"ÉG er því miður svartsýnn og reikna ekki með að Ólafur komi til landsins fyrr en á sunnudaginn," segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, um mál Ólafs Stefánssonar handknattleiksmanns sem æfir ekkert með íslenska landsliðinu í...

"ÉG er því miður svartsýnn og reikna ekki með að Ólafur komi til landsins fyrr en á sunnudaginn," segir Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, um mál Ólafs Stefánssonar handknattleiksmanns sem æfir ekkert með íslenska landsliðinu í handknattleik þessa vikuna. Reiknað var með Ólafi til landsins á mánudag frá Spáni, en sú var ekki raunin sökum þess að lið Ólafs, Ciudad Real, leikur kveðjuleik fyrir Talant Dujshebaev við heimsliðið á laugardag.

Forráðamenn Ciudad vilja að Ólafur taki þátt í leiknum ásamt öðrum leikmönnum liðsins sem eru af ýmsu þjóðerni, en flestir þeirra áttu, eins og Ólafur, að koma til æfinga hjá sínum landsliðum í byrjun þessarar viku. "Við höfum skrifað nokkur bréf út af þessu máli en því miður virðumst við standa varnarlausir frammi fyrir svona málum. Ciudad heldur öllum sínum landsliðsmönnum vegna þessa leiks og því kemur pressa á Ólaf um að vera áfram á Spáni fram yfir leikinn á laugardag. Þetta er afar slæm staða," segir Einar.

Aðrir leikmenn íslenska landsliðsins sem leika í Evrópu komu til landsins í gær og í fyrradag. Æfingar landsliðsins undir stjórn Viggó Sigurðssonar eru hafnar, en fram undan eru tveir vináttuleikir við Svía, á mánudag og miðvikudag. Eftir það taka síðan við tveir leikir við Hvít-Rússa um sæti í Evrópukeppninni í Sviss í byrjun næsta árs.