Jakobína Hansína Beck Schröder fæddist á Sómastöðum við Reyðarfjörð 11. september 1909. Hún lést á Landsspítalanum 25. maí síðastliðinn. Foreldrar Jakobínu voru Hans Jakob Christensson Beck, f. 17. jan. 1838, d. 29. nóv. 1920 og Mekkín Jónsdóttir Beck, f. 11. maí 1883, d. 11. feb. 1975.

Hálfsystkini Jakobínu, börn Hans Jakobs og Steinunnar Pálsdóttur voru 13. Þau voru Páll, f. 1863, Kristinn, f. 1866, Richard, f. 1868, Helga Amalía, f. 1870, Sigríður Hansína, f. 1872, María Elísabet, f. 1874, Eiríkur, f. 1876, Guðný Jóhanna, f. 1877, Jónína Pálína, f. 1879, Steinunn Elísabet, f. 1880, Ingibjörg, f. 1881, Þórólfur, f. 1883 og Þórunn, f. 1884.

Hans Jakob og Mekkín eignuðust 10 börn og komust 8 þeirra á legg. Jakobína var elst. Systkinin voru Jónína, f. 1910, Elísabet, f. 1912, Ásta Þórbjörg, f. 1913, Unnsteinn, f. 1914, Laufey, f. 1916, María Þorgerður, f. 1918 og Árni Eyjólfur, f. 1919. Ásta er ein systkinanna á lífi.

Náið samband varð á milli hálfsystkinanna þar sem þau eldri tóku yngri systkini sín í fóstur við fráfall Hans Jakobs árið 1920. Jakobína ólst upp hjá bróður sínum Eiríki og konu hans Margréti Guðmundsdóttur frá 11 ára aldri. Uppeldissystkini hennar eru þau Páll Þórir, f. 1921 og Sigríður Ingibjörg, f. 1925.

Hinn 10. maí 1932 giftist Jakobína Johan Hans Schröder garðyrkjubónda, f. í Kjærgaard í Danmörku 28. jan.1903, d. 16. apríl 1971. Börn þeirra eru: 1) Erna María, þjónustufulltrúi hjá Sýslumannsembættinu í Kópavogi, f. 4. feb. 1938. Giftist 1956 Ásvaldi Andréssyni bifreiðasmið. Þau eiga þrjár dætur, Hönnu Sveinrúnu, Regínu og Ragnhildi. 2) Hans Henrik vélstjóri, f. 21. júní 1943, d. 16.10. 2004. Kvæntist 1972 Guðríði Þorleifsdóttur. Börn þeirra eru Ari, Hulda Margrét, Jóhann Ólafur og Jakob Þór. Þau skildu. Hans Henrik kvæntist 2001 Veru Heinemane. 3) Baldur flugvélstjóri, f. 15. júlí 1954. Kvæntist 1976 Auði Sigurðardóttur. Börn þeirra eru Inga Vigdís og María Mekkín. Þau skildu. Baldur kvæntist Naomi Herlita árið 2004. Jakobína lætur eftir sig á annan tug langömmu- og langalangömmubarna.

Jakobína helgaði garðyrkjustörfum mestan hluta starfsævi sinnar en þau Johan reistu sér hús í Birkihlíð við Nýbýlaveg í Kópavogi árið 1937 þar sem þau voru með garðyrkjubúskap. Jakobína bjó í Birkihlíð til ársins 2001 er hún flutti í Fannborg 8 í Kópavogi.

Útför Jakobínu verður gerð frá Kópavogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Eitthvað er það

sem engin hugsun rúmar

en drýpur þér á auga

sem dögg - þegar húmar.

(Hannes Pétursson.)

Þá er hún Bína tengdamóðir mín farin frá okkur. Mikið ósköp var gott að eiga hana að vini öll þessi ár. Hálf öld er liðin frá því að ég kom fyrst á heimili þeirra heiðurshjóna Jóhanns Schröder og Jakobínu H. Schröder garðyrkjubænda í Birkihlíð við Nýbýlaveg í Kópavogi. En þannig var að ég hafði kynnst dóttur þeirra Ernu þar sem við vorum bæði í hvítri höll upp til heiða (Vífilstöðum). Ég man alltaf eftir þeim degi er ég sá hana fyrst, það var á fögrum degi sumarið 54.Við Lilli vinur minn sátum í gluggakistu uppi á annarri hæð og vorum að horfa út á heimkeyrsluna á fólk sem var að koma og fara er Willys-jeppi renndi í hlað. Út úr honum steig reffilegur maður og opnaði farþegadyrnar fyrir ungri rauðhærðri stúlku í síðri grárri kápu og gengu þau saman inn höllina.

