[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fuglavini svarað MIG langar að svara fuglavini sem skrifar í blaðið sl. mánudag. Ég er mikill fuglavinur og veit ekkert yndislegra en fuglasönginn á vorin.

Fuglavini svarað

MIG langar að svara fuglavini sem skrifar í blaðið sl. mánudag. Ég er mikill fuglavinur og veit ekkert yndislegra en fuglasönginn á vorin. Samt er ég líka kattavinur og á sjálf kött og ég vil kalla þetta dýraníðingshátt að hengja þessa blúndu um hálsinn á kisu einvörðungu til að "bjarga" einstaka fugli.

Ég veit að fleiri taka undir með mér og ég ætla rétt að vona að ekki verði almenn notkun á slíkum kraga. Aumingja kisa sem á slíkan eiganda.

Dýravinur.

Sjónvarpsþættir of seint á kvöldin

Í Velvakanda sl. mánudag skrifar áhorfandi um hversu seint á kvöldin góðir sjónvarpsþættir séu sýndir. Ég tek undir skrif áhorfanda og er honum algjörlega sammála. Ég hef t.d. alltaf horft á Læknavaktina (Third Watch) á Stöð 2 en nú er sá þáttur sýndur svo seint á kvöldin að ég verð að sleppa honum.

Ég veit um marga sem eru eyðilagðir yfir því hversu seint góðir þættir eru sýndir á kvöldin því fólk þarf að vakna snemma til vinnu og sleppir því að horfa á sjónvarp seint á kvöldin.

Vil ég koma því á framfæri við þá sem stjórna þessu á sjónvarpsstöðvunum að breyta þessu hið snarasta.

Annar áhorfandi.

Draumráðningabók Steinunnar

FYRIR stuttu var fyrirspurn í Velvakanda um draumráðningabók Steinunnar Eyjólfsdóttur. Steinunn hafði samband við Velvakanda og sagði að sú bók væri nú ófáanleg en að nýlega hefði komið út önnur bók, sem einnig fjallar um drauma, heitir sú bók Yfir ljósmúrinn.

Steinunn þakkar lesendum áhugann á bókum hennar.

Kettlingar og kisur fást gefins

6 kettlingar, 2ja mánaða, fást gefins og svo vantar heimili fyrir tvo 8 mánaða fressketti. Upplýsingar í síma 8951238.

Sókrates er týndur

KÖTTURINN okkar hann Sókrates týndist frá heimili sínu á Bárugötu, Rvk. Hann er bröndóttur með græna hálsól merkta með heimilisfangi og símanúmeri. Hann er eyrnamerktur (K-334). Þeir sem hafa séð hann eða vita um ferðir hans eru beðnir að hafa samband við Margréti í síma 6649919 eða 5616009.