Luis Rubio heldur hér á hinni eins árs gömlu Milagros Cerron.
Luis Rubio heldur hér á hinni eins árs gömlu Milagros Cerron. — Reuters
Líma. AP. | Stúlka frá Perú, sem fæddist með samvaxna fætur frá lærum til ökkla, gekkst í gærkvöld undir aðgerð þar sem skilja átti fætur hennar að.

Líma. AP. | Stúlka frá Perú, sem fæddist með samvaxna fætur frá lærum til ökkla, gekkst í gærkvöld undir aðgerð þar sem skilja átti fætur hennar að.

Hin árs gamla Milagros Cerron fæddist með sjaldgæfan fæðingargalla sem kallast sirenomelia eða "hafmeyju einkenni", enda líkjast fæturnir einna helst sporði. Aðeins eitt af hverjum 70.000 börnum fæðast með þennan galla og flest þeirra deyja á fyrstu mínútunum eftir fæðingu. Milagros er ein af aðeins þremur börnum sem vitað er að hafi lifað af. Sú sem lifað hefur lengst er hin bandaríska Tiffany Yorks, sem er nú 16 ára.

Hópur lækna, undir stjórn Luis Rubios, vann að aðgerðinni á Milagros í gærkvöld. Í hópnum eru meðal annars lýtalæknar, hjartaskurðlæknar, taugafræðingar, kvensjúkdómalæknar og barnalæknir. Búist var við að aðgerðin tæki um fjórar klukkustundir en Milagros þarf að gangast undir skurðaðgerðir næstu 15 árin til að skilja fæturna fullkomlega að, endurmóta þá og lagfæra innri líffæri en kviðarhol Milagros teygir sig niður í fótleggi hennar.

Áður en aðgerðin fór fram var sílíkonpokum með saltvatni komið fyrir innan á húðinni til að teygja hana svo hægt yrði að strengja hana yfir hvorn fót fyrir sig eftir að þeir yrðu aðskildir. Seinna þarf hún að fara í aðgerðir þar sem meltingarvegur hennar og kynfæri verða löguð.