Við Erna ákváðum að vera saman fyrir lífstíð þarna á Vífilsstöðum og þá var komið að því að kynna strákinn fyrir tilvonandi tengdaforeldrum þegar við vorum bæði orðin rólfær. Vífilsstaðavagninn var tekinn og stoppaði hann við mót Nýbýlavegar á leið í bæinn. Síðan var að labba heim að Birkihlíð, í vestanbyljanda. Vel var tekið á móti okkur en ég spurði Bínu að því seinna hvernig henni hafði litist á að dóttirin væri að koma heim með tíu árum eldri mann sem hún ætlaði að binda trúss við. Þá sagði Bína, ég horfði á ykkur ganga hér niður brekkuna og ég sá að þú gekkst áveðurs við hana, þá sá ég strax að hægt var að treysta þér.

Við Erna giftum okkur á afmæli hennar 1956, bjuggum í fjögur ár í Birkihlíð og var sambúðin góð. Jóhann var hreinskiptinn og hreinlyndur maður, og greiðugur í besta lagi. Þau hjón komu í Kópavoginn 1937 og byrjuðu að ryðja land á svæði sem þeim hafði verið úthlutað sem nýbýli við Nýbýlaveginn. Hús byggðu þau strax og fluttu inn 1938. Jóhann lést 16. apríl 1971.

Bína var létt í lund, svolítið stríðin. Það var oft gaman við matborðið og margt rætt og ekki allir sömu skoðunar, hvort sem rætt var um stjórnmál eða dægurmál. Það var mikill gestagangur í Birkihlíð og Bína hafði í nógu að snúast við eldavélina og hún vann einnig úti með Jóhanni við gróðurhúsið svo dagurinn var langur hjá henni en alltaf var hún létt og kát.

Eftir að Jóhann féll frá rak hún gróðrarstöðina í nokkur ár með sóma og fengu barnabörnin vinnu hjá henni á vorin þegar plöntusala byrjaði. Þeim þótti gott að vinna hjá henni og dýrkuðu hana alveg.

Þegar Jóhann lést hafði amma Bína eins krakkarnir kölluðu hana ekki keyrt bílinn í mörg ár og prófið útrunnið. Hún dreif sig í bílprófið og keyrði eins og herforingi til níræðisaldurs en sagði þá stopp.

Bína bjó í Birkihlíð fram að aldamótum, þá keypti hún sér íbúð í Fannborginni og líkaði þar vel. Hún hélt heilsu fram á síðasta ár en í haust er leið lést Hans, eldri sonur hennar, og þá sá maður að hún beygði af, hún tregaði hann sárt. Hún hélt sinni reisn fram á síðasta mánuð en þá sást að krafturinn var búinn og að hún var á leiðinni frá okkur. Ég þakka samfylgdina öll þessi ár, guð blessi minningu þína.

Ásvaldur Andrésson.

Flestir eiga sér einhverja fyrirmynd í uppvextinum. Í mínu tilviki var það alveg á hreinu, það var hún amma Bína í Birkihlíð. Eitt var að ég bjó fyrsta æviárið í Birkihlíð og síðar í næsta nágrenni og tengslin því náin. Hitt skipti þó meiru, mér fannst hún óborganlega skemmtileg, lífsglöð og víðsýn kona. Ekki var amalegt að geta státað sig af því að eiga ömmu sem ók um sem ung kona á Willys jeppa og síðar á ögn borgaralegri bílum, merktum Y 47, fram yfir nírætt.

Ömmu sem sagði sögur af forfeðrum sínum allt frá tímum Tyrkjaránsins. Frá nafngift móður sinnar, Mekkínar, sem rekja mátti til ambáttar í borginni Mekku. Frá enska langafanum sem fór til sjós á tólfta ári, lenti í klónum á frönskum sjóræningjum sem drápu alla um borð nema hann og þegar skip sjóræningjanna fórst síðar við Jótlandsstrendur lifði langafinn það af líka. Einnig voru litríkar frásagnir af uppvextinum á Sómastöðum og fyrstu frumbýlingsárunum í Kópavogi. Þetta voru sögur sveipaðar ævintýraljóma, líkt og lífið í Birkihlíð er í minningunni.

