Guðlaug Jónsdóttir, landsliðskona úr Breiðabliki, gengur af velli, eftir að hún fékk rauða spjaldið í Vestmannaeyjum í gærkvöld, og Úlfar Hinriksson, þjálfari Breiðabliks, tekur á móti henni.
Guðlaug Jónsdóttir, landsliðskona úr Breiðabliki, gengur af velli, eftir að hún fékk rauða spjaldið í Vestmannaeyjum í gærkvöld, og Úlfar Hinriksson, þjálfari Breiðabliks, tekur á móti henni. — Morgunblaðið/Sigfús Gunnar Guðmundsson
ÞAÐ var boðið upp á hörkuleik þegar ÍBV og Breiðablik mættust í þriðju umferð Íslandsmóts kvenna í Vestmannaeyjum í gærkvöldi.

ÞAÐ var boðið upp á hörkuleik þegar ÍBV og Breiðablik mættust í þriðju umferð Íslandsmóts kvenna í Vestmannaeyjum í gærkvöldi. Færin létu svo sem ekki standa á sér en það gerðu mörkin sem urðu aðeins þrjú þegar upp var staðið og þar af skoraði Breiðablik tvö og vann leikinn, 2:1, þrátt fyrir að vera manni færri í 65 mínútur.

Eftir Sigursvein Þórðarson

Liðsmenn fóru rólega af stað og má segja að fyrsta markið hafi komið úr fyrstu sókn leiksins. Þá skoraði Guðlaug Jónsdóttir eftir að hafa unnið boltann af Ernu Dögg Sigurjónsdóttur varnarmanni ÍBV inn í vítateig. Eyjakonur voru ekki á því að gefast upp og aðeins mínútu síðar fékk Hólmfríður Magnúsdóttir sannkallað dauðafæri ein á móti Þóru B. Helgadóttur markverði Blika sem varði vel. Hólmfríður fékk boltann aftur en skaut himinhátt yfir. Stuttu síðar urðu gestirnir fyrir áfalli þegar markaskorara þeirra, Guðlaugu Jónsdóttur, var vikið af leikvelli fyrir að slá til Hólmfríðar Magnúsdóttur eftir að hún hafði brotið á henni. Hólmfríður fékk gult spjald en Guðlaug fór í sturtu. Eftir þetta róaðist leikurinn nokkuð og fátt markvert gerðist fram að leikhléi. En gestirnir komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og eftir aðeins 50 sekúndur voru þeir búnir að ná tveggja marka forystu þegar Erna B. Sigurðardóttir skallaði í netið en varnarmenn ÍBV sváfu illilega á verðinum þar. Þær reyndu að svara strax og mínútu síðar komst Bryndís Jóhannesdóttir ein í gegn, ekki í eina skiptið í leiknum en Þóra sá við henni í markinu. Eftir þetta var nánast um einstefnu að ræða að marki Blika sem reyndu þó að sækja hratt þegar tækifæri gafst. Eyjakonur fengu hvert færið af öðru og það var ekki fyrr en á 57. mínútu sem Bryndísi tókst að skora fram hjá Þóru. Eyjakonur reyndu hvað þær gátu að jafna metin en það datt ekki fyrir þær í leiknum og Blikastúlkur fögnuðu vel góðum sigri í leikslok.

Urðum betri einum færri

Úlfar Hinriksson þjálfari Breiðabliks var að vonum ánægður með sigurinn í leiknum, sérstaklega þar sem þær spiluðu einum færri lengst af í leiknum. "Þetta var mikil barátta en við spiluðum bara betur einum færri en með fullt lið. Þetta var jafn og spennandi leikur og mikil átök." Úlfari fannst sínar stúlkur verða betri og betri eftir því sem leið á leikinn. "Við náðum að skora í upphafi síðari hálfleiks og sköpuðum okkur síðan hættuleg færi. Við náðum að stjórna leiknum einum færri þannig að eigum við ekki að segja að við séum ágætar manni undir. Nú erum við taplaus enn sem komið er og þannig ætlum við að hafa þetta."

Þóra var í miklu stuði í marki Blika og var þeirra besti maður. Aðrir leikmenn sem stóðu vel fyrir sínu voru miðjumennirnir Edda Garðarsdóttir og Tesia Kozlowski.

Fengum sex til sjö dauðafæri

Sigurlás Þorleifsson þjálfari ÍBV sagði enga spurningu vera hvort liðið var betri aðilinn í leiknum. "Við spiluðum virkilega vel fyrsta hálftímann í leiknum og vorum í raun betri aðilinn allan leikinn. Þær breyttu aðeins leikskipulaginu hjá sér eftir að þær misstu manninn út af og við náðum ekki að nýta okkur það framan af. Við erum að skapa okkur sex til sjö dauðafæri í leiknum en þær fengu nú ekki mörg. Það sem kom mér eiginlega mest á óvart var hversu vel við náðum að stjórna leiknum í upphafi."

Hjá ÍBV var nýr enskur leikmaður, Chantelle Parry, öflug sem og Hólmfríður Magnúsdóttir en þó dró af henni síðari hluta seinni hálfleiks. Bryndís var dugleg að koma sér í færi en var óheppin upp við markið.