Kraftur Í vélarrúmi Froyur eru tvær 575 hestafla vélar og er hámarksganghraði bátsins 32 mílur.
Kraftur Í vélarrúmi Froyur eru tvær 575 hestafla vélar og er hámarksganghraði bátsins 32 mílur.
BÁTAGERÐIN Samtak ehf. afhenti fyrir skömmu farþegaferju af tegundinni Víkingur 1340 til Færeyja. Kaupendur eru Skúvadal spf. í Vestmanna í Færeyjum og verður ferjan nýtt í fastar áætlunarferðir, í sérferðir og til fugla-, hella- og hvalaskoðana.

BÁTAGERÐIN Samtak ehf. afhenti fyrir skömmu farþegaferju af tegundinni Víkingur 1340 til Færeyja. Kaupendur eru Skúvadal spf. í Vestmanna í Færeyjum og verður ferjan nýtt í fastar áætlunarferðir, í sérferðir og til fugla-, hella- og hvalaskoðana. Ferjan hefur hlotið nafnið Froyur.

Ferjan sem er sérsmíðuð fyrir útsýnisferðir, tekur 48 manns í sæti á neðra þilfari, 25 manns á efra þilfari og 8 manns á afturdekki.

Ferjan sigldi inn í heimahöfn í Vestmanna laugardaginn 21. maí sl. ásamt 200 báta móttökufylgd. Fór ferjan þar í skoðun en hóf siglingar í síðustu viku. Skuvadal á fyrir tvo aðra báta en Froyur verður í rekstri allt árið um kring.

Í Froyur eru fullkomin fjarskipta- og siglingartæki, ásamt öryggis og viðvörunarkerfum. Í vélarýminu eru tvær Volvo Penta, 575 hestafla vélar og er hámarksganghraði bátsins 32 mílur.

Langur aðdragandi

Smíðin á ferjunni tók alls 5 mánuði og er fyrsta ferjan hér við land sem byggð er til að uppfylla þær færeyskar kröfur sem farið var fram á frá Færeyjum. Að sögn Snorra Haukssonar, framkvæmdastjóra Samtaks, á smíðin á Froyur sér hinsvegar fimm ára aðdraganda og mikla baráttu við lög og reglur frá Evrópusambandinu. "Það eru fimm ár frá því að Gunnar Skuvadal hafði samband við okkur um smíði á ferju og vorum við þá að smíða 30 tonna ferju til Ísafjarðar. Þótti Gunnari hún vera of stór fyrir sig en að lokum bað hann okkur um að gera þeim tilboð í smíði á ferju. Þegar búið var að hanna fyrir hann bát sem uppfyllti þeirra þarfir var þeim gert tilboð. Á sama tíma fengu bæði Íslendingar og Færeyingar reglugerðir um smíðar á farþegaferjum frá Evrópusambandinu þar sem ekki var mögulegt að smíða ferju í þessari stærð sem uppfyllti þær kröfur sem þar voru.

Þar með hrundi grundvöllurinn fyrir því að því að hægt væri að smíða ferjur í þessari stærð, hvorki fyrir Færeyinga eða Íslendinga. Eftir mikið japl, jaml og furður bæði hér heima og í Færeyjum var undirritaður samningur við Skuvadal um smíðina í febrúar á síðasta ári en vegna anna hjá okkur í Samtak var ekki unnt að afhenda ferju fyrr en árið 2005," segir Snorri.