Skeljakjóll eftir Annikku Heinadóttur frá Færeyjum.
Skeljakjóll eftir Annikku Heinadóttur frá Færeyjum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is Á sýningunni Transform sem nú stendur yfir í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn gefur að líta íslenska, færeyska og grænlenska hönnun og handverk byggt á gömlum hefðum.
Eftir Steingerði Ólafsdóttur steingerdur@mbl.is

Á sýningunni Transform sem nú stendur yfir í menningarhúsinu Norðurbryggju í Kaupmannahöfn gefur að líta íslenska, færeyska og grænlenska hönnun og handverk byggt á gömlum hefðum. Íslenskir gull- og silfursmiðir sýna skartgripi þar sem gamla víravirkið er rauður þráður, færeyskir fatahönnuðir sýna fatnað og fylgihluti en útskurður er þemað hjá Grænlendingunum.

Sýningin þróaðist út frá vestnorrænu handverkssýningunni sem haldin hefur verið undanfarin ár í Laugardalshöllinni að frumkvæði Reynis Adólfssonar, sem einnig stendur á bak við þessa sýningu. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson og Björn G. Björnsson hannaði uppsetningu. Transform var opnuð 20. maí og stendur til 24. júlí nk. og að sögn Helgu Hjörvar, forstöðumanns Norðurbryggju, hefur sýningunni verið vel tekið af gestum og jafnvel kemur til greina að hún verði sett upp víðar.

Heiti sýningarinnar, Transform eða Umbreyting, hefur einnig undirtitilinn Nýtt handverk með rætur í fortíðinni og er þar vísað til þess að handverkið er nýtt en er byggt á gömlum hefðum í hverju landi. Í sýningarskrá fjallar Aðalsteinn Ingólfsson um íslensku víravirkishefðina sem á rætur að rekja til 15. aldar en mun þó hafa borist til Íslands á miðöldum. Fimmtán íslenskir gull- og silfursmiðir eiga verk á sýningunni, þ. á m. Dýrfinna Torfadóttir, Ása Gunnlaugsdóttir og Guðbjörg Kr. Ingvarsdóttir, Helga Ósk Einarsdóttir, Lára Magnúsdóttir, Sif Ægisdóttir, Þorbergur Halldórsson og Kjartan Örn Kjartansson. Víravirkið gengur í gegnum öll verkin sem þó eru afar ólík.

Auk gullsmiðanna sýnir Eggert feldskeri kjól úr selskinni og roði sem hannaður var í samvinnu við Helgu Björnsson fatahönnuð. Kjólar koma einnig frá Grænlandi og Færeyjum og binda þannig sýninguna saman. Else Møller er grænlenskur fatahönnuður sem sýnir kjól sem m.a. er úr selskinni og vísar til hefðbundins grænlensks anóraks. Í færeyska hluta sýningarinnar eru margir kjólar enda er fatahönnun framlag Færeyja til sýningarinnar.

"Ull er gull Færeyja," segir Bárður Jákupsson um færeyska framlagið í sýningarskránni. Um margar aldir hefur þetta verið viðkvæðið í Færeyjum þar sem sauðfé gengur úti allt árið og gefur af sér góða ull. Mikil gróska er í færeyskri fatahönnun um þessar mundir og hefur hönnuðurinn Guðrun Ludvig m.a. skapað sér nafn en hún sýnir grófprjónaða ullarkjóla á Transform. Kjóll eftir Anniku Heinadóttur þar sem neðsti hlutinn er þakinn skeljum vekur líka athygli.

Thue Christiansen er þekktur handverksmaður á Grænlandi og hannaði hann m.a. grænlenska fánann. Hann hefur komið að vestnorrænu handverkssýningunum og borið hróður grænlenskrar hönnunar víða. Christiansen á verk á Transform, höggmynd af ísbirni á ferð. Grænlensku verkin vísa til hefðbundins grænlensks handverks, vopna og annars búnaðar. Útskorin bein og höggmyndir skipa stóran sess og í sýningarskrá benda Thue Christiansen og Jessie Kleemann á að það sem áður var nauðsynlegur útbúnaður líkt og vopn er nú notað sem uppspretta í listræna sköpun.

Sýningin er sett upp í rúmgóðum sal og fær hvert land rými fyrir munina auk þess sem myndbönd ganga í hverju rými en þar eru sýndar myndir frá löndunum og gefin innsýn í hvernig munirnir eru unnir.

Leiðrétting 2. júní:

Ranglega merktar

ÞAU leiðu mistök urðu í blaðinu í gær í umfjöllun um hönnunar- og handverkssýninguna Transform í Kaupmannahöfn að ljósmyndir Kristjáns Péturs Guðnasonar ljósmyndara af íslensku skarti voru ranglega eignaðar öðrum manni. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum sem hér með leiðréttast.