LÁRA Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi formaður Kvenréttindafélags Íslands, lést í Reykjavík sunnudaginn 29. maí sl. á 93. aldursári. Hún fæddist í Ási í Reykjavík 28. mars 1913, 7. í röð 10 barna Sigurbjörns Á.

LÁRA Sigurbjörnsdóttir, fyrrverandi formaður Kvenréttindafélags Íslands, lést í Reykjavík sunnudaginn 29. maí sl. á 93. aldursári.

Hún fæddist í Ási í Reykjavík 28. mars 1913, 7. í röð 10 barna Sigurbjörns Á. Gíslasonar, guðfræðings og kennara, stofnanda Elli- og hjúkrunarheimilisins Grundar, og konu hans, Guðrúnar Lárusdóttur, alþingismanns og rithöfundar.

Lára var brautskráð frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1930, stundaði handavinnunám hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands 1932-33 og lauk námi fyrir handavinnukennara frá Industriskolen í Haslev í Danmörku 1934. Hún var handavinnukennari við Húsmæðraskólann á Hallormsstað 1934-35, hjá Heimilisiðnaðarfélagi Ísl. 1935-37 og við Kvöldskóla KFUM í Rvík 1941-49. Lára var hótelstjóri Edduhótelsins á Eiðum sumrin 1965-75. Hún var lengi leiðbeinandi í handavinnu hjá Félagsstarfi aldraðra í Reykjavík og fararstjóri í ferðum eldri borgara til sólarlanda á vegum Félagsmálastofnunar Reykjavíkurborgar.

Lára átti sæti í stjórn Kvenréttindafélags Íslands í hartnær aldarfjórðung, var ritari, varaformaður og formaður. Hún var gerð að heiðursfélaga 1983. Lára gekkst að tilhlutan KRFÍ fyrir stofnun foreldraráðs við Melaskóla í Reykjavík og var fyrsti formaður þess 1955-61. Hún stóð einnig að stofnun Foreldrafélags Hagaskóla 1964 og átti sæti í fyrstu stjórn þess. Hún stóð að stofnun Verndar, fangahjálpar, og var ritari félagsins. Hún átti sæti í stjórn Sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, í stjórn Barnaverndarfélags Reykjavíkur frá stofnun 1949, fyrst sem ritari en gjaldkeri frá 1951 til 1986 er félagið var lagt niður. Lára átti ennfremur sæti í stjórn Landssambandsins gegn áfengisbölinu, í stjórn Menningar- og minningarsjóðs kvenna, í ritstjórn 19. júní, ársrits KRFÍ, og var í stjórnskipaðri nefnd til endurskoðunar námsefnis á skyldunámsstigi. Hún flutti mörg útvarpserindi á árunum 1950-70, flest um daginn og veginn.

Eiginmaður Láru var Ásgeir Ó. Einarsson héraðsdýralæknir og áttu þau fimm börn.