Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason
Hjálmar Árnason svarar grein Viktors B. Kjartanssonar: "...menn lenda ávallt í vandræðum ef þeir láta sannleikann víkja fyrir kappinu eða pólitískum ofstopa."

FYRST vil ég óska þér innilega til hamingju með að vera orðinn formaður fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ. Örugglega ert þú vel að því kominn og átt eftir að láta til þín taka (værir annars illa í ætt skotið). Hins vegar er mikilvægt fyrir þig að hafa hugfast hið skæra leiðarljós sem einkennist af hinum fallegu orðum: satt og rétt. Kapp er nefnilega best með forsjá og menn lenda ávallt í vandræðum ef þeir láta sannleikann víkja fyrir kappinu eða pólitískum ofstopa.

Veist betur

Kæri Viktor. Þú sakar undirritaðan um að standa ekki í liði með heimamönnum vegna atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum. Sannarlega alvarlegar ásakanir. Þú veist hins vegar betur og talar þarna gegn betri vitund. Þú veist líka að árangur næst ekki nema unnið sé heiðarlega og í samvinnu allra sem að máli þurfa að koma. "Sök" mín er sú að hafa leiðrétt algjöra oftúlkun þína á ummælum iðnaðarráðherra vegna viljayfirlýsingar um samstarf Norðuráls og Suðurnesja. Þannig "gleymir" þú t.d. í pistli þínum í Morgunblaðinu 31. maí að geta þess að iðnaðarráðherra sagði í útvarpsfréttum að hún samfagnaði með Suðurnesjamönnum vegna yfirlýsingarinnar. Það eru hennar eigin orð.

Samstaða til sigurs

Suðurnesjamenn eru þekktir fyrir samstöðu. Þegar hún rís hæst er árangur mestur. Sú samstaða þarf að ná til allra. Við þurfum að vinna með hvert öðru, með fjárfestum og viðkomandi ráðuneytum. Oft leiðir misskilningur til óvarlegra orða. Af þeim spretta oft óþarfa deilur. Þess vegna óskaði ég eftir því að iðnaðarráðherra kæmi hingað suður eftir. Til þess að eyða misskilningi og einnig til að skoða aðstæður. Sú heimsókn var ánægjuleg og þjónaði tilgangi sínum. Hún staðfesti einfaldlega það að Suðurnes eiga bandamann þar sem ráðherrann er. Bæjarstjóri mun staðfesta það við þig. Orð hennar voru einfaldlega mistúlkuð. Bið ég þig nú, kæri Viktor, að egna ekki til frekari ófriðar um málið - spilla ekki samstöðunni því hún skiptir höfuðmáli. Líði þér hins vegar betur með ásakanir þínar í minn garð skaltu halda þeim áfram. Um þennan þátt mun ég hins vegar ekki fjalla frekar en vona frekar að við sjáum málið þokast áfram.

Höfundur er alþingismaður.

Höf.: Hjálmar Árnason svarar grein Viktors B. Kjartanssonar