Matið Nedzuedin Osmani, kallaður Dino, sér um matið en honum til aðstoðar er Madusu Thoronka.
Matið Nedzuedin Osmani, kallaður Dino, sér um matið en honum til aðstoðar er Madusu Thoronka. — Morgunblaðið/Kristján
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Kristján Kristjánsson krkr@mbl.is ÞAÐ er stundum sagt að lífið sé saltfiskur og það orðatiltæki á vel við á Árskógssandi í Eyjafirði, þar sem fyrirtækið Bakkalá starfar. Bakkalá er rúmlega tveggja ára gamalt fyrirtæki, í eigu Sólrúnar ehf.
Eftir Kristján Kristjánsson krkr@mbl.is

ÞAÐ er stundum sagt að lífið sé saltfiskur og það orðatiltæki á vel við á Árskógssandi í Eyjafirði, þar sem fyrirtækið Bakkalá starfar. Bakkalá er rúmlega tveggja ára gamalt fyrirtæki, í eigu Sólrúnar ehf. og rekur saltfiskverkun, þar sem starfa um 40 manns í 30 stöðugildum. Pétur Sigurðsson er framkvæmdastjóri og hann sagði í samtali við Morgunblaðið að Bakkalá framleiddi 1200-1500 tonn af saltfiski á ári. Afurðirnar eru seldar í gegnum Iceland Seafood og eru helstu markaðir í Suður-Evrópu, í Portúgal, á Spáni, Ítalíu og Grikklandi.

Pétur sagði að fiskur til vinnslu væri keyptur jöfnum höndum af fiskmarkaði og bátum í föstum viðskiptum. "Sólrún ehf. á þrjú útgerðarfyrirtæki sem eru að gera út litla báta og við höfum verið að kaupa fisk af þeim og þá höfum við keypt um 900 tonn af fiskmörkuðum það sem af er ári." Pétur sagði að það geti verið slagur á fiskmörkuðunum "en það er þó aldrei neitt vandamál að ná í fisk á mörkuðum, heldur frekar að geta keypt hann á því verði sem hægt er að vinna hann á."

Pétur sagði að vissulega þyrfti að hafa fyrir hlutunum við reksturinn en að hann hefði gengið. "Menn eru ekki að verða ríkir af þessu en við erum að skapa okkur atvinnu og þokkalegustu laun og fólk hér í kringum okkar hefur nóg að gera. Þetta er hins vegar ekki rekið af neinni hugsjónastarfsemi og þetta er harður bransi. Gengið hefur verið okkur mjög erfitt á þessu ári en við höfum reynt að bæta það upp með því að auka við magnið. Við höfum afskipað á þessu ári rétt um 700 tonnum af saltfiski og það kæmi mér ekki á óvart þótt magnið færi hátt í 1.000 tonn fyrstu sex mánuði ársins."

Pétur sagði að lakasti tíminn í vinnslunni hafi verið á haustin en hann er þó betur staddur hráefnislega fyrir haustið nú en mörg undanfarin ár. "Ég er með fasta samninga við fleiri báta og því meiri möguleikar á hráefni, því oft er góð línuveiði hér fyrir norðan í september og október."

Fjölskyldan sem á Sólrúnu ehf. hefur verið að verka saltfisk á Árskógssandi frá árinu 1961. Fyrirtækinu var skipt upp fyrir rúmum tveimur árum og starfsemin færð í minni félög, sem sjá um útgerðina annars vegar og fiskvinnsluna hins vegar. Pétur sagði að áður en fyrirtækinu var skipt upp var það oft sem menn hváðu þegar kennitala fyrirtækisins var gefin upp og fannst þeim hún orðin ansi gömul. Hann sagði að nokkrir aðilar væru að kaupa mikið magn af fiski á fiskmörkuðum og væru með ábyrga innkaupastefnu, þ.e. að kaupa fisk á því verði sem þeir geta unnið fiskinn á. "Svo koma á hverju einasta ári fyrirtæki sem eru að kaupa hráefni allt of dýru verði, sprengja upp verðið og eru svo dottin út eftir eitt til tvö ár."