Afar gestkvæmt var á heimilinu, ekki síst þegar plöntusalan var í algleymingi. Þá skiptu stjúpur og dalíur hratt um hendur og stemmingin náði ætíð hápunkti sautjánda júní. Ég var svo lánssöm að fá að taka þátt í vertíðinni frá barnsaldri og vann öll sumur fram á unglingsár undir stjórn ömmu í Birkihlíð. Hún kunni svo sannarlega að hvetja til árangurs, launin voru prósentur af öllum söluágóða. Það var aðeins eitt sem þurfti að læra; kúnninn alltaf í fyrsta sæti.

Garðyrkjan var bæði ævistarfið og áhugamálið. Stöðugt var verið að hlúa að plöntunum og gera ýmsar tilraunir til að herða þær, svo þær stæðust örugglega næturhél. Ekki kom til álita að selja sumarblóm sem höfðu alið allan sinn aldur í gróðurhúsunum, plönturnar áttu að vera þolnar, dökkgrænar að lit og lágvaxnar.

Aðventan var ekki síður spennandi tími í Birkihlíð. Afi og amma hófu innflutning á jólatrjám til landsins á sjöunda áratugnum og seldu á Klapparstíg og síðar á Vesturgötunni. Angan af greni ilmaði um gróðurhúsin og notalegt var að stússast í kringum ömmu þar sem hún útbjó fagurskreytta krossa og kransa eftir pöntunum. Síðustu viðskiptavinirnir keyptu jólatré undir hádegi á aðfangadag og klukkan tólf hófst undirbúningur jólanna hjá stórfjölskyldunni. Allir sem vettlingi gátu valdið höfðu tekið þátt í sölunni. Safnast var saman í Birkihlíð eftir hádegið og bar amma fram súkkulaði með rjóma í fína bláa postulínsstellinu. Þessi siður hélst á heimili ömmu eftir að hún flutti í Fannborgina, þó engin væri jólatrésvertíðin lengur.

Amma og afi ferðuðust mikið og héldu góðum tengslum við fjölskyldu afa í Danmörku sem var reyndar þýsk að uppruna, frá Slésvík-Holstein. Mikill samgangur var við ættingja ömmu og ósjaldan voru reykvísk ættmenni send í sveitina í Birkihlíð til að öðlaðst sína fyrstu atvinnureynslu.

Saumaklúbburinn var uppspretta mikillar gleði í lífi ömmu. Hláturmildar systur, frænkur og mágkonur hittust á laugardögum og var ávallt glatt á hjalla. Amma hafði líka yndi af því að spila bridge, prjóna lopapeysur og lesa góða reyfara og var hún jafnvíg hvort sem þeir voru á íslensku, dönsku, ensku eða þýsku.

Í minningunni var Birkihlíð sælureitur. Fallega danska húsið umvafið fögrum skrúðgarði með gosbrunni, tjörn, fuglahúsi, birkitrjám og greni svo langt sem augað eygði. Sálin í Birkihlíð var amma Bína og tókst henni að skapa sama góða andrúmsloftið í kringum sig í íbúðinni í Fannborg, þar sem hún bjó síðustu árin.

Ég þakka öllu því góða fólki í heimahjúkrun og heimaþjónustu sem gerði ömmu kleyft að halda heimili með reisn allt fram undir það síðasta.

Hvíl þú í friði, elsku amma mín.

Regína Ásvaldsdóttir.

Elsku amma Bína.

Hér skiljast leiðir eftir langan tíma og það er sárt að kveðja þig eftir öll þessi ár . Þú sem gafst okkur svo margt um ævina og þegar við systurnar hugsum til baka eru minningarnar svo margar. Við nánast ólumst upp með þér í Birkihlíðinni og þú tókst þátt í okkar lífi frá því að við munum eftir okkur. Þú þekktir vini okkar og áhugamál, tókst þátt í gleði okkar og sorgum og því má segja að sterkasta minningin sé úr Birkihlíðinni.

Elsku amma, þú varst svona ekta amma ef maður getur sagt svo. Okkar tilfinning er að þegar við heyrum orðið amma þá birtist mynd af þér í huga okkar, sætri og fínni með krullur í hárinu, í pilsi og fínni blússu, alltaf svo smart og fín.

