Eftir Ragnhildi Sverrisdóttur rsv@mbl.is AVION Group, sem m.a. rekur Atlanta-flugfélagið og Excel Airways, keypti í gær 94,1% hlut Burðaráss hf. í Eimskipafélagi Íslands. Eftir kaupin ræður Avion Group yfir 67 þotum og 22 skipum.
Eftir Ragnhildi Sverrisdóttur rsv@mbl.is

AVION Group, sem m.a. rekur Atlanta-flugfélagið og Excel Airways, keypti í gær 94,1% hlut Burðaráss hf. í Eimskipafélagi Íslands. Eftir kaupin ræður Avion Group yfir 67 þotum og 22 skipum.

"Með kaupunum hefur orðið til stærsta félag landsins í flutningastarfsemi með áætlaða 110 milljarða veltu á þessu ári, 4.400 starfsmenn og 80 starfsstöðvar víða um heim," sagði Magnús Þorsteinsson, aðaleigandi og stjórnarformaður Avion Group, þegar hann greindi frá þessum kaupum í gær.

Kaupverðið er 21,6 milljarðar króna, 12,7 milljarðar greiddir í peningum en 8,9 milljarðar með hlutabréfum í Avion Group. Stefnt er að skráningu Avion Group í Kauphöll Íslands fyrir 31. janúar á næsta ári, en fyrirtækið yrði eitt af þeim stærstu í Kauphöllinni.

Magnús Þorsteinsson sagði að með kaupunum á Eimskipafélaginu gæti Avion Group sótt fram á mörgum sviðum. Hann sagði að sumarið yrði nýtt til að ná sem allra mestri samlegð í rekstrinum og gera hann skilvirkari. Aðspurður hvort fyrir lægju einhverjar breytingar á áætlunum félaganna eða tíðni ferða sagði Magnús svo ekki vera. "Avion Group hefur átt ágætt samstarf við Eimskip um flugflutninga til og frá Íslandi. Við munum nýta það að við erum að fljúga og sigla um allan heim og höfum miklu meiri slagkraft núna, með sameinaðar söluskrifstofur og starfsemi mjög víða."

Eftir kaupin verður Magnús stjórnarformaður Avion Group sem fyrr. Þá mun Hafþór Hafsteinsson áfram stýra flugrekstri samstæðunnar, þ.e. Air Atlanta, Excel Airways og viðhaldsþjónustunni Avia Technical Services. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskips, stýrir skipafélaginu áfram.