Mark Felt
Mark Felt — REUTERS
New York. AFP. | Fyrrverandi aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), Mark Felt, lýsir því yfir í nýjasta hefti tímaritsins Vanity Fair að hann hafi verið hinn svokallaði "Deep Throat", þ.e.

New York. AFP. | Fyrrverandi aðstoðarforstjóri bandarísku alríkislögreglunnar (FBI), Mark Felt, lýsir því yfir í nýjasta hefti tímaritsins Vanity Fair að hann hafi verið hinn svokallaði "Deep Throat", þ.e. ónafngreindur heimildarmaður blaðamanna The Washington Post , Bobs Woodwards og Carls Bernsteins, en rannsóknir þeirra á Watergate-hneykslinu í Bandaríkjunum leiddu til afsagnar Richards Nixons forseta árið 1974. Þeir Woodward, Bernstein og Benjamin C. Bradlee, sem var ritstjóri The Washington Post á þessum tíma, staðfestu frásögn Felts í gærkvöldi, en þremenningarnir hafa aldrei fyrr látið neitt uppi um málið. Bradlee sagði í viðtali í gær að það hefði fyllt sig talsverðu öryggi að vita að "Deep Throat" hefði verið hátt settur innan alríkislögreglunnar. "Annar hæst setti maður FBI, það er nokkuð góður heimildarmaður," sagði Bradlee.

Í viðtalinu við Felt kemur fram að hann hafi alltaf talið best að halda því leyndu að hann hefði verið "Deep Throat". Sagði hann börnum sínum fyrst frá því árið 2002 er þau gengu á hann. Þá sagði Felt syni sínum, Mark yngri, að hann teldi það ekkert til að státa sig af að hafa lekið upplýsingum í blaðamenn. Þessu munu börn hans ekki hafa verið sammála, en töldu að Felt hefði leikið virðingarvert hlutverk í Watergate-málinu.

Getgátur um það hver heimildarmaður Woodwards og Bernsteins var hafa lengi sett svip sinn á bandaríska stjórnmálaumræðu og Felt hefur oft verið nefndur til sögunnar í því samhengi, en hann neitaði sjálfur árið 1999 að hafa átt hlut að máli.

Þegar Watergate-málið kom upp hafði Felt nýlega verið sniðgenginn við ráðningu nýs forstjóra. Segja sumir, að Nixon forseti, sem sagði af sér 1974, hafi verið sannfærður um að Felt væri "Deep Throat".