Lífsgleðin og umhyggjan var stór hluti af þínu lífi, alltaf var passað upp á það að okkur liði vel. Þú hafðir mikinn áhuga á fólkinu í kringum þig og vildir vera með í því sem var að gerast hverju sinni.

Margar minningar eru sterkar í huga okkar eins og þegar þú sast við eldhúsborðið og varst að leggja kapal eða bakaðir handa okkur dýrindis pönnukökur þannig að húsið ilmaði. Á haustin mallaðir þú sultu í stóra pottinum úr rifsberjunum sem við hjálpuðum þér að tína og svo sátum við saman við eldhúsborðið að borða ristað brauð með nýrri rifsberjasultu og höfðum það huggulegt.

Elsku amma, við eigum eftir að sakna þín afskaplega mikið og það er margt í lífinu sem mun ætíð minna okkur á þig. Allar stundirnar okkar munu lifa áfram í hjartanu. Við þökkum samfylgdina í gegnum árin og megi guð geyma þig

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Inga Vigdís og

María Mekkín.

Þú áttir lengsta nafn á Íslandi, varst duglegasta kona í heimi, keyrðir bíl lengst af öllum ömmum, komst frá fleiri löndum en ég gat talið upp, varst fyrsta konan sem fluttir í Kópavoginn og áttir fallegasta garðinn.

Þú varst alltaf góð við allt og alla og það var engin hressari og skemmtilegri en þú.

Þetta var kannski ekki allt rétt en svona munum við eftir þér og eigum alltaf eftir að gera.

Þínar

Erna María og Ýr Þrastardætur.

Fáein orð til að kveðja elskulega föðursystur mína Jakobínu, eða Bínu eins og hún var jafnan kölluð en hún lést 25. maí á 96. aldursári. Það er hár aldur en Bína bar hann vel. Hún hélt andlegum styrk fram á síðasta dag. Í vetur leið er ég heimsótti hana í íbúð hennar á Gjábakka barst talið oftast til liðinna daga. Hún hafði einstaklega gott minni bæði á daglega atburði og það sem var fyrir tugum ára.

Um tvítugt flutti Bína frá Reyðarfirði til Reykjavíkur en hún hafði verið hjá foreldrum mínum frá ellefu ára aldri. Hún giftist Jóhanni Schröder garðyrkjumanni og bjuggu þau í Suðurgötu og höfðu þar gróðrarstöð og plöntusölu. Ég var sendur til þeirra til að ganga í skóla. Það var vorið 1937 en það sama sumar fengu þau lóð fyrir nýbýli í Fossvogi.

Nú hófst nýr þáttur í lífi þeirra Bínu og Jóhanns sem mætti líkja við landnám. Hús sitt í Fossvogi nefndu þau Birkihlíð og var það reist á einu sumri. Við þær aðstæður sem þá voru var það mikið afrek að reisa býli á einu sumri. Síma þurftu þau jafnvel að leggja sjálf alla leið frá kirkjugarðinum í Fossvogi. Bína vann geysilega mikið bæði innanhúss og utan og voru þau hjón samhent um allan frágang og snyrtilega umgengni.

Það varð fljótt gestkvæmt í Birkihlíð og Bína tók á móti öllum með sínu hægláta fasi og vingjarnlega yfirbragði. Ég heyrði hana aldrei kvarta þótt grannar eða ókunnugir berðu dyra og bæðu um að fá að nota símann. Heimilið í Birkihlíð bar frá fyrsta degi vott um fágun og smekkvísi sem Bínu var mjög eðlislæg. Bína var með stórt heimili er börn hennar þrjú voru í uppvexti og tók hún auk þess unglinga, frændur sína, til vetrardvalar. Ég heyrði Bínu aldrei atyrðast og hún var séstaklega hógvær í orðum, en átti þó til skemmtilega kímni og sagði listilega frá.

Þess verða þeir oft að gjalda er lifa til hárrar elli að sjá á bak ástvinum sínum. Eiginmann sinn missti Bína fyrir 34 árum og sonur hennar lést í október síðastliðnum. Við sem þekktum Bínu þökkum henni fyrir samfylgdina gegnum árin og varðveitum minningu um góða, trausta og göfuga konu.

Páll Þ. Beck.