Míkhaíl Khodorkovskí fylgt út úr dómshúsinu eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í máli hans. Hann var dæmdur til níu ára fangelsisvistar.
Míkhaíl Khodorkovskí fylgt út úr dómshúsinu eftir að dómur hafði verið kveðinn upp í máli hans. Hann var dæmdur til níu ára fangelsisvistar. — Reuters
Moskvu. AP. | Rússneski auðjöfurinn Míkhaíl Khodorkovskí, eigandi Yukos-olíurisans, var í gær dæmdur í níu ára fangelsi fyrir skattsvik, fjárdrátt, þjófnað og aðra glæpi. Var hann fundinn sekur í sex af sjö ákæruatriðum.

Moskvu. AP. | Rússneski auðjöfurinn Míkhaíl Khodorkovskí, eigandi Yukos-olíurisans, var í gær dæmdur í níu ára fangelsi fyrir skattsvik, fjárdrátt, þjófnað og aðra glæpi. Var hann fundinn sekur í sex af sjö ákæruatriðum. Khodorkovskí hefur þegar setið í fangelsi í 583 daga og kemur það til frádráttar refsingunni. Hann mun því afplána sjö og hálft ár í viðbót.

Khodorkovskí starði fram fyrir sig þegar dómurinn var kveðinn upp. Í yfirlýsingu frá honum sem lögmaður hans las upp eftir dómsuppkvaðninguna segist hann ekki setja út á dómarann því rétturinn hafi einungis verið peð á borði stjórnvalda.

Viðskiptafélagi hans, Platon Lebedev, var fundinn sekur fyrir sömu ákæruatriði og hlaut sama dóm en saksóknarar höfðu krafist 10 ára fangelsisdóms yfir mönnunum tveimur. Khodorkovskí og Lebedev voru auk þess dæmdir til að greiða tæplega 39 milljarða króna í skatta og fésektir. Þeir voru þó ekki fundnir sekir af ákæruatriði sem varðaði áburðarverksmiðjuna Apetit, því málið var talið fyrnt.

Dómurinn tvílesinn

Er dómarinn kvað upp dóminn sagði Lebedev við hann: "Það skilur engin heilvita manneskja hvað þú ert að segja." Dómarinn las dóminn því aftur fyrir hann.

Lögmenn Khodorkovskís og Lebedevs hafa tíu daga til að áfrýja dómnum og er fastlega búist við að þeir geri það. Ríkissaksóknari ítrekaði þó í gær að verið væri að undirbúa nýjar ákærur á hendur Khodorkovskí. Vladímír Ryzhkov, þingmaður rússneska þingsins, gaf í skyn á mánudaginn að stuðningshópur auðjöfursins hygðist jafnvel áfrýja málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Pólitísk aðför

Réttarhöldin yfir þeim félögum hafa þótt minna um margt á aðfarir gömlu sovésku kommúnistastjórnanna. Stuðningsmenn Khodorkovskís hafa lengi haldið því fram að þau séu þáttur í herferð rússneskra stjórnvalda, sem vilji hegna Khodorkovskí fyrir að leggja stjórnarandstöðuflokkum til fé og koma í veg fyrir að hann öðlist pólitískan frama. Mörgum finnst liggja nokkuð ljóst fyrir að með þessum málarekstri hafi Vladimír Pútín Rússlandsforseti náð að losa sig við óþægilegan keppinaut og samkvæmt dómnum mun Khodorkovskí sitja í fangelsi fram yfir forsetakosningarnar 2012.

Áður en Khodorkovskí var handtekinn var hann að mati Forbes -tímaritsins ríkasti maður Rússlands og einkaauður hans metinn á rúmlega 600 milljarða króna. Hann var einn "ólígarkanna", ofurríku viðskiptajöfranna, sem öðluðust pólitísk völd fyrir tilstilli auðs síns og sambanda. Sagt er, að þegar Pútín komst til valda hafi hann boðið "ólígörkunum" að stjórnvöld skyldu gleyma þeirra gömlu syndum ef þeir skiptu sér ekki meira af stjórnmálum. Khodorkovskí féllst ekki á samninginn en studdi opinberlega tvo stjórnarandstöðuflokka og ekki bætti úr skák fyrir honum, að farið var að tala um hann sem hugsanlegan forseta Rússlands 2008.

Hörð viðbrögð við dómnum

Dómurinn sem kveðinn var upp í gær hefur vakið hörð viðbrögð þeirra sem eru andvígir Pútín forseta og andtæðingar Khodorkovskís sjálfs hafa jafnvel mótmælt. "Þetta getur komið fyrir hvern þann sem sýnir sjálfstæði og lætur í ljós stjórnmálaskoðanir sem eru ekki samræmi við skoðanir ríkisvaldsins," sagði Irina Khakamada, þingmaður rússneska þingsins. Annar stjórnmálamaður sagði að dómurinn myndi ýta undir "frekari ótta, frekari óvissu, auk þess sem menn sannfærðust frekar um það að ekkert réttlæti væri til í landinu". Stuðningsmenn Khodorkovskís segja dóminn reiðarslag fyrir Rússland, hagsmuni þess og framtíð. Viktor Kremenjúk stjórnmálaskýrandi segir Khodorkovskí hafa verið ógnun við stjórnina. "Nafn hans var tengt við nýtt afl sem var ekki háð stjórnvöldum og í Rússlandi er það synd, mjög alvarleg synd." Aðrir segja milljarðamæringinn aldrei hafa átt möguleika á að sleppa auðveldlega. Ímynd Rússlands hafi verið svert og líklega muni draga úr erlendum fjárfestingum í landinu.

Bandaríski þingmaðurinn Tom Lantos sagði fyrir utan dómshúsið: "Þessi gerviréttur hefur komist að skammarlegri niðurstöðu."

Talsmenn rússneskra stjórnvalda leggja á hinn bóginn áherslu á að vitanlega hljóti ríkisvaldið að leita uppi stórtæka skattsvikara og fjárglæframenn. Khodorkovskí og aðstoðarmenn hans hafi gerst sekir um lögbrot sem ríkisvaldinu beri að refsa fyrir auk þess sem mikilvægt sé fyrir stjórnvöld í Rússlandi að auka virðingu manna fyrir lögum og tryggja betri skattheimtu.