölmiðla myndu færast alfarið yfir á blaðamannafundina.

Björn Ingi segir þessar áhyggjur á misskilningi byggðar; fundirnir séu til að auka upplýsingaflæðið, ekki minnka það. Ef svo er - er þá nokkuð að vanbúnaði að hefja þessa blaðamannafundi?

Nú hlýtur forsætisráðuneytið að hafa haft nógan tíma til að undirbúa málið.

Er ekki ráð að hætta bara þessum vandræðagangi, halda fyrsta reglulega blaðamannafundinn og athuga hvort pressan lætur ekki sjá sig?