Eftir Helga Mar Árnason hema@mbl.is AFNÁM dagakerfisins og línuívilnun kostaði Vestmannaeyinga nærri 800 tonna kvóta, að verðmæti hátt í einn milljarð króna. Þetta kemur fram í lokaverkefni Sindra Viðarssonar við sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri.
Eftir Helga Mar Árnason hema@mbl.is

AFNÁM dagakerfisins og línuívilnun kostaði Vestmannaeyinga nærri 800 tonna kvóta, að verðmæti hátt í einn milljarð króna. Þetta kemur fram í lokaverkefni Sindra Viðarssonar við sjávarútvegsbraut Háskólans á Akureyri. Niðurstöðurnar verða ræddar á málþingi um stjórnvaldsaðgerðir í fiskveiðistjórnun og áhrif þeirra á rekstur og afkomu sjávarútvegsfyrirtækja, sem haldið verður í Vestmannaeyjum í dag.

Í lokaverkefni sínu fjallaði Sindri um tilfærslur aflaheimilda til og frá Vestmannaeyjum vegna þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um stjórn fiskveiða við upphaf núverandi fiskveiðiárs en þá voru sóknardagabátar færðir inn í krókaaflamarkskerfið og línuívilnun komið á. Er það niðurstaða Sindra að talsverður flutningur á aflaheimildum hafi orðið samfara því að dagabátar voru færðir undir krókaaflamark, hlutdeild aflamarksskipa hafi minnkað um rúm 4% en hlutdeild krókaaflamarksbáta aukist um 4%. Samtals hafi þetta gert tæp 7.033 þorskígildistonn fyrir öll aflamarksskip á þessu fiskveiðiári, miðað við slægðan fisk. Frá Vestmannaeyjum hafi verið flutt samtals 736 tonn af þeim tegundum sem krókaaflamarkið nær yfir og sé verðmæti skerðingarinnar rúmar 803 milljónir króna, miðað við verð á varanlegum aflaheimildum. Á móti komi að við upphaf núverandi fiskveiðiárs hafi fimm dagabátar verið færðir inn í krókaaflamarkið í Vestmannaeyjum og fengið úthlutað 240 tonna kvóta.

Sindri segir að aflamarksskip hafi sömuleiðis orðið af töluverðum aflaheimildum vegna línuívilnunarinnar. Þannig hafi aflamarksskip í Vestmannaeyjum misst frá sér 337 tonn, að verðmæti 31 milljón króna miðað við leiguverð. Á móti komi að sex bátar frá Vestmannaeyjum hafi nýtt sér línuívilnun á fiskveiðiárinu og fengið úthlutað tæplega 50 tonna kvóta vegna hennar.

156 milljónir á ári

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að nettó skerðing aflamarksskipa frá Vestmannaeyjum sé þannig um 784 tonn af fiski vegna línuívilnunar og krókaaflamarksbáta. Langmesta skerðingin er í þorski, tæp 637 tonn en talsvert minni í öðrum tegundum. Sé þessi skerðing reiknuð út frá meðalverði á Fiskmarkaði Vestmannaeyja árið 2004 nemur aflaverðmæti þeirra aflaheimilda sem aflamarksskipin verða af tæpum 156 milljónum króna á ári.