Kristjana Steingrímsdóttir fæddist í Reykjavík 21. ágúst 1932. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans 19. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Steingrímur Magnússon fisksali, f. 2. apríl 1895, d. 4. desember 1991, og Kristjana Einarsdóttir húsmóðir, f. 20. júlí 1895, d. 4. apríl 1938. Þau eignuðust átta börn og var Kristjana næstyngst. Systkini hennar voru: Ágústa, f. 1918, Magnús, f. 1920, Kristinn, f. 1922, Guðlaug, f. 1926, Ingiríður, f. 1930, Steingrímur, f. 1931, og Auður, f. 1935. Seinni kona Steingríms var Sigríður Vilborg Einarsdóttir, f. 29. apríl 1907, d. 24. október 1993. Sonur þeirra er Örn Helgi, f. 1942.

Kristjana eignaðist tvö börn, þau eru: 1) Kristinn Björnsson, f. 13. september 1955, kvæntur Jenný L. Grétudóttur, f. 18. október 1956. Þau eiga þrjú börn, Örnu Björk, Grétu Maríu og Kristin Þór og eitt barnabarn, Alexander Tristan. 2) Vilborg F. Grétarsdóttir, 31. október 1968, gift George D. Fawondu, f. 14. mars 1971, sonur þeirra er Kristófer og fyrir átti Vilborg eina dóttur, Kristjönu.

Kristjana var gift Magnúsi Sólmundarsyni. Þau skildu.

Kristjana gekk í Ingimarsskóla og í gagnfræðaskólann í Miðbæjarskóla og stundaði nám í Húsmæðraskólanum á Akureyri. Hún ólst upp og bjó í Reykjavík og stundaði ýmis störf. Hún vann lengi á ljósmyndastofu og seinni hluta ævinnar vann hún við umönnun aldraðra.

Útför Kristjönu fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag og hefst athöfnin klukkan 15.

Elsku mamma. Ég sit og reyni að finna orð til að kveðja þig en mér er orða vant. Þú varst besti vinur minn, kletturinn og undirstöðurnar í lífi mínu og sú manneskja sem ég gat alltaf leitað til. Þú varst hógvær, traust, friðelskandi og æðrulaus. Þú varst ekki mikið fyrir að kvarta og taldir að það væri ekki til neins. Ef eitthvað var þá hafðir þú þig of lítið í frammi. Ófáum stundum höfum við eytt saman og rætt um allt milli himins og jarðar. Ekkert getur komið í stað þeirra stunda en ég geymi minningarnar og leita til þín í huganum þegar mig vantar ráð, stuðning og leiðbeiningar. Heimili þitt var alltaf opið og þú tókst alltaf vel á móti okkur systkinunum.

Börnin mín hafa misst ömmu sína og þau sakna hennar sárt. Þú áttir við erfið veikindi að stríða og tókst hetjulega á við þau og af einstöku æðruleysi. Stórt tómarúm ríkir í hjörtum okkar sem aldrei verður fyllt.

Þín verður sárt saknað og munt lifa áfram í hjörtum okkar.

Elsku mamma, takk fyrir allt sem þú hefur gefið.

Þín dóttir

Vilborg.

Mér hefur verið þungt fyrir brjósti eftir að þú kvaddir þennan heim. Þannig er það stundum að sjálfsagður hlutur eins og súrefni gerir rækilega vart við sig ef það er ekki til staðar. Þannig upplifði ég brotthvarf þitt.

Eitthvað innra með mér neitar að trúa að þú skulir vera farin. Þú varst stór hluti af minni framtíðarmynd.

Ég veit að þú barst í brjósti von um skemmtilega framtíð með fjölskyldunni sem öll unni þér.

Það er vonin blíða og bjarta

bezt er friðar órótt hjarta,

himinsæla í harmageimi,

helgast lífsins andartak,

heimsins ljúfust leiðarstjarna,

ljós á vegum foldarbarna

böli mæddan hressir huga

og harmi snýr í gleðikvak.

(Kristján Jónsson.)

Við áttum eftir að kryfja lífið og tilveruna, spá í framtíðina. Þú vildir fylgjast með barnabörnum og barnabarnabörnum sem þú varst svo stolt af. Ég fann að þú hlakkaðir til þessara stunda með fjölskyldu þinni. Símtölum var farið að fjölga til að fá fréttir af því hvað á daga okkar hefði drifið. Þú skammaðist ef strákurinn þinn var ekki nógu duglegur að láta í sér heyra. Ég var ánægður með þessa ræktarsemi þína, fannst hún notaleg.

Nærvera þín var alltaf ljúf, engar óþarfa uppákomur eða flugeldasýningar, eitthvað svo náttúrulegur tónn í öllu. Þú varst óþarflega hógvær, skapið var til staðar en aldrei virkjað til stórátaka. Mér tókst aldrei að skaprauna þér. Þar kom til æðruleysi þitt, þín létta lund og smitandi hlátur þinn sem kom mér alltaf í gott skap.

Samskipti okkar eru í mínum huga flekklaus. Ég fann alltaf fyrir ást þinni og væntumþykju. Ég veit að þú vissir hversu vænt mér þótti um þig en það áttum við sameiginlegt að við vorum ekki nógu dugleg að deila þessum tilfinningum.

Eins og skáldið sagði:

Ég er ekki mikið fyrir að vera innan um fólk, í staðinn hef ég það þeim mun oftar í huganum. Að vera með fólk í huganum er að mínu viti göfugra en að vera stöðugt innan um það.

(Guðbergur Bergsson.)

Þannig vorum við, mamma; alltaf saman í huganum.

Þú áttir þína drauma, þínar þrár og ástríður. Einnig fylgdi þér einhver undiralda sem þú fórst dult með.

Þessa dulúð tókst þú með þér úr æsku þinni, eitthvað sem við náðum aldrei að mála mynd af, kannski var engin mynd þarna eða allavega ekki mynd máluð í sterkum litum. Kannski var ég bara óþarflega harmrænn og dramatískur.

Þú gerðir aldrei mikið úr hlutunum. Ef það var einhver harmur þá barst þú hann í hljóði.

Elsku mamma mín, það stóð mikið til eftir að þú komst á eftirlaun. Tilhlökkun um ljúfa daga og ný ævintýri var mikil.

Erfiðleikar vegna sjúkdóma urðu reyndar þitt hlutskipti en aldrei kvartaðir þú, jafnvel þó að skammtur þinn af mótlæti í gegnum tíðina væri hverjum meðalmanni meira en nóg.

Að vera ávallt góður er sönn viska. Ég tek undir það. Allt verður eitthvað svo miklu auðveldara, hugsunin verður skýrari, meiri yfirvegun og jafnvægi. Einnig verður maður betur í stakk búinn til að takast á við erfiða hluti.

Mamma, þú varst alltaf góð enda bjóst þú yfir sannri visku.

Þótt hæsta gálga eg héngi á,

ó, móðir mín, ó, móðir mín,

ég veit, hvers ást mér yrði hjá,

ó, móðir mín, ó, móðir mín.

Þótt drekkt mér væri í dýpstum mar,

ó, móðir mín, ó, móðir mín,

ég veit hvers tár mín vitjuðu þar

ó, móðir mín, ó, móðir mín.

Þótt fordæming mig félli á,

ó, móðir mín, ó, móðir mín,

ég veit, hvers bæn mér bjargaði þá,

ó, móðir mín, ó, móðir mín.

(Rudyard Kipling.)

Þú munt lifa áfram í hjörtum okkar, elsku mamma.

Þinn sonur

Kristinn.